Gasa Ísraelskur herflutningabíll sést hér í námunda við landamæri Ísraels og Gasa í gær, þar sem átök Ísraels og Hamas-samtakanna geisa enn.
Gasa Ísraelskur herflutningabíll sést hér í námunda við landamæri Ísraels og Gasa í gær, þar sem átök Ísraels og Hamas-samtakanna geisa enn. — AFP/Menahem Kahana
Ísraelsher hélt áfram loftárásum sínum á Gasasvæðið í gær, en Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hét því í fyrradag að Ísraelar myndu halda áfram þrýstingi sínum á hryðjuverkasamtökin Hamas, á sama tíma og vonir alþjóðasamfélagsins hafa…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Ísraelsher hélt áfram loftárásum sínum á Gasasvæðið í gær, en Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hét því í fyrradag að Ísraelar myndu halda áfram þrýstingi sínum á hryðjuverkasamtökin Hamas, á sama tíma og vonir alþjóðasamfélagsins hafa staðið til þess að hægt verði að semja um vopnahlé í átökunum á Gasasvæðinu.

Netanjahú sagði í ræðu á ísraelska þinginu á þriðjudaginn að Ísraelsmenn væru með öll undirtök í átökunum, og að nú væri rétti tíminn til þess að knýja fram lausn allra gíslanna sem Hamas-samtökin hefðu enn á valdi sínu, bæði þeirra sem væru á lífi, auk líkamsleifa hinna látnu.

Ismail Haniyeh, stjórnmálaleiðtogi Hamas-samtakanna, sakaði í gær Ísraelsmenn um að grafa viljandi undan vopnahlésviðræðunum með árásum sínum, en Ísraelsher sagði að hann hefði framkvæmt 25 árásir á undangengnum sólarhring. Sögðu talsmenn Hamas-samtakanna að 52 hefðu fallið í þeim árásum.

Mikill órói ríkir einnig við landamæri Ísraels og Líbanons. Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah-samtakanna í Líbanon, hét því í gær að samtökin myndu skjóta eldflaugum á skotmörk í norðurhluta Ísraels sem ekki hefði verið skotið á áður, ef Ísraelsmenn héldu áfram árásum sínum á Líbanon. Þá varaði hann Ísraelsher eindregið við því að reyna innrás í Líbanon.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson