Kári Freyr Kristinsson
karifreyr@mbl.is
„Það sem gerir hana nýja er að kælimiðillinn sem hún notar er kolsýra, CO2, sem er umhverfisvæn. Það er kælimiðill sem er að ryðja sér til rúms,“ segir Heimir Halldórsson, viðskiptastjóri hjá KAPP, í samtali við Morgunblaðið.
KAPP afhenti á dögunum Ný-Fiski nýja krapavél sem að sögn Heimis er byltingarkennd. Vélin er að fullu knúin með kolsýrukælimiðli og er orkunotkunin minni í henni heldur en í eldri vélum.
Umhverfisvænn kælimiðill
Spurður hvaða orkugjafi hafi hingað til verið í krapavélum segir Heimir freon-kælimiðla og ammoníak hafa helst verið notað.
„Það eru þessir freon-kælimiðlar sem er verið að fasa út með umhverfissköttum og Kýótó-bókuninni. Þetta [kolsýran] er kælimiðill sem er með GWP-stuðul, Global Warming-stuðul, hann er einn á þessum kælimiðli og þetta kemur aldrei til með að verða óumhverfisvænt enda kemur aldrei til að kælimiðillinn verði bannaður,“ segir Heimir.
Hannað og smíðað hjá KAPP
Heimir segir krapavélina hannaða og smíðaða að öllu leyti innan KAPP en að erlendir ráðgjafar hafi verið fengnir í smá hönnunarvinnu. Hann segir hönnunina hafa verið lengi í þróun.
Spurður hvort hann búist við að fleiri fyrirtæki muni fjárfesta í nýju krapavélunum segir Heimir að hann geri ráð fyrir því.
Bendir hann á að markaðurinn hafi verið að kalla eftir þessu og nýjum lausnum eftir innleiðingu ýmissa Evrópureglugerða.
Aðspurður segist Heimir ekki vita til þess að krapavélar hafi verið fjöldaframleiddar með kolsýruvélum, að minnsta kosti ekki í Norður-Evrópu.