Setningarathöfn Ragnheiður Runólfsdóttir, önnur til hægri, gengur með íslenska hópnum inn á leikvanginn í Barcelona 1992.
Setningarathöfn Ragnheiður Runólfsdóttir, önnur til hægri, gengur með íslenska hópnum inn á leikvanginn í Barcelona 1992. — Ljósmyndir/Helga Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólympíuleikarnir eru helsta íþróttahátíð heims og takmark margra, ef ekki flestra afreksmanna í íþróttum er að keppa á þeim. Leikarnir í París verða settir í næstu viku, 26. júlí, og er Ragnheiður Runólfsdóttir, Íþróttamaður ársins 1991 frá Akranesi, með miða á sundkeppnina

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ólympíuleikarnir eru helsta íþróttahátíð heims og takmark margra, ef ekki flestra afreksmanna í íþróttum er að keppa á þeim. Leikarnir í París verða settir í næstu viku, 26. júlí, og er Ragnheiður Runólfsdóttir, Íþróttamaður ársins 1991 frá Akranesi, með miða á sundkeppnina. „Svíinn Eric Persson er félagsmaður okkar í Kungsbacka og ef ég fer verður gaman að sjá hann og Anton Svein McKee í 200 metra bringusundinu,“ segir hún.

Ragga var í fremstu röð íslenskra sundkvenna í um áratug og setti nokkur hundruð Íslandsmet. Hún keppti á ÓL í Seúl í Suður-Kóreu 1988, þá tæplega 22 ára, og Barcelona á Spáni 1992, en hætti í kjölfarið og hefur verið þjálfari síðan, þar af í Svíþjóð undanfarin nær fimm ár. Hún segir þátttöku í Ólympíuleikum einstaka upplifun. „Tilfinningin er í raun óútskýranleg, mögnuð upplifun, sem gleymist aldrei.“

„Vá“

Eitt er að ná lágmörkum, annað að ganga inn á völlinn á opnunarhátíðinni, að ekki sé minnst á keppnina sjálfa. Ragga segir að í Seúl hafi allt verið svo nýtt og yfirþyrmandi, en hún hafi verið reynslunni ríkari í Barcelona. „Allt var algjört „vá“ í Seúl og maður vissi ekki í hvorn fótinn maður ætti að stíga, ég hitti frægt fólk og stórstjörnur daglega, allt var svo mikið og merkilegt og mér leið eins og barni á jólunum. Mér fannst ég vera mjög lítil í þessu stóra samfélagi en reynslan kom sér vel fjórum árum síðar.“

Ragga náði lágmarkinu í nokkrum greinum á móti í Ósló um páskana 1988. Fyrst í 200 metra bringusundi. „Ég fagnaði rosalega, öskraði eins og ljón, og Halldór Ragnarsson, þjálfari minn, dansaði stríðsdans á pöllunum. Þetta var mikill léttir og um leið sérstök upplifun.“

Þegar Ragga fór til Suður-Kóreu hafði hún ekki keppt á mörgum alþjóðlegum mótum, en það breyttist heldur betur eftir að hún fór í nám í íþróttalífeðlisfræði í Bandaríkjunum. „Ég keppti á öllum helstu mótum, var ofar á styrkleikalistum og vissi að hverju ég gekk. Þegar ég fór til Seúl var markmiðið að gera mitt besta og reyna að setja Íslandsmet en í Barcelona setti ég stefnuna á úrslitasund.“ Árangur hennar í Seúl var sá besti sem íslenskur sundmaður hafði náð á Ólympíuleikum.

Ragga segir mikilvægt að láta framandi umhverfið ekki trufla einbeitinguna. „Mann langar til að taka þátt í öllu og upplifa allt en það er ekki skynsamlegt með árangur í huga.“ Hún bendir á að íþróttafólkið hafi til dæmis þurft að bíða baksviðs í nokkra klukkutíma eftir að ganga inn á völlinn í setningarhátíðinni, sem hafi líka tekið sinn tíma. „Við viljum ekki missa af hátíðinni, því hún er hluti af því að vera fulltrúi þjóðarinnar og við erum stolt af því að vera Íslendingar í þessum stóra heimi, en hátíðin má heldur ekki koma niður á árangrinum.“

Ekkert jafnast á við þátttöku á Ólympíuleikum og Ragga leggur áherslu á að íþróttafólk eigi að taka allt inn sem það getur, og hlusta á ráðleggingar þeirra sem reyndari eru. „Keppnin er jafnt utan sem innan vallar og mikilvægt er að mæta öllu með uppbyggingu í huga, en aðalatriðið er að njóta líðandi stundar, því hún er einstök.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson