Ólafur Pálsson
oap@mbl.is
„Það er alls ekki gott að tímabilinu sé lokið. Að mínu áliti og fleiri á að gefa handfæraveiðar frjálsar í sex mánuði á ári, 48 daga á bát.“ Þetta segir Hjalti Þór Þorkelsson strandveiðimaður en strandveiðum lauk í gær. Stöðvunin tók gildi frá og með gærdeginum.
Erna Jónsdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslu- og upplýsingasviðs hjá Fiskistofu, segir að óhjákvæmilegt hafi verið að stöðva strandveiðar frá og með gærdeginum þar sem umtalsvert minna hafi verið eftir í potti aflaheimilda en þau 450 tonn sem Fiskistofa hefði getað gert ráð fyrir að myndu veiðast í gær. „Það var um 1% eftir í pottinum í gærmorgun, eða 126 tonn. Það hefði farið of langt fram yfir og fiskveiðistjórnun gengur út á ábyrga nýtingu,“ segir Erna.
Hvað strandveiðitímabilið varðar segir Hjalti að ekkert standi sérstaklega upp úr. Hann segir tíðarfar hafa verið erfitt á köflum en vekur athygli á því að gríðarlega mikið af fiski sé í sjónum. Segir hann alveg sama hvert sé farið út fyrir Vestfirði, það sé alls staðar fiskur og mikið af honum og menn séu örsnöggir að taka skammtinn. Segir hann að síðustu tvö ár hafi hann verið mikið meira var við fisk nær landinu en áður.
Meira en nóg af fiski
„Það er miklu meira af fiski í sjónum en Hafró vill nokkurn tímann segja frá. Ég er búinn að vera á sjó síðan 1974 og fór á færi 1977. Þá vorum við góðir ef við fórum fjórir og höfðum náð í fjögur tonn eftir þrjá sólarhringa en það væri ekkert mál að fara út núna og taka 2-3 tonn upp af mjög góðum fiski víða hérna fyrir utan. Menn geta verið að taka 770 kílóa skammtinn á undir klukkutíma,“ segir Hjalti og bætir því við að fiskgengd á grunnslóð sé miklu meiri í dag en hafi nokkurn tímann sést á hans sjómannstíð.
Hjalti segir mikið óréttlæti í strandveiðikerfinu, fiskurinn sé við Suðvesturlandið í apríl og maí og svo fyrir austan í júlí og ágúst og fram í september en fyrir utan Vestfirðina meira og minna allt tímabilið. Þetta er bara búið þegar fiskurinn er loksins að mæta austur fyrir land af einhverju viti.
Hann vill sjá að opnað verði á veiðar alla vikuna svo hægt verði að róa um helgar, séu skilyrði til þess. Í dag mega strandveiðimenn ekki fara út á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Hjalti segir strandveiðar umhverfisvænustu veiðar sem menn komast í. Það sé drepið á bátnum allan tímann sem menn séu á skaki og séu ekki með í gangi nema að hámarki fjóra tíma á dag ef þeir þurfa að sigla langt. Kveður hann veiðarnar mikilvægar byggðunum og segir þær skapa mikil umsvif þrátt fyrir að fiskurinn sé kannski unninn annars staðar.
Það er raunar allt sem mælir með veiðunum að mati Hjalta. Aðspurður segist hann verða að trúa því að strandveiðar verði gefnar frjálsar einn daginn og segir hann stjórnmálamenn einfaldlega þurfa að opna augun. „Stjórnmálamenn eru á svo miklum villigötum með þetta og ég held að það sé aðallega vegna þess að stórútgerðirnar ráða stjórnmálafólkinu, ég held að það sé aðalhöfuðverkurinn í þessu. Strandveiðar eru umhverfisvænar veiðar sem munu aldrei ganga af þorskinum hérna dauðum.“