Núna er að koma að því að taka þá ábyrgð og þið skuluð bera hana með ykkar lífi! Þú ert þjóðarmorðingi ásamt öllum öðrum þingfíflum. Þú valdir og núna eru skuldadagar að koma,“ – var sagt við mig fyrir stuttu á opinberum vettvangi (FB-hóp).
Þetta er ekki fyrsta hótunin sem ég hef fengið og verður örugglega ekki síðasta hótunin heldur. Ég veit að margir aðrir þingmenn hafa einnig fengið hótanir. Ástandið er orðið þannig að forsætisráðherra þarf orðið lögreglufylgd hvert sem hann fer.
Á Íslandi er skyri slett, eggjum hent og glimmeri dreift. Í Bandaríkjunum er skotið með riffli.
Höfum það algerlega á hreinu að þó einhver hendi glimmeri þýðir það alls ekki að sami aðili geti skotið af riffli. Þó hvort tveggja geti flokkast sem ofbeldi þá er himinn og haf þar á milli í alvarleika. Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli þess að sletta skyri og að skjóta með riffli.
Það er ferðarinnar virði að íhuga í örstutta stund hvaðan svona ofbeldi kemur því einungis með því að skilja „af hverju“ getum við komið í veg fyrir ofbeldi í framtíðinni. Ástæðan fyrir hótuninni hérna efst í greininni var tengd bóluefnum í kjölfar covid, sem dæmi.
Það er mjög skiljanlegt að fólk hafi miklar tilfinningar vegna covid og bóluefnanna vegna þess að áhættan snerist einfaldlega um líf fólks. Hvað þarf hins vegar til, til þess að þær tilfinningar leiði fólk út í líflátshótanir?
Við því er ekkert auðvelt og einfalt svar, annars væri þetta líklega ekki vandamál. Í þessu tilfelli virðist ástæðan vera að íslenskir þingmenn séu einhvern veginn ábyrgir fyrir ótilgreindum skaða vegna bóluefnanna. Óháð því hver raunverulega ástæðan er þá ætti fólk að stoppa og íhuga alvarlega tilfinningar sínar ef þær eru farnar að knýja ofbeldisfull viðbrögð.
Hvað gerist næst? Það er erfitt að spá fyrir um framtíðina þannig að kannski væri ráð að spyrja: hvað þarf að gera næst? Staðreyndin er sú að vandamálið er pólitískt og allir á hinu pólitíska sviði bera sameiginlega ábyrgð á því ástandi sem blasir við okkur og eina leiðin til þess að tækla vandann er að tala saman – af einlægni.
Hvort það verði hægt að ná einlægri umræðu um öll þau vandamál sem við höfum verið að glíma við er áskorunin – því staðan er einfaldlega sú að umræðan hefur verið vopnvædd og það verður mjög erfitt að fá suma pólitíkusa til þess að slíðra þau sverð því kjörfylgið hangir á sverðum þeirra.
En einhvers staðar getum við byrjað. Prófum að byrja með því að hætta að uppnefna fólk, ef ekki sem bullara og rugludalla – hættum að minnsta kosti að kalla fólk þjóðarmorðingja. Af því að munurinn á því að sletta skyri og skjóta með riffli skiptir máli.
Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is