Gísli Freyr Valdórsson
Sveinn Valfells
Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur þegar varið um sjö milljörðum króna í uppbyggingu Carbfix, sem er dótturfélag OR. Til að setja hlutina í samhengi er kostnaður við eina háhitaborholu um einn milljarður króna. Samkvæmt eigin fjárhagsspá áætlar OR að verja a.m.k. 68 milljörðum króna í fjárfestingar vegna Carbfix til ársins 2028. Það eru um 30% af öllum fjárfestingum OR á tímabilinu 2024-2028. Til samanburðar má nefna að áætluð fjárfesting í viðhaldi á veitukerfi á tímabilinu er um 89 milljarðar króna.
Hér er aðeins minnst á þann hluta sem OR áætlar sjálf að verja til uppbyggingar Carbfix. Í fjárhagsspá OR, sem birt var í október sl., kemur fram að hluti fjárfestinga Carbfix sé fjármagnaður með styrkveitingum og stendur því fyrir utan fyrrnefnda fjárfestingaáætlun.
Enn liggur ekki fyrir hvernig OR hyggst fjármagna uppbyggingu og rekstur móttöku- og förgunarmiðstöðvar Carbfix fyrir koldíoxíð (CO2), Coda Terminal, sem rísa á í Straumsvík og hefja rekstur árið 2027. Til stendur að flytja árlega þrjár milljónir tonna af koldíoxíði frá iðnaðarfyrirtækjum í Evrópu og dæla ofan í jörðina til kolefnisbindingar nærri álverinu í Straumsvík. Uppbygging stöðvarinnar er enn í þróunarfasa en hefur þó fengið vilyrði fyrir um 16 milljarða króna styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins (EU Innovation fund). Þó er ljóst að sá styrkur mun aðeins ná yfir brot af þeim fjármunum sem til þarf í verkefnið.
Lítill áhugi fjárfesta
Eins og komið hefur fram ríkir tortryggni meðal hluta íbúa Hafnarfjarðarbæjar í garð uppbyggingar Coda Terminal, en yfir tvö þúsund íbúar í bænum hafa nú þegar skrifað undir mótmæli vegna staðsetningar stöðvarinnar. Þá hafði Hafnarfjarðarbær skoðað þann möguleika að taka níu milljarða króna lán til að fjármagna uppbyggingu á bættri hafnaraðstöðu við Straumsvík, en bærinn hefur fallið frá þeim áformum.
Í ársreikningi Carbix fyrir árið 2023 kemur fram að OR sé „afdráttarlaus“ í stuðningi sínum við framtíðarþróun Carbfix og muni halda áfram að „veita bæði fjárhagslegan og rekstrarlegan stuðning í framtíðinni“ eins og það er orðað. Þá kemur fram að ráðstafanir hafi verið gerðar til að undirbúa breytingar á eignarhaldi Carbfix með því að fá inn nýja hluthafa. Lokað útboðsferli stendur nú yfir og er áætlað að ljúka því á þessu ári. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa einkafjárfestar þó sýnt verkefninu lítinn áhuga. Það sama á að vísu við um einkavæðingu Ljósleiðarans, sem einnig er dótturfyrirtæki OR, en þar stóð til að auka hlutafé félagsins með aðkomu einkafjárfesta.
Einnig kemur fram í ársreikningi Carbfix að stjórn OR hafi á stjórnarfundi í lok febrúar samþykkt að hækka núverandi lánafyrirgreiðslu í sjö milljarða króna til að tryggja fjármögnun og fjárfestingar til skamms tíma. Þá kemur fram í fjárhagsspá OR að gert sé ráð fyrir auknum tekjum Carbfix á næstu árum.
Morgunblaðið leitaði svara hjá forsvarsmönnum OR og Carbfix um uppbyggingu félagsins. Í svari Carbfix kemur fram að Coda Terminal-verkefnið sé á undirbúningsstigi og mörgum spurningum því enn ósvarað. Fram kemur að umhverfismat og forhönnun standi enn yfir og því sé ótímabært að tjá sig um einstaka atriði. Þó sé ljóst að kostnaður verkefnisins hlaupi á tugum milljarða króna og styrkur frá Nýsköpunarsjóði ESB muni dekka minnihluta kostnaðar. Þegar leitað var nánari svara um áætlaðan tekjuvöxt, framtíðarhorfur hvað fjármögnun varðar og fleira var ekki hægt að svara þeim spurningum að svo stöddu þar sem viðeigandi aðilar væru í sumarfríi.