Leigubílar Pawel segir þjónustuna eiga að hlusta á markaðinn og reyna að stíga inn í nútímann í stað þess að biðja löggjafa um að taka skref til baka.
Leigubílar Pawel segir þjónustuna eiga að hlusta á markaðinn og reyna að stíga inn í nútímann í stað þess að biðja löggjafa um að taka skref til baka. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Egill Aaron Ægisson egillaaron@mbl.is

Fréttaskýring

Egill Aaron Ægisson

egillaaron@mbl.is

Mikil umræða hefur verið um leigubílamarkaðinn undanfarið og þá sérstaklega um áhrif nýju laganna um leigubifreiðaakstur sem tekin voru upp í apríl í fyrra. Með lögunum voru fjöldatakmarkanir felldar brott og geta leigubílar einnig keyrt merkjalausir án aðildar að þjónustustöð. Lögin hafa verið gagnrýnd af Frama, félagi leigubifreiðastjóra, og Bandalagi íslenskra leigubílstjóra en einnig hafa félögin gagnrýnt þá ákvörðun stjórnvalda að leita ekki til þeirra umsagna þegar lögin voru samþykkt í desember 2022. Borið hefur á áhrifum lagasetningarinnar á leigubifreiðaakstur hérlendis og ýmiskonar skoðanir myndast. Farið verður í endurskoðun á lögunum í haust og vilja talsmenn leigubílstjóra að leitað verði til þeirra eftir áliti.

Pawel Bartoszek varaborgarfulltrúi Viðreisnar segir þjónustuna þurfa að stíga meira inn í nútímann og hætta að kalla eftir því að markaðurinn fari í sama far og var áður en ný leigubifreiðalög voru tekin upp.

„Ég held að það sé enn þá mjög oft þannig að fólk hringi og bíði á línunni og viti ekki hvenær bíllinn kemur og hvað hann kostar og þetta allt er búið að laga mjög mikið í Evrópu með allskyns öppum hvort sem það eru Bolt, Uber, Lyft eða bara einhver leigubílaöpp sem þeir hafa búið til,“ segir varaborgarfulltrúinn.

Nefnir Pawel þjónustuapp Hreyfils sem dæmi um það sem betur geti farið. Segir hann að ef horft sé til viðbragða notenda við appinu sé það ekki að skora hátt. Segir hann að það sé í höndum þeirra og annarra aðila á leigubílamarkaðnum að hlusta á markaðinn og á það sem neytendur segja. Þá geti þeir reynt að koma með lausnir sem tryggja þeim áfram þeirra góðu stöðu á markaðnum, í stað þess að leggjast á hnén og biðja löggjafa um að stíga skref til baka.

Tekur þá Pawel fram að honum finnist frábært að lögreglan skuli vera byrjuð að sinna nánara eftirliti með leigubílum hérlendis en mikil umræða skapaðist í samfélaginu eftir eftirlitsferð lögreglunnar í júní þar sem fjölmargir leigubílstjórar voru teknir fyrir hin ýmsu brot. Segir hann að ekki eigi að myndast einhverskonar villta vesturs ástand á markaðnum.

Pawel kveðst nota leigubíla reglulega þegar hann er í öðrum Evrópulöndum og sama hvaða app hann noti komi alltaf leigubíll sem sé merktur sem slíkur og hafi öll réttindi og númer frá sveitarfélaginu sem hann starfi í.

„Það er engin ástæða til að gera minni kröfur til þessara atriða hér þó svo að við föllum frá kröfum um einhverjar fjöldatakmarkanir eða aðild að stöð,“ segir varaborgarfulltrúinn.

Nefnir hann að ekki sé langt síðan fyrirtækið Hopp hafi komið á markaðinn og hafið svipaða tilraunastarfsemi, en þá hafi „gömlu aðilarnir á markaðnum“ farið í hindrandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að bílstjórar þeirra gætu notað vettvanginn. Nefnir Pawel að erlendis séu hins vegar margir bílstjórar sjálfstætt starfandi verktakar sem sinni starfi leigubílstjóra ásamt því að halda úti aðgangi á farveituforritum og virðist það ekki valda neinum teljandi vandræðum.

Þá segir Pawel þess konar forrit hafa jafnvel leyst mörg vandamál sem hinir gömlu tímar leigubílamarkaðsins voru að glíma við. Nefnir hann að fólk hafi oft verið mjög smeykt við leigubíla þegar í nýja borg var komið. Hvernig verðið yrði og hvernig bílstjóranir yrðu. Segir hann að með tilkomu forrita líkt og Uber og annarra farveitna sé minni ótti við leigubílstjóra. Allar upplýsingar um verð og leið og bílstjóra liggi fyrir áður en stigið er upp í bíl.

„Þannig að mér finnst að menn hafi tekið í burtu svolítið af þessari óvissu og nafnleysinu og óörygginu sem fylgdu gömlu leigubílaaðferðunum og ég myndi hvetja þá aðila sem eru aðeins uggandi yfir stöðu markaðsins að hlusta frekar á það sem neytendur eru að reyna að segja og nota sér þessa þætti sér í hag frekar en að segja „heyrðu förum bara aftur í gamla tímann,““ segir Pawel.

Um hvernig hann myndi vilja sjá lögin endurskoðuð segir hann að ekki þurfi að taka stór skref í frjálsræðisátt en ekki ætti að taka skref til baka heldur. Segir hann að þau vandamál sem upp hafa komið í kjölfar nýju laganna verði ekki leyst með fjöldatakmörkunum. Þurfi að beita þess í stað lögum.

„Ég hef nákvæmlega ekkert á móti því að ríkisvaldið beiti sínum úrræðum til þess að koma í veg fyrir óeðlilega viðskipahætti,“ segir Pawel og bætir við:

„Ríkisvaldið þarf náttúrulega að beita sinni sleggju af öllum þunga til að geta komið í veg fyrir allt slíkt svo að heiðarlegt fólk geti staðið í sínum viðskiptum. En við eigum að gera það með því að beita lögum en ekki endilega beita fjöldatakmörkunum sem leiðum að því markmiði.“