Ríkissaksóknari hefur gert Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, að taka á ný upp rannsókn á máli sem embættið hafði áður ákveðið að fella niður. Aðfinnslur ríkissaksóknara við embættisfærslu lögreglustjórans eru svo alvarlegar að þær kalla á sérstök svör.
Málið varðar kæru á hendur Semu Erlu Serdaroglu og Maríu Lilju Ingveldar Þrastardóttur Kemp og samtökunum Solaris vegna fjársöfnunar til þess að greiða götu palestínskra hælisleitenda frá Gasa hingað til lands um Egyptaland.
Um opinberar fjársafnanir gilda sérstök lög til að koma í veg fyrir svikahrappa, hirðuleysi eða peningaþvætti. Þær skulu vera í löglegum tilgangi, eru háðar opinberu leyfi og áskilnaður er um fjárreiðurnar. Um allt þetta eru áhöld varðandi söfnun Solaris.
Hitt er þó alvarlegra að miðað við frásagnir hinna kærðu forsvarsmanna söfnunarinnar og annan fréttaflutning frá landamærum Egyptalands við Gasasvæðið kann stór eða stærstur hluti fjárins að hafa verið notaður til mútugreiðslna til egypskra embættismanna. Allt er það ískyggilegra en ella vegna þess hernaðar- og hryðjuverkaástands sem ríkir á Gasa.
Mútugreiðslur eru bannaðar að lögum að viðlögðu allt að sex ára fangelsi, en jafnframt er Ísland aðili að alþjóðlegasamningum og samstarfi gegn mútum og mikilvægt að Ísland virðist ekki gefa neinn afslátt í þeim efnum.
Ætlaðar sakir eru því verulegar en lögreglustjóri tók þær og kæruna nægilega alvarlega til þess að hefja formlega rannsókn. Hins vegar virðist Halla Bergþóra síðar hafa ákveðið að fella rannsóknina niður upp á sitt eindæmi án minnsta rökstuðnings. Aðeins að grundvöll hefði skort fyrir frekari rannsókn, en engin rök tíunduð fyrir því.
Líkt og ríkissaksóknari segir þá er sú niðurstaða marklaus og fær ekki staðist.
Til að bæta gráu ofan á svart var beiðni ríkissaksóknara um rökstuðning ekki einu sinni svarað; lögreglustjóri virti ríkissaksóknara ekki viðlits.
Ríkissaksóknari gat ekki unað því að rannsókn málsins væri hætt að ástæðulausu. Sakarefni hafi ekki einu sinni verið skilgreind líkt og lög mæla fyrir um, ekkert hafi komið fram um að sjálfstætt mat hafi verið lagt á athafnir hinna kærðu eða sjálfstæð niðurstaða fengin um að ekki væri um opinbera fjársöfnun að ræða. Það byggðist aðeins á neitun kærðu, þó að opinberlega hefði engin dul verið dregin á að um fjársöfnun væri að ræða.
Af öllu þessu segir saksóknari að ekkert liggi fyrir um af hverju rannsókninni hafi verið hætt, ákvörðunin er því felld úr gildi og lögreglustjóra skipað að taka málið upp á ný.
Allt er þetta með ólíkindum.
Lögreglustjórinn skautaði fram hjá sakamálalögum eins og ekkert væri, skilgreindi ekki einu sinni sakarefnin. Eru þess fleiri dæmi eða aðeins í þessu máli?
Ef efni þykja í kæru er rannsókn hafin og þá þarf að afmarka sakarefnin svo rannsóknin sé markviss, bæði í þágu réttvísinnar og réttarverndar borgaranna. Hana þarf að leiða til lykta nema skýrar ástæður séu fyrir því að fella hana niður.
Það má ekki vera háð hentisemi eða duttlungum lögreglustjóra.
Í þessu tiltekna máli er engum vafa undirorpið að almenn fjársöfnun átti sér stað, en ugglaust kostar meiri vinnu að ganga úr skugga hvort mútur hafi verið greiddar. Einmitt til þess höfum við lögregluna og hún má ekki horfa fram hjá afbrotum af því að ómak eða kostnaður við að framfylgja lögum vaxi henni í augum.
Hins vegar læðist að sá grunur að lögreglustjóri hafi fellt niður rannsóknina til að forðast óþægindi. Mörgum var mikið niðri fyrir vegna þrauta hælisleitenda frá Gasa og aðgerðasinnar höfðu uppi ofstopa við ráðherra og embættismenn.
Aðeins af formlegri þáttum málsins er ljóst að Höllu Bergþóru lögreglustjóra varð illilega á í messunni um grundvallaratriði í starfsháttum lögreglu. Verra er þó að það virðist hafa verið geðþóttaákvörðun, hvorki reist á lögum né málefnalegum ástæðum. Það hlýtur að kalla á tiltal dómsmálaráðherra.
En sé því þannig farið, að Halla Bergþóra hafi látið hjá líða að rannsaka málið til hlítar til þess að firra sig óþægindum eða af ótta við viðbrögð aðgerðasinna, er vanrækslan slík að formlegrar áminningar er þörf.
Borgararnir verða að geta treyst því að lögreglustjóri láti ekkert trufla framgang réttvísinnar, hvað þá að hann láti lög og reglu víkja af því að honum, einhverjum eða jafnvel öllum þyki tiltekinn málstaður góður. Fyrir lögum verða allir að vera jafnir.