Pétur Þór Gunnarsson fæddist í Vestmannaeyjum þann 12. september 1958. Hann lést á Grund þann 28. júní 2024 eftir erfið veikindi.
Móðir Péturs er Ásta Guðbjörg Þórarinsdóttir, f. 1938, eiginmaður hennar er Guðmundur Karlsson, f. 1936. Faðir Péturs er Gunnar Rúnar Pétursson (1938-2017).
Eiginkona Péturs er Erna Flygenring, f. 9. september 1958. Foreldrar Ernu eru Margrét Dagbjört Bjarnadóttir (1931-2014) og Kristján Ágúst Flygenring (1927- 2011).
Börn Ernu og Péturs eru: 1) Margrét Dagbjört, f. 1988, eiginmaður hennar er Jóhann Gísli Jóhannesson, f. 1986. Synir þeirra eru: Rúrik Pétur, f. 2012, Emil Kári, f. 2017, og Máni Hrafn, f. 2022. 2) Berglind Drífa, f. 1990, kærasti hennar er Kári Viðarsson, f. 1984. Dóttir Berglindar og Dimitris Sklias er Erna Olympía, f. 2020. 3) Kristján Ágúst, f. 1992, eiginkona hans er Katrín Heiða Guðjónsdóttir, f. 1992. Dætur þeirra eru: Aþena Erna, f. 2020, og Apríl Edda, f. 2024. 4) Melkorka Katrín, f. 1998.
Pétur lauk myndlistarnámi frá Det Fynske Kunstakademi árið 1987.
Pétur Þór var listmálari ásamt því að reka Gallerí Borg og Antikverslun Gallerí Borgar um árabil ásamt eiginkonu sinni. Hann starfaði einnig sem matreiðslumaður og við hin ýmsu verslunarstörf tengd rekstri veitingastaða.
Útför Péturs Þórs fer fram í dag, 18. júlí 2024, kl. 13 í Hafnarfjarðarkirkju.
Minn besti vinur og maðurinn minn er fallinn frá, hann skilur eftir sig ómetanlegar og fallegar minningar sem ekki verða frá okkur teknar. Við Pétur vorum heppin að eiga hvort annað og vera bestu vinir. Við kynntumst rétt rúmlega tvítug, samleiðin var löng en yndisleg, skemmtileg, fjölbreytileg og oft á tíðum ófyrirsjáanleg. Það var gott að deila lífinu með Pétri, hann var mér og börnunum góður.
Pétur ólst upp hjá afa Pétri sem reyndist honum vel.
Pétur nam myndlist við Det Fynske Kunstakademi. Hann var fljótur að ná tökum á dönskunni, talaði hana reiprennandi með þessum flotta danska hreimi þannig að Danir héldu að hann væri danskur. Í náminu skaraði hann fram úr, var frábær teiknari og afburðamálari. Þegar Pétur lauk námi var honum boðið að halda sýningar víðsvegar um Danmörku.
Árið 1993 keyptum við Gallerí Borg, sem þá var stærsta gallerí landsins. Pétur sá um reksturinn, gerði flott gallerí ennþá flottara og héldum við mörg uppboð. Pétur var frábær uppboðshaldari, á pari við það sem erlendis þekkist, hann var góður í sögu og landafræði og fléttaði þeim upplýsingum við þar sem það átti við um hvert verk fyrir sig. Seinna varð til Antikverslun Gallerís Borgar, gjafavöruverslunin Notre Dame, síðar opnuðum við Gallerí Borg að nýju, eftir áralangt hlé.
Eins og oft vill verða þegar einhver skarar fram úr og vekur undrun og aðdáun er stutt í systurnar öfund og afbrýði. Pétur fékk að finna fyrir því, sú aðför sem að honum var gerð er engum sem þátt tóku í henni til sóma. Sú aðför stóð yfir í mörg ár. Pétur hélt alltaf fram sakleysi sínu, tapaði aldrei gleðinni og góðmennskunni og við stóðum saman. Pétur hafði aðlögunarhæfni sem um var talað, alltaf fann hann leiðir til að halda áfram og bar höfuðið hátt.
Pétur var litríkur karakter, málaði litríkar myndir, klæddi sig í litrík föt, var alltaf smart og allt fór honum vel. Öll munum við eftir rauðu buxunum, marglitu skyrtunum og fallegu peysunum.
Heimili okkar Péturs var alltaf opið fyrir vinum barnanna, þau voru velkomin í mat og spjall. Hlý orð þessa unga fólks, nú þegar Pétur er látinn, segja allt sem segja þarf.
Pétur var framúrskarandi kokkur, sjálflærður, bjó til besta matinn, var frábær gestgjafi.
Tónlistin skipaði stóran sess í lífi Péturs, hann hlustaði mikið á tónlist, var vinur Rúna Júl og mikill Sálarmaður. Hann spilaði alltaf hátt þegar hann var að elda eða að mála inni eða úti á palli.
Börn okkar Péturs, þau Margrét, Berglind, Kristján og Melkorka, eru til fyrirmyndar, eru stolt okkar foreldranna. Pétur var frábær pabbi, blíður og góð fyrirmynd. Barnabörnin sex elskuðu Pétur afa sinn sem dekraði við þau af alúð og hlýju.
Fyrir nokkrum árum greindist Pétur með erfiðan sjúkdóm. Hann gat þó málað fallegar og kraftmiklar myndir þar til fyrir stuttu, var í dagvistun í Hlíðabæ, þar sem hann var með vinnustofu, þökk sé Hjördísi fyrir hennar ómetanlega stuðning.
Pétur lést á Grund þann 28. júní, horfinn er af sviðinu litríkur og góðhjartaður maður. Ég sakna hans en er þakklát fyrir lífið okkar saman.
Erna.
Elsku pabbi. Ég hugsa um þig oft á dag og er í sífellu að rifja upp minningar af þér, þær veita mér hlýju í hjartað og styrk til að halda áfram í söknuðinum sem er óbærilegur. Ég er þakklát fyrir allt sem við áttum saman og allan þann mikla tíma sem við vörðum saman, hvort sem það var heima í hversdagsleikanum, ferðalög okkar fjölskyldunnar, þegar við unnum saman eða þegar þú komst í óteljandi heimsóknir til okkar Jóhanns og strákanna í seinni tíð.
Takk fyrir að gefa þig allan í afahlutverkið, strákarnir muna eftir afa sínum með gleði í hjarta, þú varst þeim svo góður. „Afi Pét“ var bestur, en ekkert rosa góður í FIFA eins og Emil orðaði það. Rúrik, ábyrgðarfullur eins og hann er, sagði oft við mig eftir að þú varst fluttur á Grund: „Mamma hringdu í afa, United er að fara að spila.“ Hann vildi passa upp á að þú misstir ekki af leik með þínum mönnum. Samband ykkar var einstakt og þeir sakna þín sárt. Máni litli gladdi þig svo mikið örfáum dögum áður en þú kvaddir, ég kom með hann til þín og það var eins og einhver hefði ýtt á takka á þér, þú lifnaðir við og brostir hringinn. Þannig voru barnabörnin í þínum augum. Þau voru í uppáhaldi hjá þér og þú sömuleiðis hjá þeim.
Líf þitt var óhefðbundið og sérstakt. Þú upplifðir meira en margur en á sama tíma skilur þú meira eftir en flestir, bæði í formi listaverka en einnig í formi minninga í hjörtum okkar sem vorum samferða þér í gegnum lífið. Þú kenndir mér svo margt og ég held fast í það. Þú sagðir einu sinni við mig setningu sem ég gleymi aldrei. Ég var að skila af mér verkefni í menntaskóla og ég hafði áhyggjur af því að kennaranum þætti lítið til þess koma sem ég var að gera. Þá sagðirðu: „Veistu, og hvað með það? Fólki mun alltaf finnast alls konar um það hvernig þú ert og hvað þú gerir. Eina sem skiptir máli er að þú sért sátt.“ Ég held að þetta hafi haft meiri áhrif á mig en ég hef gert mér grein fyrir.
Ég mun halda áfram að hugsa til þín og tala við þig því ég veit að þú fylgist með úr fjarlægð og passar upp á okkur. Ég hugsa til þín þegar ég horfi á málverkin þín, elda, vökva blómin, klæðist litum, fæ mér einn kaldan, dunda við að gera fínt á heimilinu, sit úti í sólinni, hlusta á Bubba, fæ mér marengs og ótal sinnum þess á milli.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Pabbi, ég elska þig og sakna þín. Takk fyrir allt, þú varst mér svo dýrmætur.
Þín dóttir,
Margrét Dagbjört.