Erla Hafdís Steingrímsdóttir, húsmóðir og handverkskona, fæddist í Reykjavík 8. mars 1965. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands 4. júlí 2024.

Foreldrar Erlu voru Sóley Njarðvík Ingólfsdóttir, f. 13. maí 1947, d. 18. ágúst 2014, og Steingrímur Guðni Pétursson, f. 12. nóvember 1942, d. 10. október 2023. Sammæðra bróðir Erlu er Bergþór Heimir Njarðvík og samfeðra bræður eru Hilmar, Albert og Sæþór Steingrímssynir.

Erla eignaðist fimm börn. Elstur var: 1) Jónas Ingólfur Lövdal, f. 30. september 1982, d. 30. júní 2020. Með fyrri sambýlismanni sínum, Einari Kristjánssyni, eignaðist Erla eitt barn: 2) Huldu Ólöfu, f. 1. apríl 1985, eiginmaður Huldu er Sigfús Helgi Kristinsson og börn þeirra eru Pétur Jóhannes, Rebekka Klara og Sigþór Draupnir. Með eiginmanni sínum og síðari sambýlismanni, Jóhannesi Lúther Gíslasyni, f. 16. ágúst 1945, eignaðist Erla þrjú börn: 3) Gísla Trausta, f. 1. febrúar 1988, 4) Daníel Guðna, f. 10. mars 1997, unnusta Karlotta Rós Þorkelsdóttir, og 5) Eygló Fjólu, f. 5. desember 1998, sambýlismaður Friðrik Páll Hjaltested.

Erla Hafdís ólst að miklu leyti upp hjá móðurforeldrum sínum, Ingólfi og Sóleyju, í Dísardal og flutti síðar með móður sinni, Sóleyju Njarðvík, að Írabakka í Breiðholti. Hún var snemma bæði eljusöm og sjálfstæð, byrjaði ung að vinna og varð ófrísk að fyrsta barni sínu 17 ára gömul. Annað barn fæddist henni tveimur árum síðar. Þegar Erla var tvítug réð hún sig sem ráðskonu á Bláfeld í Staðarsveit og flutti þangað búferlum með börnin tvö. Þar giftist hún og eignaðist þrjú börn. Á tíma sínum á Bláfeldi fór Erla með hússtjórn, sinnti ýmsu frumkvöðulsstarfi og margs konar handverki af mikilli alúð. Síðar fluttist hún til skamms tíma á Reykjanesskaga og þaðan á Akranes, þar sem hún bjó síðustu árin.

Erla verður jarðsungin frá Akraneskirkju í dag, 18. júlí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ég mun minnast móður minnar á sínum betri árum þar sem hún sá um okkur og ferðaðist um landið með okkur. Hún var alltaf góð við hvern mann sem hún kynntist, trúði alltaf á það besta í náunganum og rétti hjálparhönd hvenær sem hún mögulega gat. Ein súrsæt minning sem ég á er þegar ég var á leiðinni í framhaldsskóla. Hún var alls ekki sátt við að ég væri að fara að heiman og varð mjög leið og pirruð yfir því að barnið hennar væri að fljúga úr hreiðrinu. Ósætti varð um lítið sjónvarpstæki sem ég hafði keypt í fríhöfninni á leiðinni heim frá Færeyjum í 7. bekk, en því réð væntanlega fullt af tilfinningum sem hún réð ekki við og úr varð smá rifrildi sem hafði síðan gleymst næst þegar ég kom heim í heimsókn. Þetta sýnir að hún elskaði okkur börnin mjög mikið og hún vildi ekki sleppa manni út í þennan stóra heim, þótt það væri kominn tími til þess.

Gísli Trausti Jóhannesson.

Elsku mamma mín!

Lífið gaf þér mikið en tók líka allt of mikið!

Þú fékkst svo sannarlega ekki alltaf sanngjarna hönd, en þú sýndir mér öðru fremur gildi þess að gera alltaf það besta úr öllum aðstæðum. Þú varst svo kraftmikil og ákveðin, en á sama tíma með svo mikinn kærleika, væntumþykju og réttsýni, og hafðir lag á því að sjá alltaf það besta í öllum. Þú elskaðir að kenna og miðla því sem þú hafðir lært á lífsleiðinni. Þú kenndir mér margt sem ég hef tekið með mér út í lífið, og það helsta er að koma fram af kærleika, samkennd og væntumþykju gagnvart öðru fólki. Ef ég á að nefna minningu frá bernsku sem hlýjar mér um hjartarætur þá er það t.d. að á hverju kvöldi labbaðir þú með okkur upp í rúm og fórst með bænirnar með okkur. Ég gat ekki hugsað mér að fara að sofa án þess að búið væri að fara með bænirnar. Seinna meir, þegar ég varð móðir sjálf, þá blómstraðir þú einnig sem amma. Þú varst alltaf tilbúin að vera til staðar fyrir Pétur, Rebekku og Sigþór; þau voru litlu blómin þín! Og þegar þú fékkst fregnir af því að þú værir að verða langamma næstkomandi nóvember þá ljómaðirðu og þú fékkst yfir þig kraft og styrk, því þú ætlaðir sko aldeilis út til Bandaríkjanna með okkur í vetur til að kynnast litla blóminu sem er að bætast við fjölskylduna.

Ég trúi því ekki að það sé komið að kveðjustund hjá okkur, að svo stöddu, því þú kenndir mér aldrei hvernig ég færi að án þín, elsku mamma mín! Ég elska þig meira en orð fá lýst – þangað til næst,

Hulda Ólöf.

Elsku Erla.

Okkar fyrstu kynni eru mér ljóslifandi í minni. Við komum að Bláfeldi kvöld eitt snemma vors í þeim erindagjörðum að kynna mig – tilvonandi tengdason – fyrir þér og öðru heimilisfólki. Ég var rétt liðlega tvítugur sveitastrákur og lífsóreyndur eftir því, en Hulda þín fáeinum árum eldri og þó nokkru lífsreyndari. Skrefin frá bílnum að útidyrahurðinni tók ég hægar en góðu hófi gegndi, enda bæði feiminn og stressaður. Þú tókst á móti okkur í anddyrinu og faðmaðir Huldu þétt og lengi. Á meðan staulaðist ég í kringum sjálfan mig í bakgrunni og forðaðist augnsambandið sem þú bauðst upp á handan þröskuldarins. Þegar þú slepptir takinu af Huldu vissi ég ekki við hverju væri að búast en hin augljósa taugaveiklun bráði fljótlega af mér vegna þess að þú gekkst að mér með faðminn útbreiddan, stórkostlega breitt bros og heilsaðir mér háum rómi. Svo faðmaðirðu mig að þér, þéttar og lengur en mér þótti sérstök ástæða til, og bauðst mig hjartanlega velkominn í bæinn sem og í fjölskylduna. Þú varst svo örugg í fasi og kveðjan svo einlæg að ég trúði þér. Ég gat ekki annað; ég fann sannarlega að ég væri velkominn. Þar með skruppu saman áhyggjurnar um eigið ágæti sem ég hafði magnað með mér alla bílferðina vestur og gufuðu upp á augnabliki. Það var engin þörf fyrir tilgerð, þú krafðir mig einskis. Þú tókst mér opnum örmum og einlægnin þín hreyfði við mér, gaf mér svigrúm og þvingaði mig í einhverjum skilningi til þess að endurgjalda í sömu mynt.

Þegar ég hugsa til baka geri ég mér grein fyrir því að þú hafir líkast til áttað þig á því hve stressaður ég væri fyrir þessum kynnum, en hafir ákveðið að hjálpa mér, leiða mig áfram. Þú varst nefnilega einfaldlega þannig – kærleiksrík með eindæmum, hreinskilin, samkvæm sjálfri þér og einlægari en gengur og gerist. Þannig minnist ég þín, elsku Erla, og heiti því að reyna mitt besta til þess að fylgja þínu fordæmi.

Takk fyrir kynnin og góða ferð.

Sigfús Helgi Kristinsson.