Myndlist
Hlynur
Helgason
Í Norræna húsinu stendur nú yfir sýning á verkum sex listamanna frá Norðurlöndum og Skotlandi. Yfirskrift sýningarinnar er (Post) og umfjöllunarefnið er svokölluð mannöld, sem snýr að þeim varanlegu áhrifum sem samfélög manna hafa haft á ásýnd og umhverfi jarðarinnar allrar. Verkin á sýningunni eru fjölbreytt í framsetningu þótt flest byggist á kvikmyndamiðlinum.
Þegar inn á sýninguna kemur ber fyrst fyrir augu sjö mínútna langt vídeóverk Ritu Marhaug, norskrar listakonu sem býr í Bergen. Verk hennar er kvikmyndagjörningur þar sem hún sjálf er í meginhlutverki. Sviðið er friðsæl strönd við Lofoten með baðkar í forgrunni. Gjörningurinn felst í því að Rita klæðir sig úr hvítum slopp og stígur nakin ofan í baðkarið sem reynist fyllt svörtum olíukenndum vökva. Hún makar vökvanum á sig áður en hún stígur upp úr baðkarinu, biksvört frá hvirfli til ilja, og sest á klett á ströndinni þar sem við fylgjumst með henni athafna sig um stund. Verkið er nokkuð skýr írónísk vísun í þverstæðu þess að Norðmenn, þessi mikla olíuframleiðsluþjóð, skuli opinberlega segjast bera hag náttúrunnar fyrir brjósti.
Verk Marte Aas frá Osló er um ellefu mínútna stuttmynd. Í verkinu fylgjumst við með tík sem býr í óræðu eyðilandi. Skýring með verkinu gefur til kynna að hér sé fylgst með þessum besta vini mannsins eftir að fólk er orðið útdautt. Myndin er tjáningarfull í einföldum einmanaleika sínum þar sem einu ummerki mannanna eru auðnin sem þeir hafa skilið eftir.
Nana-Francisca Schottländer er listakona sem býr í Kaupmannahöfn. Verk hennar er kvikmynd sem tekin er á uppfyllingu við borgina. Það er í senn kvikmyndaverk og dansverk, sex rása verk sýnt á fjórum skjám og tveimur myndvörpun allt í kringum innsta salinn. Hér er boðið upp á mörg sjónarhorn yfir eyðilegt landslagið. Dansarar birtast hér og þar í myndinni, stundum í fjarska en einnig í nærmynd rótandi í leðjunni. Markmiðið er að útrýma mörkum mannverunnar og þess umhverfis sem hún skapar í kringum sig. Líkamar dansaranna falla inn í flötinn og renna saman við hann í ólíkum myndum. Aftur erum við með táknmynd um óræða og dimma framtíð.
Katie Paterson er skosk listakona. Hún sýnir hér heimildir um útskriftarverk sitt frá Slade-skólanum í London 2005. Verkið fólst upphaflega í hljóðnemum staðsettum í Vatnajökli. Á sýningunni var símanúmer í ljósastöfum. Ef hringt var í það var hægt, í rauntíma, að hlusta á hljóðin og skruðningana sem bárust frá bráðnandi jöklinum. Verkið í Norræna húsinu er upptaka úr upphaflegu útsendingunni, ljósastöfum með símanúmerinu, ljósmyndum frá staðsetningu og opnu úr bókverki þar sem skráðar eru allar innhringingar í númerið á sínum tíma. Upphaflega verkið er einfalt og sterkt í því að tengja þátttakendur beint við umbrot náttúru sem er að hverfa fyrir tilstilli mannanna. Þótt heimildin sé áhugaverð hefði verið sterkara ef þess hefði verið kostur að endurflytja upphaflega verkið.
Verk Önnu Líndal er frá 2005 og fjallar um umbrotin í Grímsvötnum á því ári. Það er byggt utan um plötu með gati í miðjunni, eftirlíking lónsins sem myndaðist í gosinu. Á borðinu er vídeóverk sýnt á þremur skjám. Kvikmyndirnar sýna umbrotin frá ýmsum sjónarhornum. Sjónrænt tengist verkið öðrum verkum á sýningunni. Það er þó sýnu áhrifaminna en mörg hinna vegna þess hve hófstillt smæð skjáanna er. Verkið sker sig úr öðrum á sýningunni í því að umfjöllunarefnið er ekki áhrif mannsins á umhverfið.
Verk Rúríar er frá 2005 og í skýru samhengi við markmið sýningarinnar. Um er að ræða útgáfu af ljósmynda- og hljóðverki hennar sem sýndi fossa sem horfið hafa vegna virkjanaframkvæmda á Íslandi. Verkið er ljósmyndir af 28 fossum, bleksprautuprent á pappír. Myndirnar eru lauslega hengdar á vegginn, trúlega til að undirstrika hverfulleika myndefnisins. Verkið er látlaust og hófstillt. Ég velti þó fyrir mér hvort einhver af vídeóútgáfum verksins, með hljóðrás, hefði vakið sterkari tilfinningar til myndefnisins í samhengi sýningarinnar.
Í heildina er sýningin áhugaverð í því hvernig hún tekst á við ógnir samtímans á myndrænan og tilfinningaþrunginn hátt. Það er spennandi að sjá hvernig listamenn frá nágrannalöndunum bregðast við umbyltingu náttúrunnar. Það er þó ágalli á sýningunni að upplýsingar um verkin, forsendur þeirra og tengsl við áherslur sýningarinnar eru rýrar, sér í lagi fyrir þá sem ekki þekkja til í norrænum listheimi.