Selfossflugvöllur Áformað er að stytta flugbrautina á vellinum.
Selfossflugvöllur Áformað er að stytta flugbrautina á vellinum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Jón Hörður Jónsson, flugstjóri og formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), segir áformaða styttingu flugbrautarinnar á Selfossflugvelli munu skerða öryggi og notkunarmöguleika vallarins.

Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í gær. Þar sagði að skipulagsyfirvöld í Árborg hefðu auglýst breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins Árborgar 2020-2036 sem felur í sér að austurvestur-flugbrautin á Selfossflugvelli er stytt svo hún sé aðeins á landi í eigu Árborgar en ekki á landi í einkaeigu. Eftir breytingu verði vesturbrautin um 850 metrar að lengd.

„Það er verið að þrengja að flugvöllum víðar en í Reykjavík. Á Selfossi er verið að þrengja að flugvellinum bæði að sunnanverðu með iðnaðarhverfi og að norðanverðu meðfram bökkum Ölfusár. Það er ljóst að stytting á þessum flugbrautum skerðir notkunarmöguleika flugvallarins og hefur þar af leiðandi áhrif á flugöryggi.“

Af hverju skerðir þetta öryggið?

„Öryggið minnkar eftir því sem flugbrautin styttist. Einnig ber að hafa í huga að um grasbrautir er að ræða, sem lengir flugtaksvegalengd flugvéla. Þessi flugvöllur er að mestu notaður fyrir einka- og kennsluflug en stærri vélar hafa einnig notað flugvöllinn í útsýnis- og leiguflugi.

Notaður í kennsluflugi

Hann hefur líka mikið verið notaður fyrir kennsluflug vegna takmarkana sem eru við lýði á Reykjavíkurflugvelli hvað varðar lendingaræfingar og fleira. Þetta er því mjög mikilvægur flugvöllur fyrir einka- og kennsluflug, auk þess sem hann hefur margoft verið notaður sem varaflugvöllur þegar menn hafa ekki komist yfir Hellisheiðina í slæmu skyggni. Vélar á leið til Reykjavíkur hafa þannig þurft að lenda á þessum flugvelli og menn jafnvel þurft að skilja vélarnar eftir og koma sér akandi í bæinn. Þannig að staðsetning og hlutverk þessa flugvallar hefur verið mjög mikilvægt í gegnum árin og hann gegnir miklu öryggishlutverki sem slíkur.“

Spurður hvort aðrir flugvellir í nágrenni Selfossflugvallar geti tekið við þessu hlutverki segir Jón Hörður að næstu flugvellir séu á Hellu, á Flúðum og á Hvolsvelli. Austar séu svo flugvellir á Bakka og í Múlakoti.

„Þannig að það eru vissulega aðrir flugvellir á Suðurlandi en Selfoss er sá völlur sem er næstur Reykjavík. Öryggishlutverk Selfossflugvallar er því ótvírætt,“ segir Jón Hörður Jónsson að lokum.