Ólafur Ásgeir Steinþórsson fæddist í Stykkishólmi 22. ágúst 1938. Hann lést í Reykjavík 9. júlí 2024.
Foreldrar hans voru Steinþór Einarsson, f. 27.9. 1895, d. 12.6. 1968, og Jóhanna Stefánsdóttir, f. 24.7. 1897, d. 21.10. 1987. Systkini Ólafs: Fjóla, f. 1920, d. 1996, Jóhann Hergils, f. 1923, d. 1993, Ragnar Fjeldsted, f. 1924, d. 1945, Einar, f. 1925, María, f. 1928, d. 2011.
Eiginkona Ólafs er Sigrún Símonardóttir, f. 12.12. 1939, á Grímarstöðum í Andakíl. Synir þeirra eru: 1) Steinþór Páll, f. 1970, eiginkona Elínborg Siggeirsdóttir, og dóttir þeirra Agatha Elín. 2) Símon, f. 1974, eiginkona Anna Jóhanna Sigmundsdóttir. Börn þeirra Sigmundur Óli og Sigrún. 3) Guðjón Fjeldsted, f. 1984, d. 2022.
Ólafur ólst upp fyrstu ár sín í Bjarneyjum á Breiðafirði og síðar í Flatey. Haustið 1954 flutti svo fjölskyldan til Stykkishólms þegar Ólafur var 15 ára. Þar fór hann að læra á hljóðfæri og gekk fljótlega í lúðrasveit Stykkishólms og hóf síðar að leika með ýmsum danshljómsveitum.
1958 flutti Ólafur til Reykjavíkur og starfaði m.a. í kjötbúðinni Borg og í Vísi á Laugaveginum. Sama ár og Ólafur flutti til Reykjavíkur kynntist hann Sigrúnu og giftu þau sig í Borgarnesi 17. júní 1960 og hófu búskap þar. Fyrstu árin í Borgarnesi vann Ólafur hjá Verslunarfélagi Borgarfjarðar en hóf svo störf 1965 hjá sýslumannsembættinu í Borgarnesi.
Fyrstu árin í Borgarnesi bjuggu Ólafur og Sigrún í Hjallinum en byggðu sér svo hús á Þórólfsgötu 14 þar sem þau áttu heima lengst af. Síðustu tíu árin í Borgarnesi bjuggu þau á Berugötu 2 og árið 2005 fluttu þau til Reykjavíkur.
Útför Ólafs verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 18. júlí 2024, og hefst athöfnin kl. 13.
Þriðjudagskvöldið 9. júlí sl. kvaddi Ólafur Ásgeir Steinþórsson tengdafaðir okkar þetta líf. Hann var langyngstur í stórum systkinahóp sem varði barnæsku sinni í Bjarneyjum á Breiðafirði, Flatey og seinna í Stykkishólmi. Hann átti sterkar taugar í Breiðafjörðinn og var lengi vel að safna sögum og myndum um persónur, mannlíf og atvinnuhætti þaðan. Upp úr þessum heimildum skrifaði hann tvær bækur, „Ferð til fortíðar“ sem kom út 1995 og „Urðarmána“ sem kom út 2012. Fyrri bókina skrifaði Ólafur á gamla ritvél og tók ferlið mörg ár. Seinni bókina handskrifaði Ólafur og vann með ritstjóra frá bókaútgáfunni Uppheimum. Þessar bækur eru uppspretta heimilda fyrir áhugasama um þjóðlíf á Breiðafirði á síðustu öld. Hann var flottur penni og skrifaði einnig greinar í dagblöð.
Ólafur var mikill hagleiksmaður, snjall listmálari og ljósmyndari. Var einstakt snyrtimenni svo eftir var tekið. Hann var stöðugt að dytta að hjá þeim Sigrúnu og boðin og búinn að aðstoða með framkvæmdir hjá ættingjum og vinum.
Það var mikið ævintýri fyrir Ólaf að flytja í Stykkishólm 1953, en þar hóf hann tónlistarnám og spilaði lengi vel á blásturshljóðfæri í lúðrasveit og hljómsveitum. Tónlistin varð hans áhugamál og ástríða út lífið.
Tvítugur flutti Ólafur til Reykjavíkur og bjó hjá Fjólu systur sinni. Hann starfaði í Kjötbúðinni Borg og svo hjá Vísi á Laugaveginum. Honum fannst gaman að rifja upp tímann á Vísi en þar voru frammámenn þjóðarinnar og kynlegir kvistir daglegir gestir.
Þann 17. júní 1960 giftist Ólafur eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigrúnu Símonardóttur, en þau voru fyrstu hjónin sem voru gefin saman í þá nývígðri Borgarneskirkju.
Fyrstu búskaparárin bjuggu þau í litlu húsi í Borgarnesi, svokölluðum Hjalli. Þau byggðu sér síðan hús á Þórólfsgötu 14, á Holtinu í Borgarnesi. Þar átti Ólafur gott athvarf í bílskúrnum þar sem var mikið grúskað og brallað. Á Þórólfsgötunni fæddust svo bræðurnir Steinþór Páll 1970, Símon 1974 og loks Guðjón Fjeldsted 1984. Foreldrar Sigrúnar bjuggu í næsta húsi á Þórólfsgötunni og var samgangurinn mikill. Síðar minnkuðu þau hjón við sig og fluttu að Berugötu 2 og gerði Ólafur það hús og lóðina að miklu leyti upp. Árið 2005 flytja þau til Reykjavíkur.
Ólafur sat í stjórn Félags farstöðvaeigenda FR til margra ára og setti upp stórt loftnet í garðinum á Þórólfsgötunni sem vakti mikla athygli, sérstaklega eftirlitsmanna Fjarskiptastofnunar ríkisins.
Þau Sigrún störfuðu saman nær allan sinn starfsferil hjá sýslumannsembættinu í Borgarnesi. Eftir starfslok áttu skriftir ásamt mynt- og frímerkjasöfnun hug Ólafs. Fyrsta barnabarnið Sigmundur Óli fæddist 2001, þá Agatha Elín 2002 og loks Sigrún 2007. Honum þótti gaman að fá barnabörnin í heimsókn og fylgjast með þeim vaxa og þroskast.
Okkur fannst einstaklega gaman að bjóða Ólafi í mat, en hann naut sín sjaldan eins vel og við veisluborðið með fjölskyldunni.
Við tengdadætur Ólafs kveðjum hann með virðingu og þökk fyrir allt og allt.
Anna Jóhanna
Sigmundsdóttir,
Elínborg Siggeirsdóttir.
Ólafur Ásgeir Steinþórsson, Óli frændi, er fallinn frá á 86. aldursári. Óli var móðurbróðir minn, yngstur barna afa og ömmu, Jóhönnu Stefánsdóttur og Steinþórs Einarssonar sem bjuggu í Breiðafjarðareyjum og í Stykkishólmi.
Ég man vel eftir honum þegar hann sem ungur maður kom oft á heimili foreldra minna og fékk að gista þar þegar hann kom til Reykjavíkur að vestan. Óli var glaðlyndur, ljúfur og kátur, alltaf stutt í húmorinn og fannst ekki leiðinlegt að stríða mér, litla frænda, en alltaf í miklum vinskap.
Óli var tónlistarmaður og spilaði á trommur, klarinett og saxófón í nokkrum hljómsveitum. Á þessum árum fannst mér hann mikill töffari, með brilljantín í hárinu, í hvítri skyrtu með lakkrísbindi og í támjóum skóm. Hann kynnti mig fyrir Elvis, Goodman, Armstrong og fleiri helstu nöfnum í rokk- og djasstónlist sjötta áratugar síðustu aldar. Ég á mér minningu sem polli vestan úr Stykkishólmi, þar sem Óli kenndi mér að hlusta á djass, uppgötva og tromma taktinn í lögunum, mikið fannst mér stóri frændi þá flottur.
Óli var mikill Breiðfirðingur, fæddur í Stykkishólmi, alinn upp í Bjarneyjum og Flatey.
Heimaslóðirnar voru honum kærar bæði er kom að mannlífi og atvinnusögu. Á miðjum aldri skráði hann sögu byggðar og mannlífs æskuslóðanna og sagði frá ungdómsárum sínum í tveimur bókum, Ferð til fortíðar og Urðarmána. Í bókunum er persónuleg frásögn hans af lífinu á breiðfirskum heimaslóðum hans, skráð með þeirri leiftrandi sagnagáfu sem einkenndi hann. Óli var fjölfróður um eyjalífið og oft var leitað til hans er upplýsinga var þörf þar að lútandi.
Óli kvæntist yndislegri konu, Sigrúnu Símonardóttur úr Borgarnesi, og eignuðust þau þrjá syni. Óli og fjölskylda hans bjuggu lengst af í Borgarnesi en síðustu áratugi í Reykjavík.
Það var alltaf jafn notalegt að heimsækja Óla, Lillu og syni þeirra í Borgarnes og viljum við þakka þeim gestrisnina og fyrir allar ánægjulegar samverustundir.
Nú er jarðlífi Óla frænda lokið en viss er ég um það að í sumarlandinu hittir hann fyrir breiðfirskt frændfólk og vini og þá verður ekkert gefið eftir og sögur sagðar sem aldrei fyrr um gamla góða tíma.
Um leið og við Þóra og fjölskylda okkar þökkum Óla frænda fyrir allt gamalt og gott þá færum við Lillu, Steinþóri, Símoni og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.
Við kveðjum þig með virðingu kæri frændi.
Ragnar og Þóra.