Kjartan Magnússon
Landvarnir eru frumskylda hvers ríkis. Við Íslendingar höfum ekki her en leysum varnarþörf okkar með aðild að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Í stofnsáttmála þess er kveðið á um að verði eitt bandalagsríki fyrir utanaðkomandi árás, séu hin skuldbundin til að koma til hjálpar. Í ótryggum heimi er ómetanlegt fyrir smáþjóð eins og Íslendinga að geta tryggt varnir sínar með slíkum hætti.
Friður er ekki sjálfsagður
Enski sagnfræðingurinn A.J.P. Taylor taldi að í raun hefðu Evrópubúar notið friðar í álíka langan tíma og þeir hefðu átt í ófriði og að þeir ættu friðarskeiðin valdajafnvægi að þakka. Á hinum skammvinnu og ótryggu friðartímum hlóðst upp spenna, sem fyrr eða síðar var losað um með stríðsrekstri og mannfórnum.
Þetta var gangur sögunnar allt þar til NATO var stofnað árið 1949. Bandalagið hefur nú í 75 ár tryggt frið og velsæld í Vestur-Evrópu og er því ljóst að stofnun þess var mikið gæfuspor. Með því tókst að fylkja mörgum ólíkum ríkjum saman undir merkjum frelsis og lýðræðis. Skorður voru reistar við árásargirni Sovétríkjanna, alræðisríkisins, sem leiddi helsi og kúgun yfir hundruð milljóna manna innan eigin landamæra og leppríkja í Austur-Evrópu. Má því með sanni segja að NATO hafi breytt gangi sögunnar til hins betra. Vel má halda því fram að NATO sé stærsta friðarhreyfingin og um leið sú sem mestu hefur áorkað.
Þróun mála í Austur-Evrópu
Um leið og mörg ríki í Mið- og Austur-Evrópu hristu af sér hlekki sósíalismans kom í ljós að NATO var óskakostur þeirra í öryggis- og varnarmálum. Hófst þá langt ferli, sem leiddi til þess að mörg nýfrjáls ríki fengu aðild að bandalaginu.
Ásókn Austur-Evrópuríkja í NATO hefur verið rússneskum stjórnvöldum þyrnir í augum. Hefur þetta ekki síst átt við um ríki, sem áður voru hluti af Sovétríkjunum. Rússnesk stjórnvöld telja að slík ríki séu enn á rússnesku áhrifasvæði og hafa lagst gegn viðleitni þeirra til frekara samstarfs í vestur, t.d. með aðild að NATO og/eða Evrópusambandinu. Ljóst er að þetta viðhorf átti ríkan þátt í yfirstandandi innrás Rússa í Úkraínu og hernaði þeirra í Georgíu árið 2008.
Stuðningur við Úkraínu
Mörg ríki Atlantshafsbandalagsins hafa veitt Úkraínumönnum mikilvægan stuðning í varnarbaráttu þeirra gagnvart Rússum. Sá stuðningur var áréttaður á leiðtogafundi bandalagsins í Bandaríkjunum í síðustu viku. Þar ítrekuðu leiðtogarnir að vegferð Úkraínu í átt að aðild að NATO yrði fram haldið.
Rétt er að Vesturlönd haldi áfram og auki stuðning sinn við Úkraínumenn í varnarbaráttu þeirra. Ljóst er þó að mikið þarf að breytast til að NATO-aðild Úkraínu verði raunhæf í bráð. Áður en til slíkrar aðildar gæti komið þyrfti friður að komast á í landinu og sátt að nást um eystri landamæri þess. Jafnvel við slíkar aðstæður er líklegt að rússnesk stjórnvöld myndu líta á NATO-aðild Úkraínu, sem og Georgíu og Moldóvu, sem mikla ögrun.
Með slíkri aðild myndi NATO takast á hendur skuldbindingar um að það myndi ekki þola hernað eða hernaðaríhlutun Rússa í þessum löndum undir nokkrum kringumstæðum. Það er allsendis óvíst að bandalagið gæti varið þessi ríki með venjulegum herafla eða hefðbundnum vopnum. Sú spurning vaknar hvort ráðamenn á Vesturlöndum geri sér grein fyrir því að með NATO-aðild áðurnefndra ríkja fælist í raun yfirlýsing um að ef allt færi á versta veg, væri bandalagið reiðubúið til að heyja kjarnorkustyrjöld til að verja sjálfstæði þeirra.
Aukið mikilvægi NATO
Atlantshafsbandalagið hefur eflst með aðild Svía og Finna og ljóst er að það er nú öflugra en nokkru sinni. Nýta þarf þennan styrk til að efla samstöðu vestrænna lýðræðisríkja og koma þannig í veg fyrir að nokkrum detti í hug að fara með hernaði á hendur þeim. Jafnframt er mikilvægt að NATO nýtist sem vettvangur til að stuðla að friði sem víðast, ekki síst í Austur-Evrópu. Gera verður rússneskum stjórnvöldum ljóst að stríðsrekstur sé ekki leiðin til aukinnar velsældar heldur friðsamleg samskipti þjóða á sem flestum sviðum. Reynslan sýnir að öryggis- og viðskiptahagsmunir þjóða fara vel saman og leggja góðan grunn að velsæld þeirra eins og NATO-þjóðirnar hafa borið gæfu til undanfarin 75 ár.
Höfundur er borgarfulltrúi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.