Viðtal
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Ég ákvað að vinna í eitt ár eftir stúdentsprófið þegar heimsfaraldurinn skall á og sótti svo um í félagsfræði við Kaupmannahafnarháskóla,“ segir Jófríður Úlfarsdóttir, Egilsstaðamær sem útskrifaðist sem dúx frá Menntaskólanum á Egilsstöðum á sínum tíma, rétt fyrir heimsfaraldurinn alræmda, og var nú að ljúka BA-prófi í félagsfræði í Kaupmannahöfn.
Hún tók sér hlé eitt ár frá námi og sótti einnig um í Háskóla Íslands en hugurinn stefndi þó til Danmerkur þar sem hún hafði búið sem barn, móðir Jófríðar, Halldóra Tómasdóttir, er íslensku- og dönskukennari við Menntaskólann á Egilsstöðum.
„Mig langaði alltaf að læra dönsku almennilega, við fluttum til Danmerkur þegar ég var eins árs, pabbi var í námi í byggingarfræði þar og mamma var að vinna,“ greinir félagsfræðingurinn frá en faðir hennar er Úlfar Trausti Þórðarson, brunahönnuður hjá Verkís, svo báðum foreldrum sé haldið hér til haga.
Jófríður bjó raunar sitt fyrsta æviár, fyrir Danmerkurdvölina, í Mosfellsbæ svo Egilsstaðabúsetan kom ekki til af neinum ættartengslum heldur vegna þess að móðir hennar fékk vinnu á safninu í Skriðuklaustri, í hinu rómaða Gunnarshúsi sem rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson reisti á upphafsári heimsstyrjaldarinnar síðari.
Móðirin stoð og stytta
Víkur sögunni nú til sumarsins 2021 en Kaupmannahafnarháskóli dregur nemendur sína mjög á svörum um inngöngu. „Ég fékk ekki að vita fyrr en 28. júlí að ég hefði komist inn og svo byrjaði skólinn í lok ágúst svo ég hafði bara nokkrar vikur til að redda húsnæði og öllu áður en ég fór út sem var mjög stressandi auk þess sem ég þekkti eiginlega engan í Danmörku þannig að ég skil ekki hvernig ég fór að þessu,“ segir Jófríður og hlær dillandi hlátri.
Halldóra móðir hennar varð dóttur sinni stoð og stytta á ögurstundu – flutningi milli landa sem alltaf er nokkrum númerum stærra verkefni að gera en að segja. „Hún hjálpaði mér gegnum fyrstu dagana og svo var ein vinkona mín að flytja út í nám á sama tíma svo ég var mikið með henni fyrstu dagana og svo bara að byrja að ná dönskunni,“ segir Jófríður af því verkefni sem flestir Íslendingar sunnan við miðaldra leika sér að með því bara að vera á staðnum í Skandinavíulöndunum þremur sem notast við annað tjáningarform en finnsku.
„Allir í árganginum mínum voru danskir nema ein norsk stelpa og svo ég. Ef Íslendingar ætla að læra félagsfræði fara þeir bara í HÍ,“ segir Jófríður af þeim uppreisnaranda sínum að hefja grunnnám erlendis í fræðigrein sem hinn almenni Íslendingur lærir bara heima hjá sér.
Við víkjum aftur að tungumálinu sem flestir Íslendingar annaðhvort hatast við eða láta sér vel lynda frá grunnskóla og upp úr – að minnsta kosti var það þannig á barnaskólaárum blaðamanns fyrir fjörutíu árum. Jófríður játar að erfiðast hafi verið að skilja talaða dönsku, þar er nefnilega eitt að hlusta á upptöku í kennslustund með textann fyrir framan sig og annað að standa augliti til auglitis við borinn og barnfæddan Dana og skilja mæli hans með öllum kostum og kynjum – úfmælt sveifluhljóð kverkanna með hæfilegum skammti af stuðandi raddbandalokhljóðum sem reynst hafa mörgum Frónbúanum óþægur ljár í þúfu og vitjað sumra í martröðum.
Bara ein í fyrstu
„Mér fannst sem sagt erfiðast að læra að skilja dönskuna og fara að geta sagt eitthvað meira en felst bara í kurteislegu yfirborðsspjalli. Svo kom þetta allt saman á nokkrum mánuðum en ég var samt rosalega efins fyrstu önnina í skólanum um hvað ég væri að gera,“ viðurkennir Jófríður og lítur til baka til ársins 2021 með hlýju í röddinni sem hún fær illa dulið. Fyrstu mánuðirnir í nýju landi eru ævintýri – alla vega eftir á.
Íslendingurinn var verulega tvístígandi alla fyrstu önnina í ókunnugum skóla í hálfókunnugu landi, hvað sem líður þeirri gullvægu setningu skáldsins á Gljúfrasteini að „heilinn á Íslendíngum hefur alltaf verið í Kaupinhafn“.
„Þetta var mjög erfitt, ég hætti með kærustunni minni tveimur mánuðum áður en ég flutti út og við vorum búnar að tala um að fara út saman þannig að ég var bara ein og þetta var voðalega erfitt eitthvað. Ég reyndi bara að vera í góðu símasambandi við fjölskylduna á þessum tíma,“ rifjar Jófríður upp.
Augnablik sannleikans
Tungumálaörðugleikar í byrjun og erfiðleikar við að eignast vini þegar hún talaði málið ekki af fullkomnu öryggi lögðust á eitt við að þyngja róðurinn og hugsanir um að leggja árar í bát létu reglulega á sér kræla. „Skólinn var ekkert mjög erfiður en að þurfa að fara í munnleg próf á dönsku þarna fyrst var ekkert rosalega gaman. Þau fyrstu gengu þó ágætlega, í janúar 2022, vegna þess að ég hafði undirbúið mig mjög vel og þá sá ég að ég gæti þetta alveg,“ segir Jófríður frá.
Augnablik sannleikans hafði þá runnið upp skömmu áður, þegar hún skrapp heim milli haustannar og vorannar, jólin 2021, og var hreinlega ekki viss um að hún ætlaði sér til kóngsins Kaupmannahafnar á ný.
„Ég hugsaði þá með mér að ekki væri fullreynt með þetta ef ég færi ekki aftur og ákvað þá að klára veturinn alla vega og sjá svo til. Svo kláraði ég allt námið,“ segir hún, en svo sem greint er frá í upphafi viðtals féll BA-gráðan henni í skaut í vor og nú stefnir Jófríður ótrauð á meistaranám í haust en viðtalið við félagsfræðinginn frá Egilsstöðum má lesa í heild sinni á mbl.is.