Ásamt því að hressa sig upp með litríkari fötum í sumar nýtur Agnes þess að vera í fríi.
„Ég ætla að ferðast í sumar bæði um landið og erlendis og kíkja í stúdíó þess á milli. Ég hef verið að nota dagana til þess að styrkja mig og efla, lesa og huga að líkamsrækt. Ég er líka á námskeiði núna þar sem ég er að læra að kortleggja taugakerfið mitt og þekkja betur hvernig það bregst við í mismunandi aðstæðum. Mjög áhugavert,“ segir Agnes um það sem hún er að fást við.
Smá Courtney Love
Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?
„Jennifer Herema hittir Courtney Love hittir Snooki hittir Brigitte Bardot.“
Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?
„„Tomboy“-fílingur, víð föt, afslappað og kúl. Ég hef verið mikið í jarðlitum en er að kynna til leiks litríkari föt nú með sumrinu. Ég var að fá mér ljótan gervipels sem ég hef verið að nota með náttkjólum, mótorhjólastígvélum og koddahári, það er gott móment.“
En þegar þú kemur fram á sviði?
„Á sviði er ég eins og Agnes í öðru eða fjórða veldi. Þar leyfi ég ímyndunaraflinu og gleðinni að ráða. Hverju höfum við að tapa? Ég vil helst að fólk fái svona barnagleðitilfinningu þegar það sér mig og að það finni hvernig áhyggjur skipta ekki alltaf svona miklu máli. „Naive awe effect“ með rokkstjörnuívafi.“
Hver flík geymir minningar um stóran dag
Áttu uppáhaldsflík og af hverju?
„Það eru nokkrar flíkur sem ég get með engu móti losað mig við. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa verið hannaðar og saumaðar á mig fyrir hina ýmsu tónleika og uppákomur. Hver flík geymir minningar um stóran dag í mínu lífi og hefur þess vegna tilfinningalegt gildi. Ég hef líka fengið að taka virkan þátt í ferlinu, flíkurnar eru þannig minningar um frábært samstarf sem ég hef átt við fatahönnuði og klæðskera, sem við eigum svo marga flotta hér á Íslandi.“
En fylgihlut?
„Ég elska Guess-töskur og á svona fimm stykki sem ég hef keypt notaðar hér og þar. Hárið á mér er oft líka minn helsti „fylgihlutur“, ef svo má segja. Ég er alltaf eitthvað að prufa mig áfram með alls konar gervihár. Þegar ég var unglingur var ég „emo king“ og hárið á mér var alltaf númer eitt í öllum dressum. Ég vaknaði klukkan sex alla daga til að gera hárið mitt flott fyrir skólann, án gríns, hvernig væri að taka upp þann metnað aftur?“
Þú getur gert ljótustu buxur í heimi að þeim flottustu
Hvert sækir þú innblástur?
„Instagram og Pinterest aðallega, myndi ég segja. Á Instagram fylgir maður fólki sem á sinn eigin heim og klæðir sig í hann. Vídeóblogg hafa verið góð uppspretta innblásturs fyrir mig nýlega, að sjá hvað fólk er að gera, hvernig lífsstíl það lifir og í hvaða umhverfi, það er uppspretta og meginlind tískunnar. Megsuperstarprincess á Instagram gerir þetta t.d. mjög vel, maður fær New York beint í æð með því að skoða „story-in“ hennar. Rómansinn í ógeðinu. Á Pinterest skoðar maður myndir af gömlum, gleymdum og ógleymdum rokkstjörnum, 60's-inu, O.G. Club kids og nýju Club Kids like-tískunni sem er fer sannarlega vaxandi.“
Fyrir hverju fellur þú oftast?
„„Swagi“. Flíkur eru hér til að bæta útgeislunina sem kemur fyrst og fremst innan úr okkur sjálfum. Flíkur hjálpa okkur aðallega til að lifa nær því orkusviði, þeim heimi sem við búum í eða viljum búa í hverju sinni. Þannig skiptir það þannig séð engu máli fyrir neinn nema þig sjálfan hverju þú klæðist. Þú getur gert ljótustu buxur í heimi flottustu buxur í heimi ef ásetningurinn er réttur og þú finnur sjálfa þig skína í flíkinni. Þess vegna eru ekki til nein tískuslys því þetta er allt saman ferðalag með alls konar landslagi sem við þurfum að fara yfir og áfangastaðirnir breytast eins og manneskjur og umhverfið gerir.“
Kaupir allt notað nema nærfötin
Hefur þú gert einhver tískumistök?
„Nei, nema kannski að gleyma að taka myndir af dressunum mínum fyrir viðtal eins og þetta hérna.“
Hvar verslar þú oftast?
„Allt sem ég kaupi er notað nema nærfötin mín. Úr Hertex, Verzlanahöllinni, Extraloppunni, Rauða krossinum aðallega.“
Hvað er á óskalistanum?
„Eftir þetta viðtal finn ég að mig langar að uppfæra hár-leikinn minn. Mig langar í síðar og þykkar hárlengingar sem fá að sjúskast til með daglegri notkun. Næst á lista, let’s go!“