Tónlistarmaðurinn Magnús Kjartansson verður fjórði listamaðurinn sem fær hjartastein sér til heiðurs við Bæjarbíó í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri afhjúpar steininn á laugardag fyrir framan Bæjarbíó klukkan 18.30.
Magnús er Keflvíkingur en Hafnfirðingar eiga einnig mikið í honum, að því er segir í tilkynningu frá Bæjarbíói.
Þar segir að Magnús hafi búið í Hafnarfirði í 33 ár en á þeim tíma hafi hann verið „viðriðinn upptökur, útsetningar, hljóðfæraleik og upptökustjórn á mörgum af þekktustu lögum 8., 9. og 10. áratugar síðustu aldar“.
Þar eru nefnd Brimkló, HLH flokkurinn, Halli og Laddi, Brunaliðið, Vilhjálmur Vilhjálmsson og Geirmundur Valtýsson.
Blæs til tónleika
Í Hafnarfirði hafi hann samið mörg af sínum þekktustu lögum.
Í tilefni þessa heiðurs efnir Magnús ásamt Vintage Caravan, auk sinnar eigin hljómsveitar, til tónleika í Bæjarbíói þann 21. september næstkomandi. Með honum í för verða góðir gestir með Stefán Hilmarsson í fararbroddi
Magnús er fjórði listamaðurinn sem hlýtur hjartastein í Hafnarfirði.
Björgvin Halldórsson tónlistarmaður hlaut fyrsta hjartasteininn sumarið 2021. Þá var annar hjartasteinninn lagður í minningu Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar sumarið 2022.
Leikarinn og skemmtikrafturinn Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi, hlaut þriðja hjartasteininn sama ár.