Nýtt námsmat sem leysa á samræmdu könnunarprófin af hólmi verður ekki innleitt að fullu fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026 til 2027. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir ekki til skoðunar að samræmd könnunarpróf verði tekin…

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Nýtt námsmat sem leysa á samræmdu könnunarprófin af hólmi verður ekki innleitt að fullu fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026 til 2027. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir ekki til skoðunar að samræmd könnunarpróf verði tekin tímabundið upp að nýju, þrátt fyrir að ljóst sé að minnst sex ár muni annars líða án þess að samræmd mæling verði framkvæmd á landsvísu.

„Lykilatriðið er að við erum að vinna þetta gríðarlega þétt með öllum aðilum og matsferillinn og hugsunin með honum er miklu betra tæki, ekki bara til þess að mæla skólakerfið, heldur líka fyrir kennara og þá sem eru að vinna með börnum dag frá degi, til þess að nýtast inni í skólastofum,“ segir ráðherrann.

Með lagabreytingu sumarið 2022 var skyldu um lagningu samræmdra prófa frestað til og með 31. desember árið 2024. Í samráðsgátt stjórnvalda má nú finna áform um að leggja niður samræmdu prófin. Er þar jafnframt fullyrt að gert sé ráð fyrir að ný mats­tæki verði tilbúin til notkunar í byrjun árs 2025. Nú er hins vegar ljóst að námsmatið verður ekki tilbúið fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026 til 2027.

Í tilkynningu stjórnvalda í júlí árið 2021 þar sem greint var frá því að samræmdu prófin yrðu ekki lögð fyrir haustið 2021 segir: „Nemendur í 4., 7. og 9. bekk í grunnskólum geta tekið ný hæfnimiðuð samræmd könnunarpróf næsta vor.“

Hvernig má það vera að það sé verið að lofa því að það verði komin ný próf strax árið 2022 en svo verður námsmatið ekki tilbúið fyrr en í fyrsta lagi 2026?

„Þróun matsferilsins hefur tekið lengri tíma, en eins og ég segi, það eru líka þessar utanaðkomandi aðstæður sem hafa haft áhrif. Það er kraftur í þessari vinnu núna,“ segir Ásmundur. Hann segir breytingar ávallt taka tíma og útskýrir að tafir á afgreiðslu stjórnarfrumvarps, sem laut að stofnun Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, hafi seinkað ferlinu. Stofnunin gegni lykilhlutverki í innleiðingu nýs námsmats. Spurður að því hvort það sé ekki á hans ábyrgð að koma frumvarpinu í gegn segir Ásmundur: „Jú, það er erfitt þegar þú ert búinn að skila þeim til þingsins og þingið ákveður að afgreiða engin stjórnarfrumvörp frá sér. Það var það sem gerðist.“

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildardóttir