Fjöldi lifandi fæddra barna á Íslandi árið 2023 var 4.315 sem er fækkun frá árinu 2022 þegar 4.382 börn fæddust. Alls fæddust 2.257 drengir og 2.058 stúlkur samkvæmt upplýsingum sem Hagstofan birti í gær.
Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Hagstofan segir að árið 2023 hafi frjósemi íslenskra kvenna verið 1,59 og hafi aldrei verið minni frá því að mælingar hófust árið 1853. Árið 2022 var frjósemi 1,67 en það er næstminnsta frjósemi sem mælst hefur hér á landi. Frjósemi hefur ekki farið upp fyrir 2 hér á landi síðan árið 2012 þegar hún var 2,1.
Hagstofan segir, að fæðingartíðni mæðra undir tvítugu hafi í fyrra verið 3,7 börn á hverjar 1.000 konur. Það sé afar lágt í samanburði við tímabilið 1961-1965 þegar hún fór hæst en þá fæddust 84 börn á hverjar 1.000 konur undir tvítugu. Fyrir utan síðustu þrjú ár þurfi að fara aftur til ársins 1870 til að finna ár þar sem fæðingartíðni mæðra undir tvítugu fór undir fjögur börn á hverjar 1.000 konur.
Þá hefur meðalaldur mæðra hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi og eignast konur nú sitt fyrsta barn að jafnaði síðar á ævinni en áður. Fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldur farið hækkandi og var 28,9 ár í fyrra.
Minnkandi frjósemi er alþjóðleg þróun. Í rannsókn sem birtist í læknatímaritinu Lancet nýlega er sett fram sú spá að árið 2050 verði staðan sú að í 155 löndum af 204 nægi frjósemi kvenna ekki til að viðhalda mannfjöldanum.
Hagstofan gerði þá breytingu á þessu ári, að tölur um fæðingar ná til allra barna mæðra sem eru metnar með búsetu á Íslandi. Börn sem fædd eru á Íslandi af mæðrum sem metnar eru með búsetu erlendis eru fyrir vikið ekki talin með. Þessi breyting gildir frá og með 2011 en fyrir þann tíma er miðað við lögheimili móður við fæðingu barns.