Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Bein loftlína milli Kollafjarðar á Ströndum í Gilsfjörð í Dölum er 15 kílómetrar. Hér heitir Steinadalsheiði sem er á hryggnum sem tengir saman meginlandið og Vestfjarðakjálkann. Svo myndrænni líkingu sé brugðið upp og litið á landakort má segja að heiðin sé á hálsinum milli búks og höfuðs. Vegurinn yfir Steinadalsheiði, sem hefur númerið 690 í skrám Vegagerðarinnar, er litlu lengri en loftlínan, eða um 17 kílómetrar, og er farinn á um hálftíma. Þvert yfir Ísland; hvergi er styttra milli stranda landsins en þarna.
Nokkrir bílar á dag
Þjóðsagan er sú að tröllin þrjú hafi ætlað að grafa í fjöllin svo skipgengt yrði milli Breiðafjarðar og Húnaflóa. Forynjurnar gáfust þó upp þegar sólin kom upp að morgni og urðu að grjóti.
Ekið er suður Strandir frá Hólmavík og þegar komið er um 10 kílómetra þar til suðurs tekur Kollafjörður við. Þar er beygt til hægri að bæjunum Felli, Miðhúsum og Steinadal. Niðri við þjóðveg er skilti með merkingum um að Steinadalsheiði sé torfær vegur og aðeins fyrir bíla með drif á öllum hjólum. „Já, hér er alltaf talsverð umferð yfir sumarið; nokkrir bílar á dag,“ segir Viðar Guðmundsson bóndi á Miðhúsum. Hann var um síðustu helgi að slá heimatúnin þegar blaðamaður fór þarna um og spurði til vegar.
„Steinadalsheiðin er öll vel gróin, frábær beit fyrir sauðfé í heimalöndum. Við smalamennsku á haustin er gott að geta ekið þarna um, en mest er þetta ferðamannavegur sem erlendir túristar stundum álpast inn á snemma vors þegar er ófært. Ég læt þá nú um að bjarga sér sjálfir festi þeir bílana, en annars eru flestir sem þarna fara um ágætlega búnir,“ segir Viðar.
Um gil og skorninga
Ætla má að forðum hafi fólk gjarnan farið yfir Steinadalsheiði á hestum eða fótgangandi. Þarna var svo gerður bílvegur árið 1933 sem talsverð umferð var um næstu árin. Vegurinn úr Hrútafirði norður Strandir var svo tekinn í notkun 1948 og þaðan í frá hefur þessi leið aðeins verið sveita- og jeppavegur, ef svo mætti segja. Vegagerðin heflar veginn og grjóthreinsar leiðina einu sinni á ári sem verður yfirleitt fær snemma sumars.
Sé heiðin farin Strandamegin frá er ekið upp brekkurnar við Steinadal og inn á heiðina. Upp gil og skorninga og svo komið á beinan kafla. Á þeim slóðum er svonefnt Heiðarvatn; þar sem eru landamæri Strandabyggðar, Reykhólasveitar og Dalabyggðar. Og hér fer brátt að halla niður í mót í Brekkudal svo sést út Gilsfjörðinn. Og á hægri hönd þarna er eyðibýlið Gilsfjarðarbrekka, sem tilheyrir Reykhólasveit og þar með Vestfjörðum. Til vinstri, í Dölum og á Vesturlandi, er bærinn Kleifar. Um Brekkuá sem þarna rennur milli bæja eru því hin gömlu skil Vesturlands- og Vestfjarðakjördæma.
Snjóflóð og trúlofun
„Já, auðvitað eru til ýmsar frásagnir af þessari leið,“ segir Jón Jónsson þjóðfræðingur sem er frá bænum Steinadal. „Rétt fyrir jólin árið 1929 fór ungur maður af Ströndum gangandi yfir heiðina og ætlaði í Gilsfjörð að sækja trúlofunarhringa fyrir sig og stúlkuna sem hann var heitbundinn. Hann varð úti á leiðinni; hafði lent undir snjóflóði. En annars er Steinadalsheiðin oftast hættulaus. Þetta er falleg leið sem ég þekki mjög vel og reyni að fara minnst einu sinni á ári mér til gamans.“