Tómas Erling Lindberg Hansson fæddist 24. september 1958 í Hafnarfirði. Hann lést 27. júní 2024 á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn.

Foreldrar hans voru Hans P. Lindberg Andrésson, f. 1920, d. 1999, og Ala Lindberg, f. 1919, d. 2016. Systkini hans eru Pétur, f. 1946, Ingeborg, f. 1950, Jón Andrés, f. 1953, Erla Valgerður, f. 1955, d. 1958, Hildur, f. 1962, Valgerður, f. 1965.

Eiginkona Erlings er Sigrún Sigurðardóttir leikskólakennari, f. 21.12. 1956, og börn þeirra eru: 1) Hans Óttar, f. 1.8. 1981, eiginkona Jeanette Mackenhauer Lindberg, börn þeirra eru Aron August og Carl Philip. 2) Davíð Þór, f. 24.1. 1988, eiginkona Ida Lindberg, börn þeirra eru Anna, Johan og Ellie 3) Linda Rún, f. 6.2. 1998, kærasti hennar er Jake Rock.

Erling ólst upp á Ölduslóð í Hafnarfirði og lauk barnaskóla í Öldutúnsskóla. Hann útskrifaðist síðar sem stúdent frá Flensborgarskóla árið 1980. Erling var liðtækur handknattleiksmaður og lék handbolta með FH á sínum yngri árum. Erling kynntist Sigrúnu sinni í FH. Þau giftust 6. ágúst 1988. Sigrún og Erling fluttu til Danmerkur árið 1980 og hafa búið þar síðan, lengst af í Ølstykke. Erling stofnaði fljótlega fyrirtækið EPDM-TagService sem sérhæfði sig í þaklögnum og starfaði hann við það fram á sinn síðasta dag. Erling átti ýmis áhugamál sem hann sinnti eins vel og hann gat. Hann var virkur félagi í Cirkel Ordenen-reglunni og hafði verið frá þvi árið 2013. Hann hafði einnig mjög gaman af þvi að spila golf og var hinn ágætasti golfari, hann var einmitt á golfvellinum þegar hinsta kallið kom.

Útför Erlings fer fram frá Ølstykke kirke í dag, 18. júlí 2024.

Í dag er Elli bróðir jarðsettur í Ølstykke-kirkjugarði í Danmörku. Aldrei átti ég von á að þurfa að skrifa minningarorð um hann þar sem hann var enn á besta aldri, 66 ára er enginn aldur í dag. Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess að við eigum aldrei eftir að hittast aftur, hann eigi aldrei eftir að hringja í mig á afmælisdaginn minn. Maður fékk alltaf svo gott í hjartað eftir að hafa talað við hann. Hann fékk mann alltaf til að brosa. Hann hafði þann eiginleika að fá alla í kringum sig til að fara að hlæja, sá broslegu hliðarnar á öllu. Þegar hann flutti til Danmerkur fyrir meira en 40 árum varð hann Dani strax, hann var alveg með þeirra húmor. Var alltaf hrókur alls fagnaðar hvar sem hann var.

Þó að missir okkar fjölskyldunnar sé mikill, þá er það hvergi nærri eins og hjá Sigrúnu, Hans Óttari, Davíð, Lindu Rún og fjölskyldum þeirra.

Hugur minn er hjá þeim á þessum erfiðu tímum og vona ég að góður Guð gefi þeim styrk og trú.

Hvíl í friði kæri bróðir, þín systir,

Valgerður.

Ég er svolítið týnd. Veit ekki hvað ég á að segja, skrifa eða hugsa en skulum sjá hvað kemur

Undanfarna daga hef ég hugsað svo mikið til Sigrúnar og frændsystkina minna, missirinn er svo mikill. Ég hef líka hugsað mikið til pabba, horfi á hann missa einn af sínum bestu vinum. Þú og pabbi voruð uppáhaldstvíeykið mitt. Mér fannst þið svo fyndnir saman. Sérstaklega í ferðinni okkar til Spánar 2009.

En held ég hafi ekki áttað mig á hvað þetta þýðir líka fyrir mig …

Þegar ég og Magdalena fórum til Danmerkur 2022, þá fannst mér mjög mikilvægt að taka frá tíma og heimsækja ykkur Sigrúnu. Þegar Magdalena spurði af hverju það væri svona mikilvægt var svarið mitt: „Sigrún og Elli eru mamma og pabbi 2, þegar ég var ein í Danmörku var ég aldrei ein, ég hafði ekki mömmu og pabba hjá mér en ég hef alltaf haft þau, svona Danmerkur-foreldrar mínir.“ Og hún skildi það strax og hún var búin að hitta ykkur, það var svo góð nærvera heima hjá ykkur og okkur tekið opnum örmum.

Ég hef bæði farið til Danmerkur sem au pair og svo í skóla, og það skipti ekki máli hvað það var, ég gat alltaf heyrt í ykkur, fengið aðstoð í síma ef þess þurfti og vissi alltaf að ég gat komið til ykkar. Í helgarfrí, haustfrí, og meira að segja farið með ykkur til Berlínar yfir jólin.

Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og með mér. Þið Sigrún hjálpuðuð mér gegnum fyrsta stóra kvíðakastið mitt sem ég áttaði mig ekki á að væri kvíðakast fyrr en nokkrum árum seinna og fór að fá fleiri kvíðaköst. Ég hef fengið þig í módelstörf fyrir skólaverkefni eins og ekkert sé, og tala nú ekki um ferðina okkar tveggja í Tívolí á Nik&Jay-tónleika þar sem við heyrðum ekki neitt í þeim, fórum heim, vorum læst úti og fundum stiga til að príla yfir girðinguna, og takk fyrir öll kvöldin þar sem við spiluðum kotru saman og nutum þess að vera nammigrísir.

Takk fyrir allan hláturinn, gleðina og stuðninginn.

Mér þykir vænt um þig, mun alltaf þykja og mun halda minningu þinni á lofti.

Hrefna
Halldórsdóttir Morthens.

Það voru þungbærar fréttir sem við fengum frá Sigrúnu systur í Danmörku sunnudagsmorguninn 23. júní síðastiðinn. Þú hafðir farið í hjartastopp á golfvellinum, staðan var tvísýn. Við tóku erfiðar mínútur, klukkutímar og dagar. Allt var gert til að bjarga lífi þínu. Stórar aðgerðir framkvæmdar, en allt kom fyrir ekki. Elli er dáinn. Ég er engan veginn að ná utan um andlát þitt og að þú sért farinn að eilífu. Við Hildur systir flugum út til að vera með Sigrúnu og krökkunum ykkar og vorum svo til rétt lentar á Kastrup þegar hjarta þitt hætti að slá þann 27. júní.

Það er skammt stórra högga á milli og risaskarð höggvið í fjölskylduna okkar, en Ásgeir bróðir lést í janúar og þú núna í júní. Veit ég vel að það var tekið vel á móti þér Elli minn.

Og svo sannarlega á vel við að þær systur Gleði og Sorg haldast í hendur, því þið fenguð litla ömmu- og afastelpu 21. júní og er búið að nefna hana Ellie (í höfuðið á afa Ella) þú náðir aðeins að sjá hana á mynd.

Ella kynntist ég ansi ungum eða þegar hann og Sigrún systir fóru að vera saman fyrir rétt tæpum 50 árum. Frá fyrsta degi varð hann hluti af fjölskyldunni. Hann flutti fljótlega í kjallarann á Sunnuveginum og þar voru þau í einhvern tíma, allavega nógu langan tíma til að Elli hafði kennt Ásgeiri bróður trixið til að komast í jólasmákökurnar hennar mömmu í matargeymslunni. Hann var nógu hár í loftinu til að sjá hvar mamma geymdi lykilinn að góssinu. Og svo var bara að fjarlægja límbandið af dollunum, næla sér í nokkrar kökur hvor og líma svo aftur fyrir. Já, og eiga sjálfir límbandsrúllu til öryggis. Það var örugglega skondið upplitið á mömmu með sitt stóra heimili þegar hún ætlaði að bjóða af kökunum á jóladag og boxin hálftóm.

Sumarið 1980 fóruð þið unga parið í sumarfrí til Danmerkur í þrjár vikur sirka, en þið komuð bara ekkert aftur úr þessu sumarleyfi.

Það var gaman að koma með íslenskt nammi til Danmerkur og þurftum við helst að merkja það hverjum og einum á heimilinu svo allir fengju sitt. Elli elskaði íslenskt nammi og harðfisk svo eitthvað sé upptalið. Meiri Íslending var varla hægt að finna, þrátt fyrir að hafa búið meiri hluta ævinnar í Danmörku þá gleymdi hann hvorki uppruna sínum frá Færeyjum né Íslandi og sagði alltaf stoltur: „Ég er Íslendingur.“

Það var alltaf gott og gaman að heimsækja ykkur. Þegar þið Halldór kynntust varð undireins einstakur vinskapur milli ykkar. Og þegar þú keyptir fyrsta golfsettið og Halldór var með þér og það er atvik sem Halldór aldrei gleymir, þú í vinnufötunum og sandölum og áhuginn kviknaði á svipstundu. Þú sem varst þá nýbúinn að segja að þetta væri sport fyrir eldri borgara.

Allar ferðirnar okkar á handboltaleiki með Hans Óttari eru góðar í minningabankann.

Takk fyrir að vera mágur minn og vinur. En þú varst svo miklu miklu meira en mágur minn. Eða eins og við Hildur sögðum við þig í janúar þá varst þú eiginlega hálfbróðir okkar. Takk fyrir hláturinn. Takk fyrir gleðina. Takk fyrir að taka á móti börnunum mínum þremur í lengri og skemmri tíma. Takk fyrir að vera vinur Halldórs. Takk fyrir minningarnar, því þær eru allar ljúfar minningarnar um þig og þær munu ylja okkur í framtíðinni.

Elsku Sigrún, Hans Óttar, Davíð Þór, Linda Rún, tengdabörn og barnabörn, ykkar er missirinn mestur og megi góður Guð vaka yfir ykkur.

Guðný og Halldór.