Örfirisey 1954
Örfirisey 1954
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vel sést úr lofti hvernig landið stækkar og breytist þar sem landfyllingar hafa verið notaðar. Það sést vel þegar myndir úr safni Loftmynda eru skoðaðar og bornar saman. Oft eru landfyllingar nýttar til að breyta hafnarsvæðum eða til að vinna land undir íbúðir eða atvinnusvæði

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Vel sést úr lofti hvernig landið stækkar og breytist þar sem landfyllingar hafa verið notaðar. Það sést vel þegar myndir úr safni Loftmynda eru skoðaðar og bornar saman.

Oft eru landfyllingar nýttar til að breyta hafnarsvæðum eða til að vinna land undir íbúðir eða atvinnusvæði. Á meðfylgjandi myndum sjást dæmi um slíkar breytingar mjög vel.

Sveitarfélög nýta landfyllingar til hafnargerðar og fyrir hafnsækna starfsemi. Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að íbúðabyggð hafi risið á landfyllingum. Efnið sem notað er kemur ýmist af sjávarbotni sem dælt er upp vegna hafnarframkvæmda eða vegna byggingarframkvæmda.

Ísafjörður hefur stækkað um 31 hektara á síðustu 65 árum. Landfyllingin hefur verið nýtt undir atvinnustarfsemi og hluti hennar er óbyggður. Margvísleg fyrirtæki eru með starfsemi á landfyllingum. Sem dæmi má nefna rækjuverksmiðju, fiskmarkað, bílaverkstæði, Ístækni, Hampiðjuna og steypustöð.

Hilmar Kristjánsson hafnarstjóri segir að svæðið hafi tekið miklum breytingum frá því að hann man fyrst eftir sér á Ísafirði og nýjustu framkvæmdirnar séu frá árinu 2019.

Skipin skila miklum tekjum

„Efnið er allt tekið úr sundunum vegna dýpkunar við höfnina. Þar sem unnið er að landfyllingum núna hefur 450.000 rúmmetrum verið dælt upp vegna dýpkunar og 350.000 rúmmetrar af því fóru í landfyllingu. Við hafnargarðinn er verkið unnið þannig að stálþil eru rekin niður og efninu síðan dælt yfir. Við þessa framkvæmd varð til hafnarkantur sem er 300 metra langur með 10 metra dýpi.“

Hann segir að stærsta skipið sem lagst hafi að bryggjunni sé 333 metrar.

„Skemmtiferðaskipin skila um 70% af tekjum hafnarinnar og heildartekjur hafnarinnar eru 600 milljónir. Á síðasta ári var höfnin ekki tilbúin til að taka á móti farþegaskipinu Norwegian Prima og tekjutapið af því var 110 milljónir,“ segir Hilmar.

Sky Lagoon byggt á landfyllingum

Kársnesið í Kópavogi hefur stækkað um ca. 32 hektara á síðustu áratugum. Fyrst þróaðist byggðin undir iðnað og síðar höfn og íbúðabyggð. Í aðalskipulagi Kópavogabæjar er gert ráð fyrir því að grófur iðnaður víki fyrir léttum iðnaði, verslun, þjónustu og íbúðabyggð. Mikil íbúðabyggð er risin við Naustavör og Hafnarbraut. Baðlónið Sky Lagoon er á landfyllingunni. Fyrirhuguð brú yfir Fossvog er á landfyllingum Kársnesmegin og þar er gert ráð fyrir borgarlínu. Fallið hefur verið frá áformum um stórskipahöfn í Kársnesi og höfnin verður fyrir báta.

Örfirisey hefur stækkað um 40 hektara og þar hafa verið byggðar hafnir og lóðum úthlutað fyrir hafnsækna starfsemi, auk þess sem svæðið hefur þróast í verslun og þjónustu. Allt frá því að Gamla höfnin í Reykjavík var tekin í notkun 1917 hefur hún verið í stöðugri þróun og Örfirisey tekið miklum breytingum. Allt land umhverfis Gömlu höfnina er byggt upp á landfyllingum og hefur sú landgerð verið framkvæmd í nokkrum áföngum frá því Örfirisey var tengd við meginlandið með Grandagarði í upphafi síðustu aldar. Faxaflóahafnir hafa líka fyllt upp land annars staðar á hafnarsvæði borgarinnar við Sundahöfn og víðar.

Ljósmyndir til af öllu landinu

Loftmyndir hafa í áratugi sérhæft sig í loftmyndatöku, gerð myndakorta og landlíkana, uppsetningu og rekstri vefkortalausna auk skyldra verkefna. Í gagnagrunni Loftmynda eru til ljósmyndir af öllu landinu og endurnýjaðar reglulega. Loftmyndir eiga því myndir af landinu öllu frá mismunandi tímabilum.

Höf.: Óskar Bergsson