Knattspyrnukonan Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir er komin aftur heim í Þrótt frá spænska félaginu Europa. Hún hefur leikið með Europa undanfarna mánuði en félagið er í Barcelona þar sem Elísabet hefur verið í skóla. Elísabet hefur leikið 59 leiki í efstu deild Íslands og skorað í þeim eitt mark.
Knattspyrnumaðurinn Luka Modric hefur framlengt samning sinn við Real Madrid um eitt ár og verið gerður að fyrirliða spænska risans. Modric, sem er orðinn 38 ára, hefur verið hjá Real frá árinu 2012 og unnið 26 stóra titla með félaginu, þar af Meistaradeild Evrópu sex sinnum.
Þýska landsliðskonan Lena Oberdorf verður frá keppni næstu mánuðina vegna hnémeiðsla sem hún varð fyrir í leik Þýskalands og Austurríkis í riðli Íslands í undankeppni EM í fótbolta á þriðjudagskvöld. Oberdorf er nýorðin liðsfélagi Glódísar Perlu Viggósdóttur hjá Bayern München en hún var áður liðsfélagi Sveindísar Jane Jónsdóttur hjá Wolfsburg.
Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur gengið frá samningi við króatíska sóknarmanninn Mihael Mladen en hann kemur til félagsins frá Radnik Krizevci í heimalandinu. Mladen hefur leikið í heimalandinu allan ferilinn og m.a. 16 leiki í efstu deild Króatíu.
Enska knattspyrnukonan Lucy Bronze hefur skipt yfir til Chelsea í heimalandinu frá spænska stórveldinu Barcelona. Hún er 32 ára og lykilmaður í enska landsliðinu sem er ríkjandi Evrópumeistari. Bronze hefur leikið 125 leiki með enska landsliðinu. Hún hefur einnig leikið með Lyon, Manchester City og Everton. Bronze hefur unnið Meistaradeild Evrópu fimm sinnum og enska meistaratitilinn í þrígang.
Hollendingurinn John Heitinga verður aðstoðarþjálfari Arne Slot hjá karlaliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool. Heitinga, sem er 40 ára gamall, hefur reynt við þjálfun undanfarin ár en hann stýrði hollenska stórliðinu Ajax frá janúar til júní á síðasta ári. Sem leikmaður spilaði Heitinga 87 landsleiki fyrir Holland. Þá lék hann með liðum eins og Ajax, Atlético Madrid, Everton og Fulham.