Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Ætla má að um 2.500 manns verði í kvöld mætt að Úlfljótsvatni í Grafningi á hátíðarkvöldvöku á Landsmóti skáta. Mótið hófst síðasta föstudag og síðan þá hefur fjölgað jafnt og þétt á svæðinu. Börn og ungmenni á aldrinum 10-18 ára eru áberandi stærstur hluti mótsgesta, sem koma frá um 18 þjóðlöndum.
Íslendingar eru eðlilega mest áberandi á mótinu sem er þó í raun alþjóðlegt samfélag. Margir skátar til dæmis frá Hong Kong eru mættir á landsmót, en einnig fólk frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Úkraínu, Englandi, Wales og Lúxemborg svo nokkur lönd séu nefnd. Einnig er á mótinu stór hópur frá Kanada og af því tilefni mætir kanadíski sendiherrann á Íslandi á svæðið í dag sem og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Ævintýri og lærdómur
„Landsmót er alltaf ævintýri,“ segir Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi Íslands. Hún hefur verið á Úlfljótsvatni alla mótsdagana og haft þar að eigin sögn hvetjandi hlutverk. „Í raun hefur hér verið myndað heilt samfélag í öllum sínum fjölbreytileika. Yfirskriftin er Ólíkir heimar og í anda þess eru hér fjölbreytt viðfangsefni og alls konar lærdómur. Fólk úr ólíkri menningu og frá löndum alls staðar í veröldinni mætist hér og kynnist á jákvæðan máta. Þannig gerum við veröldina kannski friðvænlegri.“
Flugnanet er þarfaþing
Mýflugan er áberandi nú við Úlfljótsvatn og flugnanet eru þarfaþing mótsgesta. „Núna er hér skýjaloft og milt loft; fínt útivistarveður. Annars látum við skátar veðráttuna aldrei stoppa okkur. Mikilvægt inntak skátastarfs er að fólk þjálfist í seiglu, læri á aðstæður og geti bjargað sér,“ segir Kolbrún Ósk Pétursdóttir mótsstjóri.
Margt hefur verið í boði á landsmóti síðustu daga. Margir hafa til dæmis tekið þátt í fótbolta, heimsótt Gilwell-skálann, Skátasafnið og fleira slíkt. Þá taka skátar þátt í torgdagskrá þar sem um margt er að velja. Á göngutorgi er hægt að velja um ýmsar gönguleiðir við og nærri Úlfljótsvatni. Á samfélagstorgi er hægt að vinna verkefni sem miða að því að fegra og betra nærumhverfið. Á sköpunartorgi er ýmis efniviður og þar fær ímyndunaraflið að njóta sín. Og á þrauta- og metatorgi var hægt að fara í vatnasafarí, byggja fleka, keppa í sápubolta og margt fleira. Alls konar þrautir að leysa. Þá má geta þess að á svæðinu er rekin útvarpsstöð, dagblað er gefið út, verslanir starfræktar og svo framvegis.
Mikil samheldni
„Samheldnin meðal skáta sem hingað eru mættir er mikil. Í loftinu liggur sterk jákvæð orka. Fólk var líka farið að bíða eftir landsmóti, en skátar hafa ekki hist á svona móti frá 2016,“ segir Kolbrún Ósk um landsmótið sem lýkur í kvöld, fimmtudag. Á morgun fer fólk að tínast heim á leið með góðar minningar í pokahorninu.