Stórgerðar verurnar fremst á myndinni fanga strax athygli áhorfandans: kýrin vinstra megin, móðir og stúlka hægra megin. Þá horfa þær fram fyrir sig, nánast beint í augu áhorfandans, nema stúlkan sem horfir eilítið til hægri, jafnvel á gulu blómin sem hún heldur í hendi sér. Sitja þær þrjár á túni í víðfeðmu landslagi undir fullu tungli. Fyrir aftan þær má sjá á sem streymir yfir myndflötinn og velli sem breiða eins úr sér til beggja átta en í fjarskanum standa háreist fjöll, auk þess sem glittir í jökul vinstra megin, á bak við kúna. Umhverfis mæðgurnar og kúna vaxa svo gul blóm, líklega sóleyjar, og fyrir aftan mæðgurnar virðist vera teppi á jörðinni. Stúlkan situr í fangi móður sinnar og er klædd í hvítan kjól með rauðum doppum en móðirin er í látlausari fötum. Báðar hafa þær skuplu á höfði í gömlum stíl bændasamfélagsins sem skín í gegnum myndefnið. Form og hlutföll eru sérlega athyglisverð í þessu verki Gunnlaugs Scheving, auk skarpra lína sem sjá má í fígúrunum, til dæmis í kýrhausnum og baki móðurinnar. Þá mætti jafnvel segja að það sé ekki sérlega mikil hreyfing í verkinu, fyrir utan augnaráð stúlkunnar og ána sem þverar myndina, sem kann að gefa til kynna kyrrð sveitarinnar og sumarnáttanna. Hringlaga andlitin og hálfkassalagaður kýrhausinn, auk línanna í svuntu móðurinnar, teppisins í bakgrunni, guls, svarts og græns flatar fyrir aftan fígúrurnar, bera þess jafnvel merki að abstraksjónin hefur rækilega haslað sér völl í myndlistinni en myndin er máluð árið 1959.
Þungamiðjan í verkum Gunnlaugs er iðulega alþýðufólk sem vísar til altækra viðmiða óháð stað og stund. Hann er ekki að upphefja fólkið heldur tákngerir hann manngerðir úr íslenskri alþýðumenningu og gefur þeim algilda merkingu, vekur þannig samkennd og veitir innsýn í líf og störf alþýðunnar. Verkin eru ekki bara hylling þessa alþýðufólks, þau sýna okkur einnig í hnotskurn sjálfsmynd þeirrar kynslóðar sem lifði millistríðsárin á Íslandi og lagði drjúgan skerf til þess að færa Ísland inn í nútímann. Í Sumarnótt, sem er eitt þekktasta verk Gunnlaugs, beinir hann athyglinni að bjartri sumarnótt á Suðurlandi þar sem værð færist yfir menn og dýr á meðan gróðurinn vex allan sólarhringinn. Listamaðurinn beinir hér athyglinni sérstaklega að tengslum kýrinnar og konunnar og milli þeirra er barnið með blóm í hendi sem leiðir hugann að myndum af Jesúbarninu. Hér er hin heilaga þrenning hinnar íslensku sumarnætur.