Ámundi Loftsson
Fyrir að verða hálfri öld var ég að grafa skurðina sem nú hafa valdið veðurfarslegri hamfarahlýnun á heimsvísu. Voru þessir skurðir grafnir norður á Langanesi og í Þistilfirði.
Það var komið fram á vetur þegar ég varð frá að hverfa sakir snjóa og harðinda og fara heim til hennar Unnu minnar. Þegar þarna var komið hafði ég verið að grafa á Gunnarsstöðum, en þá bjó þar Óli nokkur Halldórsson, mikil kempa, Framsóknar- og sögumaður.
Þegar ég var að búast til heimfarar bað Óli mig að gera sér greiða. Björn Benediktsson í Sandfellshaga hafði falað af honum bolakálf og átti ég að færa Birni kálfinn. Var þessi bón Óla auðsótt og að sjálfsögðu hafði ég kálfinn með mér. Ég var á Land Rover-jeppa og þetta var ekkert mál.
Á þessum tíma var ég í Sjálfstæðisflokknum, enda var hann þá eini flokkurinn á Íslandi með alvörupólitík. Það ríkti mikil eining og samstaða í flokknum um þetta leyti. Að vísu voru þeir Gunnar Thor. og Albert Guðmundsson að reyna að lifa einhverju sjálfstæðu lífi innan flokksins, en það var allt í góðu. Þetta var bara grín sem allir höfðu gaman af.
Og nú voru kosningar í nánd og hugur í mönnum. Sjálfstæðisflokkurinn hafði boðað leiftursókn gegn verðbólgu, enda var hún umtalsvert hærri þá en nú til dags.
Þegar ég kom að Sandfellshaga bauð Björn mér í bæinn og var margt skrafað. Tíminn var þó frekar naumur og ég á hraðferð heim. Svo ætlaði ég að sjálfsögðu að demba mér í slaginn með þeim Sjálfstæðismönnum. – Annað væri nú.
Vorið eftir kom ég svo aftur að Gunnarsstöðum og þótti mér þá Óli bóndi heldur fár í viðmóti. Hafði hann á orði að illa hefði farið með kálfinn sem ég færði Birni. Ég sagði bara eins og var að ég vissi ekki betur en kálfskömmin hefði skilað sér til Björns eins og til hefði staðið. Óla var eitthvað ekki skemmt en sagði að við skyldum ganga í bæinn og fara yfir þetta betur.
Þegar inn var komið sótti hann bréf sem Björn hafði sent honum og sagði best að hann læsi það fyrir mig. Bréfið var í bundnu máli og var svohljóðandi:
Ámundi snúðugt ók í hlaðið.
Ekkert vildi hann tefja hér.
Kvaðst þurfa að mæta við
Morgunblaðið,
morguninn eftir skildist mér.
Nú þurftu allir að leggja lið,
leiftursókn fyrir íhaldið.
Kálfurinn sjálfur er sómagripur.
Samt fékk það ekki dulist mér,
að á honum var þessi íhaldssvipur,
sem ekki hafði ég vænst frá þér.
Ámundi grunar mig eitthvað þar
um hafa vélað til bölvunar.
Svo var hann líka að sýna hrekki.
Setja fót upp í dallinn sinn.
Fóðurblönduna át hann ekki
ef að SÍS hafði flutt hana inn.
Framsóknarsvip til framtíðar
fékk hann þó eftir kosningar.
Nú tel ég óhætt að eignast bola.
Ávísun hérna sendi þér.
Íhaldskálf mun ég ekki þola
innandyra hjá sjálfum mér.
Bestu kveðjur í bæinn þinn.
Hann biður að heilsa kálfurinn.
Höfundur er fv. sjómaður og bóndi.