Sveinn Valfells
sveinnv@mbl.is
Fjölþjóðlegur rannsóknarleiðangur á vegum Hafrannsóknastofnunar stendur nú yfir í fimmtánda sinn, en hann er árlega farinn til þess að meta magn og útbreiðslu makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í Norðaustur-Atlantshafi. Siglt er á rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni, en með í för að þessu sinni eru einnig hvalatalningarmenn á vegum hinar svokölluðu NASS-talningar (North Atlantic Sighting Survey). Auk Íslendinga taka einnig Færeyingar, Danir og Norðmenn þátt í verkefninu.
Anna Heiða Ólafsdóttir, leiðangursstjóri og fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, segir leiðangurinn hafa hingað til gengið vel.
„Leiðangurinn er nú hálfnaður, en við erum búin að sigla um 3.000 sjómílur. Mælingum norðanvestan, norðan og norðaustan við landið er nú lokið og við færum okkur rólega suður í Atlantssjóinn. Það helsta sem hefur komið á óvart á siglingum okkar úti fyrir norðurmiðum er hvað það er búið að vera kalt í veðri. Fyrstu 10 dagar leiðangursins í júlí líktust hreinlega vetrarleiðangri, en yfirborðshiti sjávar fór í mínus eina gráðu og lofthiti var um ein gráða,“ segir Anna.
Áhrif kuldans óljós
Hún segir erfitt að segja nákvæmlega til um hvernig áhrif kuldinn muni hafa á lífríkið í hafinu, en ekki sé endilega línulegt samband milli hitastigs sjávar og afkomu stofna.
„Þó að erfitt sé að spá fyrir um hvaða áhrif kuldinn hefur á fiskistofnana, ræðst útbreiðsla þeirra að hluta til af hitastigi sjávarins. Því höfum við fundið töluvert mikið af loðnu í mælingum okkar við norðurstrendur. Þetta var stór loðna, um 13-17 sm og veiddist afar nálægt yfirborði sjávar í stöðluðum yfirborðstogum. Við höfum einnig fengið nokkurt magn af hrognkelsum, en þau eru hörð af sér og virðast þola allskonar aðstæður. Einnig urðum við vör við svipað mikla síld fyrir norðan og í fyrra, en það voru einnig stæðilegir fiskar,“ segir Anna og bætir við að heilt yfir sé staðan á norðurmiðum afar svipuð og hún hefur verið undanfarin ár. Kolmunninn og makríllinn halda sig aftur á móti í hlýrri sjó eins og kunnugt er, og það svæði verður mælt í seinni hluta leiðangursins
Heyrst hefur meðal útgerðarfyrirtækjanna að makrílveiði hafi verið dræm það sem af er sumri, en spurð um stöðu makrílstofnsins segir Anna of snemmt að fullyrða nokkuð um hana.
„Það hefur verið töluverður breytileiki í makrílstofninum milli ára. Magn makríls við Ísland var mest á árunum 2014-2017, en hefur minnkað töluvert síðan. Það varð töluverður samdráttur sumarið 2020 en stofninn hefur mælst suðaustanlands. Hann hefur ekkert sótt vestur síðan þá og við getum því hugsanlega átt von á að staðan verði svipuð í ár, en ekkert bendir til þess að magn hans verði meira nú en í fyrra,“ segir Anna.
Stofnmatið grunnur veiðiráðgjafar
Gögn Hafrannsóknastofnunar og samstarfsaðila hennar nýtast svo við gerð stofnmats fyrir makrílstofninn, sem verður gert á vegum vinnuhóps innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins í lok ágúst. Þess má geta að stofnmatsfundur vinnuhópsins verður haldinn í Hafrannsóknastofnun þetta árið. Niðurstöður stofnmats verða birtar í byrjun október.