Framboð Nikki Haley lýsti yfir eindregnum stuðningi við Trump.
Framboð Nikki Haley lýsti yfir eindregnum stuðningi við Trump. — Getty Images via AFP/Joe Raedle
Ron DeSantis, Vivek Ramaswamy og Nikki Haley, fyrrverandi forsetaframbjóðendur, voru öll á meðal ræðumanna á öðrum degi flokksþings Repúblikanaflokksins í fyrradag, og lýstu þau öll þar yfir eindregnum stuðningi sínum við Donald Trump, sem varð hlutskarpastur í forvali flokksins

Ron DeSantis, Vivek Ramaswamy og Nikki Haley, fyrrverandi forsetaframbjóðendur, voru öll á meðal ræðumanna á öðrum degi flokksþings Repúblikanaflokksins í fyrradag, og lýstu þau öll þar yfir eindregnum stuðningi sínum við Donald Trump, sem varð hlutskarpastur í forvali flokksins.

Vakti ræða Haley þar mesta athygli, en hún var sá keppinautur Trumps sem entist lengst í framboði, og jafnframt sá sem hafði gagnrýnt hann hvað mest meðan á forvalinu stóð. Sagði hún að þörf væri á „sameinuðum Repúblikanaflokki“ til þess að bjarga hinni bandarísku þjóð frá voða.

Tók Haley sérstaklega fram að Trump hefði stuðning sinn í forsetaembættið, en stuðningsmenn hennar héldu áfram að kjósa hana í mótmælaskyni við Trump í forkosningum jafnvel eftir að hún hafði dregið framboð sitt til baka. Þá hafði Haley m.a. sagt að Bandaríkin myndu ekki þola „fjögur ár af ringulreið“ undir stjórn Trumps.

Ekki hafði verið gert ráð fyrir að Haley myndi ávarpa flokksþingið að þessu sinni, en hún sá sig um hönd eftir banatilræðið við Trump á laugardaginn var. Tóku þinggestir henni í fyrstu fálega og sumir bauluðu, en á endanum var henni tekið með lófataki þegar hún lýsti yfir stuðningi sínum við forsetaefnið.

Reyndi Haley að höfða til þeirra repúblikana sem gjalda varhug við að kjósa Trump á ný. „Treystið mér: Ég hef ekki alltaf verið sammála Trump forseta,“ sagði Haley. „En við erum oftar sammála en ósammála“.

J.D. Vance, varaforsetaefni Trumps, átti að ávarpa flokksþingið í nótt sem leið, á þriðja starfsdegi þess, en svo mun Trump sjálfur flytja þakkarræðu sínu seint í kvöld og þiggja þar formlega útnefningu Repúblikanaflokksins.