Kári Freyr Kristinsson
Fyrir áhugamenn um pólitík, sem undirritaður er, getur sumartíminn reynst erfiður þegar stjórnmálamenn halda í frí og ró færist yfir pólitíska landslagið. Á slíkum tímum er gott að sökkva sér ofan í sjónvarpsþætti sem eiga sér stað í stjórnmálaheiminum.
Margir góðir þættir hafa verið gerðir sem leyfa áhorfendum að skyggnast á bak við tjöldin og reyna að öðlast innsýn í skáldaðan heim stjórnmálamanna. Hægt er að nefna þættina House of Cards, Designated Survivor og The Diplomat sem dæmi.
Þó er það ein þáttaröð sem er í sérstöku uppáhaldi hjá undirrituðum og eru það dönsku þættirnir Borgen. Þar kynnist maður Birgitte Nyborg sem tekur óvænt við embætti forsætisráðherra Danmerkur eftir þingkosningar og verður fyrst kvenna til að gegna embættinu þarlendis. Eins og í raunheimum stjórnmálanna eru farir Nyborg ekki alltaf sléttar og mætir hún ýmsum hindrunum í þáttaröðunum sem heldur áhorfendum límdum við skjáinn.
Þættir á borð við Borgen eru góðir til að fylla tómarúmið sem myndast yfir sumarið. Það væri kannski vit í því að fylla tómarúmið með öðrum hætti en að því verður ekki vikið hér.