„Ég nota oft efnivið sem ég hef átt lengi, eins og ljósmyndir, og breyti í eitthvað annað,“ segir Helgi.
„Ég nota oft efnivið sem ég hef átt lengi, eins og ljósmyndir, og breyti í eitthvað annað,“ segir Helgi. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hér þarf maður að hugsa um rýmið inni í salnum en líka um það sem er fyrir utan.

Helgi Hjaltalín sýnir grafíkmyndir og vatnslitamyndir í Y gallery í Kópavogi. Sýningin er opin á laugardögum milli 14-15.

Grafíkmyndirnar eru 300 og myndefnið er gömul ljósmynd af óskilabarni. „Ég er búin að eiga þessa mynd í úrklippu í tuttugu ár, hún er líklega úr tímariti Þetta er fréttaljósmynd, gæti verið frá 1970 eða kringum það og er af óskilabarni á hátíð, hugsanlega 17. júní,“ segir Helgi. „Ég skapaði grafík úr þessari mynd, en ekki hefðbundna grafík því engin grafíkmyndanna er eins. Ég er alltaf að gera mistök og prófa mig áfram og pappírinn sem ég nota er mismunandi. Þannig að þetta er ekki eins og hefðbundin grafík þar sem allar myndir verða eins.“

Einn veggur bensínstöðvarinnar er þakinn þessum myndum en á miðjum veggnum er auður flötur, eða það sem Helgi kallar draugaprent. Þessi auði flötur er í sömu stærð og tvær vatnslitamyndir á sýningunni sem sýna heimsókn Winston Churchills til Reykjavíkur á árum seinna stríðs. Myndirnar hanga öfugt á veggnum.

„Nú eru 80 ár frá D-deginum og einnig 80 ár frá því við Íslendingar fengum sjálfstæði, eiginlega í gegnum það að við vorum hernumin. Svo eru ráðamenn eins og Churchill alltaf að senda annarra manna börn í stríð. Það má segja að þannig sé tenging á milli grafíkmyndanna af óskilabarninu og vatnslitamyndanna,“ segir Helgi. „Þegar Churchill kom til landsins var hirðljósmyndari með í för og tók myndir af honum sem voru gefnar út í möppum. Ég eignaðist eina slíka og myndirnar þar voru litaðar og með árunum höfðu þær krumpast þannig að það sá mikið á þeim. Ég teiknaði eftir þessum gömlu myndum, tók mínar myndir síðan í sundur og vatnslitaði einn bút í einu og skeytti síðan bútunum saman.“

Litlar grafíkmyndir eru einnig á sýningunni og sýna sama myndefni og vatnslitamyndirnar, það er að segja heimsókn Churchills, en listamaðurinn hefur klippt himin og jörð í burtu og bætir vatnslitum og prentlitum við á myndunum.

„Þetta er nokkuð dæmigert fyrir það sem ég geri venjulega. Ég nota oft efnivið sem ég hef átt lengi, eins og ljósmyndir, og breyti í eitthvað annað,“ segir Helgi

Y gallery er í gamalli Olís bensínstöð í Kópavogi. „Ég hef alltaf að einhverju leyti verið að vinna með rými. Mér finnst oft betra að það sé eitthvað erfitt í rýminu sem hægt er að takast á við frekar en að allt smelli strax saman. Hér þarf maður að hugsa um rýmið inni í salnum en líka um það sem er fyrir utan. Sýningin er bara opin á laugardögum þannig að flestir sjá hana utan frá. Ég vildi að fólk sæi verkin þegar það horfði í átt að sýningargluggunum,“ segir Helgi.

Sýningin í Y gallery er annar hluti af þríleik Helga sem hófst með sýningunni Haugsuga/Dreifari í Kling&Bang árið 2022, en þar vann listamaðurinn með ljósmyndir af skiltum sem hann vatnslitaði. Hann er byrjaður að vinna að þriðju sýningunni. „Ég veit hvernig hún á að vera en er ekki tilbúinn að tala um hana núna,” segir Helgi.

Sýningin í Y gallery stendur til 17. ágúst.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir