Fyrr í sumar voru settar upp flotbryggjur á norðurfyllingu Húsavíkurhafnar við slökkvistöðina í bænum. Kristinn Jóhann Ásgrímsson, rekstrarstjóri hafna Norðurþings, segir að með tilkomu þeirra þurfi umferð skemmtiferðaskipa ekki að teppa aðrar bryggjur í höfninni og öruggara pláss sé fyrir smábátana. Þá segir Kristinn að betra aðgengi sé fyrir rútur og fyrir ferðamennina á þessum stað.
Til Húsavíkur koma á bilinu 50-60 skemmtiferðaskip með um 15-20 þúsund farþega á ári og sum þeirra eru of stór til að leggjast að bryggju og þurfa að vera á akkeri úti á pollinum og þá nýtist þessi aðstaða fyrir þau. Fyrstu skipin koma um miðjan maí og síðustu skipin leggja að bryggju í september eða október. Segir Kristinn framkvæmdina hafa verið í bígerð í nokkur ár og að hún breyti miklu fyrir höfnina og notendur hennar. Kostnaður við framkvæmdina hleypur á tugum milljóna en Kristinn segir gert ráð fyrir að bryggjurnar endist í áratugi.