Baksvið
Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is
„Hjerna um daginn kom skeyti um það, að Lindbergh, flugkappinn frægi, og átrúnaðargoð allra Ameríkumanna, ætlaði sjer að fljúga frá Ameríku austur um haf í sumar, en fara nú norðurleiðina um Grænland og Ísland. Var svo sagt í skeytinu að Bandaríkjamenn hefðu þegar komið upp sjerstakri veðurathuganastöð á hájökli Grænlands í sambandi við flug þetta.“
Ófá hjörtun hafa ugglaust tekið kipp þegar þau lásu þessa frétt í Morgunblaðinu í byrjun júlí 1933 enda fátítt að slíkir höfðingjar stingju við stafni hér í fásinninu. Lindbergh hlaut heimsfrægð sex árum áður þegar hann varð fyrsti maðurinn til að fljúga í einni lotu yfir Atlantshafið; frá New York til Parísar á vél sinni Spirit of St. Louis.
„Í samtali við amerísk blöð hefir Lindhergh sagt, að hjer sje ekki um sjerstakt hraðflug að ræða, heldur tilraun um það að prófa norðurleiðina yfir Atlantshaf,“ sagði enn fremur.
Nokkrum dögum síðar var staðfest í blaðinu að Lindbergh væri lagður af stað frá Flushing Bay í New York, í fyrsta áfangann af flugi sínu til Grænlands og Íslands og var eiginkona hans, Anne Morrow, með í för. „Þau nota Lockheed Sirius sjö hundruð hestafla flugvjel, útbúna með flotholtum, sömu tegundar og þau notuðu í flugi sínu til Kína,“ stóð í fréttinni.
Mannfjöldi við höfnina
Næstu daga og vikur voru fluttar ítarlegar fréttir af ferðalagi hjónanna og þess beðið með óþreyju að þau skiluðu sér til Íslands. Það var svo loksins um kvöldmatarleytið 15. ágúst 1933 að dró til tíðinda. „Múgur og margmenni þusti niður til hafnarinnar, er það frjettist að til hans sæist, og var margt fólk þar fyrir, er biðið hafði þar alllengi komu flugkappans mikla. Var nú eftir að vita hvar hann myndi setjast. Hafnarbáturinn var til taks inni á höfninni, til þess að fara út jafnskjótt og hann settist. Þar var hafnarstjóri, settur borgarstjóri og forseti bæjarstjórnar, bæjarlæknir og Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri, en hann er umboðsmaður hjer fyrir Panamerican Airways. Er Lindbergh flaug hjer fyrst yfir höfnina var hann allhátt í lofti.“
Aðfluginu var ítarlega lýst í blaðinu: „Skip öll er í höfninni voru, en þau voru allmörg, þeyttu eimpípur með svo miklum gauragangi, að fólk fékk lokur fyrir eyrun. En fólkið þusti fram og aftur til þess að finna sjer stað, þar sem væri útsýni, svo hægt væri að fylgjast með fluginu. Nú tók Lindbergh að fljúga yfir bæinn inn yfir Sund og suður yfir Skerjafjörð. Var vindur farinn að lægja, svo menn bjuggust jafnvel við að hann myndi nú setjast á ytri höfnina. En er hann hafði sveimað yfir bæinn og nágrennið upp undir það fjórðung stundar, rendi hann sjer niður á Viðeyjarsund, austanhalt við eyna, í skjóli við hana. Mótorbátur úr Viðey kom brátt út til hans og bátskekta frá Vatnagörðum, en þar var Grierson flugmaður í gær, og sá hann til ferða Lindberghs og fór til hans. Rendi Lindbergh sjer nú upp undir Viðeyjarbryggjur og batt vjel sína þar við dufl.“
Hafnarbáturinn kom með Lindbergh-hjónin í land en þangað var kominn fjöldi fólks úr Reykjavík í einum 50 til 60 bílum. Þyrptist fólkið þarna niður í flæðarmál og niður á bryggju. Hrópaði hver húrra sem betur gat til að fagna komu hinna frægu fluggesta. En troðningur var svo mikill, að úr athugun á staðháttum gat ekki orðið að því sinni, að sögn Morgunblaðsins. Fjöldi manna safnaðist því næst saman fyrir utan Hótel Borg en búist var við hjónunum þangað. En allt kom fyrir ekki, þau fóru aftur út í flugvél sína og gistu þar um nóttina, eins og flestar aðrar nætur á ferðalaginu.
Fundað með fyrirmennum
Morguninn eftir komu hjónin með vélbát úr Viðey yfir í Vatnagarða. Þar beið Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri, og fór með þeim til bæjarins.
„Fyrst fór Lindbergh á pósthúsið og afhenti póstmeistara ofurlítinn póstpoka. Vitnaðist það brátt meðal vegfarenda um Austurstræti, að Lindbergh væri inni í Pósthúsinu. Varð þetta strax til þess að gatan milli Pósthússins og Reykjavíkur Apóteks fylltist af fólki og bílum. En það dróst að Lindbergh kæmi út, og fór hann um vesturdyrnar út, því þar var mannþröng ekki eins mikil. Síðan fór Lindbergh og frú hans á fund dómsmálaráðherra upp í Stjórnarráð, og þá til Garðars Þorsteinssonar, sem er settur borgarstjóri.“
Mikil viðbrigði þótti þeim Lindbergh-hjónum það víst vera, að koma hingað frá Grænlandi, einkum þegar tillit var tekið til þess, hve vegalengdin var stutt. „Á örfáum klukkustundum að vera komin í annað loftslag og í þetta náið samband sem hjer er við umheiminn.“
Fram kom að Lindbergh væri að hugsa um að fljúga hér kringum land. „Ekkert lætur hann uppi um það, hvort hann heldur hjeðan, segir, að ferðaáætlun sín hafi aldrei náð lengra. Og ekki er það sýnilegt að neinn asi sjé á honum. Úr því hann er hingað kominn, vill hann kynnast íslenskum staðháttum, flugskilyrðum og öðru. Ekkert vildi Lindbergh í gær láta uppi um það, hvernig honum litist á flug um Grænland í framtíðinni. En það var á honum að heyra, að alstaðar væri í raun og veru gerlegt að fljúga. Annað mál hvort það reyndist hagkvæmt.“
Um nónbil fór Lindhergh til Þorkels Þorkelssonar veðurstofustjóra og dvaldi þar góða stund. Því næst héldu þau hjónin inn í Vatnagarða, og þaðan fengu þau ferju út í Viðey. Veður var hið besta. „Gengu þau heim til Eggerts Briem, skoðuðu kirkjuna og Viðeyjarstofu. Síðan gekk Eggert með þeim vestur í eyju. Flugvjelina hafði Lindbergh kyrra inn við Viðey, og vörð um hana, hefir ekki hirt um að flytja hana, vegna þess hve veður var gott, enda sagði hann leguna við Viðey betri en hann oftast hefði haft í Grænlandi.“
Nýtur aðdáunar alheimsins
19. ágúst birtist forystugrein í Morgunblaðinu um hinn góða gest. Þar stóð meðal annars: „Svo mikið hefir hvert mannsbarn í Reykjavík heyrt og hugsað um Lindbergh, að mönnum er hið mesta keppikefli að sjá manninn, þó ekki sje nema í svip. Frásagnir um hann hafi hrifið hugi manna og hjörtu. Þó er engin saga sem um hann hefir verið sögð jafngild því, og að sjá manninn sjálfan og heyra, hispurslausan, alþýðlegan, hlédrægan, mikilmennið og ofurhugann, sem nýtur aðdáunar heimsins, en óskar einskis fremur, en að mega í friði vinna sitt milda og karlmannlega brautryðjendastarf. Af engu orði eða látbragði hans verður ráðið, að hann sjálfur skoði sig neinum fremri. En þegar minst er á flug hans og eitthvað er að því lýtur, tindra hin hauksnöru augu, eins og hann lyfti sjer yfir tíma og rúm og horfi beina leið inn í framtíðina.“
Í sama tölublaði var hermt af því að deginum áður hefði skip Lindberghs, Jelling, komið hingað. Lagðist það við Löngulínu. „Jafnskjótt og skipið var komið, fóru Lindberghshjónin um borð, til viðtals við foringja skipsins, Logan majór. Sennilega verður flugvjel Lindberghs tekin upp í Jelling í dag. Vjelamenn taka flugvjelina þar til eftirlits. Að því eftirliti loknu, fer Jelling líklega hjeðan.“
Í nógu var að snúast fyrir hjónin þennan dag en Ásgeir Ásgeirsson forsætisráðherra bauð þeim til tedrykkju. Þar var og staddur ríkiserfingi. Sá var ekki nafngreindur en hlýtur að hafa verið Friðrik Danaprins.
Stíft var fjallað áfram um dvöl Lindbergh-hjónanna á Íslandi í Morgunblaðinu næstu daga og meðal annars flug þeirra austur á land, þar sem vélin lenti á Eskifirði. 26. ágúst staðfesti sendiherra Dana á Íslandi að flugkappinn héldi á næstu dögum til Kaupmannahafnar og í Morgunblaðinu 29. ágúst var að finna frétt þess efnis að hjónin væru komin þangað. „Búa þau hjónin á Hotel d’Angleterre og vilja fá að vera þar út af fyrir sig.“