„Það styttist bráðum í að það verði uppselt á böllin, bæði á föstudag og laugardag,“ segir Viktor Freyr Elísson, stofnandi og framkvæmdastjóri Sápuboltans á Ólafsfirði. Nefnir hann að 56 lið keppi í sápubolta um helgina og að 330 keppendur séu skráðir til leiks.„Við gerum ráð fyrir að þetta verði samt alveg 350 keppendur,“ bætir hann þó við.
Kveðst hann eiga von á að hátt í þúsund gestir sæki Ólafsfjörð um helgina vegna hátíðarhaldanna.
Allir fúsir að hjálpa til
Viktor segir að undanfarin ár hafi í grunninn fimm manns unnið að skipulagningu hátíðarhaldanna en í ár hafi tvær dömur bæst í hópinn. „En svo fáum við náttúrulega ótrúlega mikla hjálp,“ segir hann og tekur sem dæmi að Tandur útvegi alla sápu sem þekur leikvellina.
„Það er líka svo fyndið að í bænum eru allir af vilja gerðir til að hjálpa, aðstoða og redda okkur hinu og þessu,“ bætir hann við.
Spurður hvort eitthvað sé breytt með hátíðarhöldunum í ár svarar Viktor að vegna mikils fjölda keppenda hafi þurft að finna annan stað til að keppa í sápubolta.
„Við erum sem sagt komnir á æfingasvæðið hjá KF og bætum við einum velli líka þannig að nú eru sex vellir,“ útskýrir hann.
Vilja tryggja að allir njóti
„Þetta verður alvöru fjör,“ segir Viktor og nefnir að Stuðlabandið og Diljá komi fram á föstudeginum en á laugardeginum stígi einnig margir þekktir tónlistarmenn á svið. Telur hann upp meðal annars Birni, Daniil og Prettyboitjokko og lýsir því stoltur að tónlistarmennirnir séu margir farnir að eiga frumkvæði að því að koma fram á Sápuboltanum.
„Það er svo miklu meiri stemning þegar þeir skemmta sér líka,“ útskýrir hann og kveðst virkilega spenntur fyrir helginni.
Mikil stemning verður á Sápuboltanum á Ólafsfirði um helgina en búist er við fleiri leikmönnum og gestum en nokkru sinni fyrr.