Surtsey Hópurinn rannsakar og vaktar vistkerfi eyjunnar friðuðu.
Surtsey Hópurinn rannsakar og vaktar vistkerfi eyjunnar friðuðu. — Ljósmynd/Olga Kolbrún Vilmundardóttir
„Núna í ár fannst hérna í fyrsta sinn fíflalús og hún lifir á túnfíflum og er í rauninni tiltölulega nýr landnemi á Íslandi en hefur ekki fundist á Suðurlandi þannig að þetta er fyrsti fundarstaður á Suðurlandi,“ segir Olga Kolbrún…

Egill Aaron Ægisson

egillaaron@mbl.is

„Núna í ár fannst hérna í fyrsta sinn fíflalús og hún lifir á túnfíflum og er í rauninni tiltölulega nýr landnemi á Íslandi en hefur ekki fundist á Suðurlandi þannig að þetta er fyrsti fundarstaður á Suðurlandi,“ segir Olga Kolbrún Vilmundardóttir líffræðingur sem leiðir hóp vísindamanna í Surtsey. Árlegri rannsóknarferð í Surtsey lýkur í dag en hópurinn hélt til eyjarinnar á mánudag.

Hópurinn, sem er frá Náttúrustofnun Íslands, rannsakar vistkerfi eyjarinnar. Segir Olga mælingar hafa staðið yfir síðustu daga þar sem mældir eru ýmsir þættir vistkerfisins.

Farið er um alla eyjuna og leitað að nýjum landnemum og æðplöntutegundum og segir Olga að allt sé svo skráð.

„Við erum að leita að mismunandi tegundum og við erum sem sagt að leita að nýjum tegundum sem gætu hafa numið hérna land. En við erum líka að elta uppi sjaldgæfari tegundir hérna á eyjunni sem við vitum að uxu hérna síðast og erum að kanna stofnstað þeirra, ef við finnum þær, og ef við finnum þær ekki þá getum við ekki skráð að þær séu hérna lengur,“ segir Olga og nefnir þá einnig að um sé að ræða vöktun sem sé endurtekin árlega.

„Það þýðir að við erum að gera sömu hlutina endurtekið þannig að við fáum svona gagnaröð með tímanum. Svo kemur kannski að því að á einhverra ára fresti getum við gert ítarlega greiningu á gögnunum og sjáum þá ákveðið ferli á þróun lífríkisins.“

Hópurinn fór til Surtseyjar með þyrlu Landhelgisgæslunnar á mánudag, sem Olga undirstrikar að sé mjög mikilvægt framlag fyrir rannsóknirnar. Um er að ræða fjögurra daga ferð.

Surtseyjarleiðangurinn

Líffræðingar fara á hverju ári og jarðfræðingar annað hvert ár á vegum Náttúrfræðistofnunar Íslands.

Rannsaka og vakta t.a.m. æðplöntur, gróður, fuglalíf og smádýr.

Æðplöntutegundir hafa verið skráðar á eyjunni á hverju sumri frá 1965 þegar fyrsta tegundin fannst í eynni.