Sprungur Gatnakerfi Grindavíkur sem og innviðir eru illa farin eftir þær jarðhræringar sem orðið hafa á svæðinu frá því í nóvember á síðasta ári.
Sprungur Gatnakerfi Grindavíkur sem og innviðir eru illa farin eftir þær jarðhræringar sem orðið hafa á svæðinu frá því í nóvember á síðasta ári. — Morgunblaðið/Eyþór
Veðurstofan hefur gefið út tilkynningu þess efnis að líkur á gosi innan Grindavíkur fari vaxandi og Grindarvíkurnefnd vonast til að framkvæmdir innan bæjarins hefjist sem fyrst. Árni Þór Sigurðsson er formaður Grindavíkunefndarinnar og segir að fólk …

Elínborg Una Einarsdóttir

elinborg@mbl.is

Veðurstofan hefur gefið út tilkynningu þess efnis að líkur á gosi innan Grindavíkur fari vaxandi og Grindarvíkurnefnd vonast til að framkvæmdir innan bæjarins hefjist sem fyrst.

Árni Þór Sigurðsson er formaður Grindavíkunefndarinnar og segir að fólk geti ekki bara hætt við framkvæmdirnar þó ekki sé vitað hvenær umbrotunum í og við Grindavík ljúki. Nefndin kynnti ríkisstjórninni aðgerðaáætlun í síðustu viku og segir Árni hana miða að því að auka öryggi í bænum.

„Hún felst fyrst og fremst í því að ráðst í viðgerðir á götum og stígum til þess að auka öryggi í bænum. Þetta eru viðgerðir á gatnakerfi, lögnum og öðrum samgönguleiðum. Síðan er líka gert ráð fyrir að girða af óöruggari svæði með tryggari hætti en gert er í dag,“ segir Árni Þór.

Full ástæða til að hefjast handa

Spurður hvenær til standi að hefja framkvæmdir segir Árni: „Ég er nú að vonast til að það geti bara orðið mjög fljótlega.“

Hann reiknar með að nefndin fundi með þeim sem komi að málinu fyrir vikulok og að þá verði útbúin frekari tímaáætlun auk þess sem öryggismál verði rædd.

Spurður hvort tilkynning Veðurstofunnar um auknar líkur á gosi innan Grindavíkur setji ekki strik í reikninginn segir Árni:

„Það má kannski bæði segja já og nei, í okkar aðgerðaáætlun gerum við grein fyrir því að hættumatið sé að taka breytingum og við erum auðvitað með þann fyrirvara í áætluninni að ef náttúran tekur einhver völd með þeim afleiðingum að ekki sé hægt að halda áfram eða ráðast í framkvæmdir þá sé það svoleiðis.“

Hann bætir við að nefndin telji fulla ástæðu til að fara af stað með undirbúning þannig að það sé hægt að fara af stað með framkvæmdir. Bætir hann við að undirbúningsvinnan komi þó til með að taka tíma.