Óskar Þór Sigurðsson fæddist 25. janúar 1930 í Vestmannaeyjum. Hann lést á Selfossi 9. júlí 2024.
Foreldrar Óskars voru Ingunn Úlfarsdóttir f. 6.1. 1899 á Fljótsdal í Fljótshlíð, d. 18.11. 1957, og Sigurður Sigurðsson, f. 19.3. 1900 á Eystri-Klasbarða í V-Landeyjum, d. 26.11. 1997. Systur Óskars voru Guðlaug, f. 20.12. 1925, d. 9.7. 1938, og Guðlaug, f. 25.12. 1937, d. 10.1. 2023.
Óskar ólst upp í foreldrahúsum á Hásteinsvegi 31 í Vestmannaeyjum. Lauk hann þar grunnskólanámi og var virkur í félagsstörfum, s.s. í Skátafélaginu Faxa og Lúðrasveit Vestmannaeyja. Árið 1955 fluttist Óskar frá Eyjum á Selfoss og bjó þar alla tíð. Hann lauk kennaraprófi árið 1957 og var settur kennari við Barnaskóla Selfoss, frá 1973 sem yfirkennari og árin 1989-1995 sem skólastjóri. Óskar stýrði einnig sumarvinnuhópum barna og unglinga á Selfossi sem unnu m.a. að gróðursetningu skóga á Snæfoksstöðum. Hann tók þátt í starfi skátaflokksins Útlaga sem í voru burtfluttir Eyjamenn og skrifaði bók um hann. Óskar birti ýmsar greinar og fróðleik og var virkari en flestir jafnaldrar sínir á samfélagsmiðlum. Hann starfaði að náttúruvernd og ræktun mestan hluta ævinnar, m.a. með Skógræktarfélagi Selfoss og Skógræktarfélagi Árnesinga og var formaður félaganna um árabil, auk þess að starfa í stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands. Árið 1953 kynntist Óskar eiginkonu sinni Aldísi Bjarnardóttur kennara frá Fagurgerði á Selfossi. Hún var fædd 7.3. 1929 og lést 30.10. 1991. Þau reistu sér heimili, ræktuðu myndarlegan skrúðgarð að Grænuvöllum 3 á Selfossi og eignuðust sex börn.
1) Örn f. 17.9. 1955, giftur Kristínu Runólfsdóttir, f. 12.1. 1960. Börn þeirra eru: Atli, f. 1981, Aldís, f. 1987, og Anna Rut, f. 1993. Barnabörn eru sjö. 2) Úlfur, f. 16.12. 1957, giftur Sabine Bernholt, f. 23.11. 1965. Þau eiga Sindra, f. 2002. Úlfur og Signhildur Sigurðardóttir, f. 24.9. 1957, eiga saman Sölva, f. 1982, Helgu, f. 1985, og Kára, f. 1990. Barnabörn eru fjögur. 3) Hrafn, f. 10.2. 1961. Börn hans og Kristrúnar Hrannar Gísladóttur, f. 14.1. 1965, eru: Þórdís Lilja, f. 1991, Jóhanna, f. 1993, Bjarki, f. 1996, Gísli Hafsteinn, f. 2000, og Óskar, f. 2006. Barnabarn er eitt. 4) Gerður, f. 16.11. 1963, gift Gunnari Sigurgeirssyni, f. 1.12. 1953. Börn þeirra eru: Karítas, f. 1993, og Trostan, f. 1995. Gerður á Ými, f. 1982, með Sigurði Hannessyni, og Gunnar á Daníel, f. 1982, með Hrefnu Daníels. Barnabörn eru fimm. 5) Þrúður, f. 4.8. 1969. Börn hennar og Steingríms Dufþaks Pálssonar, f. 12.12. 1963, eru: Edda Ósk, f. 1996, og Páll Fáfnir, f. 2000. 6) Hreinn, f. 20.10. 1971, giftur Guðbjörgu Arnardóttur, f. 23.7. 1976. Börn þeirra eru: Freyr, f. 2001, Ásrún Aldís, f. 2004, og Örn, f. 2010.
Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 18. júlí 2024, kl. 13.
Það var árið 1980 sem ég kom inn í líf Óskars Þórs. Hann tók á móti mér á tröppunum á Grænuvölllum og mér finnst eins og það hafi verið í gær. Hann vissi held ég ekkert hverra erinda ég var en ég var á leið í Þórsmörk með Erni, elsta syninum. Og þarna var ég komin, fyrsta tengdadóttirin. Mér var tekið opnum örmum og boðið sæti í hlýlega skotinu við arininn. Mér leið strax eins og þarna ætti ég heima og það varð raunin. Ég hef ekki farið frá Selfossi síðan. Um haustið giftum við Örn okkur og í lok vetrar fæddist okkur þeirra fyrsta barnabarn. Veturinn sem í hönd fór var sá besti í lífi mínu og Aldís og Óskar, og börnin þeirra sex, umvöfðu mig umhyggju og góðvild. Sem ég skrifa þetta fara í gegnum hugann ótal atvik og minningar sem verða ljóslifandi og skapa ýmis hughrif. Aðallega þakklæti en líka sorg, og ekki síst söknuður eftir lífi sem var ögn einfaldara og hægara.
Ég varð hluti af fjölskyldu Aldísar og Óskars frá fyrstu stundu og þeirra áhugamál, sem voru mörg, urðu fljótt að mínum. Nýr kafli hófst í lífinu. Ég varð veiðikona, garðræktarkona, kartöfluræktarkona og skógræktarkona, og fékk útrás fyrir áhuga minn á náttúrunni á allt annan hátt en áður. Ég dáðist að þeim hjónum og tók þau mér til fyrirmyndar. Þau voru að mörgu leyti ólík, Aldís hæg og róleg, en það gustaði af Óskari. Það var mikil sorg þegar Aldís veiktist og dó fyrir rúmum 30 árum, rétt um sextugt.
Óskar var mikill höfðingi og hrókur alls fagnaðar, skemmtilegur og orðheppinn. Hann var Eyjamaður í húð og hár og bar hag Eyjanna fyrir brjósti fram á síðasta dag. Hann hafði mikinn áhuga á ferðalögum um landið. Áhuga á náttúrunni, plöntum, fuglum og stangveiði. Hann fylgdist vel með tækninni, borðtölvan, spjaldtölvan og snjallsíminn alltaf innan seilingar og Apple-úrið á hendinni. Fæðing barna og barnabarna þeirra Aldísar var honum mikið gleðiefni og hann sýndi þeim mikinn áhuga og umhyggju. Hann hélt sambandi við afkomendurna, vini og gamla nemendur á Facebook og fylgdist vel með nýjungum. Til dæmis kom mörgum á óvart þegar hann rúmlega níræður maðurinn dró upp símann til að borga fyrir ýmsa þjónustu eða panta lyf með einu eða öðru appinu. En það sem stóð upp úr var skógræktin sem segja má að hann hafi lifað fyrir hin síðari ár. Og hans mikli áhugi og eldmóður hefur erfst til afkomenda hans, sem nú telja á fimmta tug, og ekki síst til sona hans fjögurra sem allir hafa lagt mikið af mörkum við ræktunarstarf og gert það að sínu ævistarfi.
Hafðu þökk fyrir allt kæri Óskar. Þú hefur verið stór hluti af lífi mínu og barna okkar Arnar, Atla, Aldísar og Önnu Rutar, og þau hafa notið þess að búa í nálægð við þig allan sinn uppvöxt. Ég var tvítug og þú fertugur þegar leiðir okkar lágu saman en nú er komið að kveðjustund og við þökkum forsjóninni fyrir þá líkn að láta þig ekki þjást í lengri tíma þegar kom að ævilokunum. Lífið verður tómlegt án þín.
Kristín Runólfsdóttir
og fjölskylda.
Elskulegi afi minn kvaddi 9. júlí síðastliðinn.
Afi var stórkostlegur maður enda vita þeir sem þekktu hann hversu góðan og hlýjan mann hann hafði að geyma.
Það verður skrítið að geta ekki hringt í hann eða kíkt á hann þegar mann langar í langt spjall um daginn og veginn, því það er eitthvað sem hann var alltaf til í. Skrítið að fá ekki messenger frá honum þar sem hann spyr hvernig maður hafi það. En hann afi minn var án efa tæknivæddasti eldri borgari sem ég þekkti. Borgaði með applewatch, var líklega elsti þekkti notandi Lyfju-appsins og ábyggilega mun klárari en ég á Facebook. Einu sinni spurði hann mig meira að segja hvort hann ætti að byrja á þessu „TikTok“. Hann var líka snillingur á facetime og hringdi t.d. í okkur tvisvar þegar við fjölskyldan vorum í Veiðivötnum núna í sumar til þess að sjá náttúruna og aflann. Fannst honum að með þeim hætti gæti hann verið með okkur í ferðinni.
Afi hafði alltaf mikinn áhuga á að koma sér inn í nýja hluti og sýndi hann því til dæmis mikinn áhuga þegar ég fékk mér gervineglur, það fannst honum merkilegt, að vilja framlengja sínar eigin neglur. En samt sem áður var hann alltaf ekkert annað en áhugasamur og fordómalaus. Enda hafði hann alltaf einlægan áhuga á sínu fólki. Afi kenndi mér margt enda hafði hann mikla visku að geyma. En fyrst og fremst kenndi hann mér að elska íslensku náttúruna, og öllum veiðivatnaferðunum okkar mun ég seint gleyma.
Það er alltaf erfitt að kveðja en það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast svona örlátum, fallegum og góðum manni.
Ég er þakklát fyrir allt okkar og því kveð ég þig afi minn með hjartað fullt af þakklæti og hlýju. Takk fyrir allt.
Ásrún Aldís Hreinsdóttir.