Donald Trump fv. Bandaríkjaforseti hefur styrkt stöðu sína í bandarískum stjórnmálum til muna eftir banatilræðið við hann á laugardag, ekki aðeins gagnvart keppinauti sínum, Joe Biden Bandaríkjaforseta, heldur einnig innan Repúblikanaflokksins. Það sést m.a. af vali hans á varaforsetaefni, sem sé algerlega eftir hans höfði, en ekki tll þess að friðmælast við aðrar fylkingar innan flokksins.
Þetta segir Hermann Nökkvi Gunnarsson blaðamaður í viðtali í Dagmálum, en hann hefur fjallað mikið um bandarísk stjórnmál og þekkir þar vel til. Dagmál, streymi Morgunblaðsins á netinu, eru opin öllum áskrifendum.
Hins vegar hafi að mörgu leyti kveðið við nýjan tón hjá Trump eftir tilræðið, hann hafi forðast öll stóryrði síðan og lagt áherslu á breiða samstöðu þjóðarinnar á örlagatímum.
Hermann segir mikið mega lesa í valið á varaforsetaefninu J.D. Vance; skoðanir þeirra fari vel saman, en með valinu leitist Trump við að festa áherslur sínar í sessi, þannig að repúblikanar haldi tryggð við þær eftir að hann hverfur úr stjórnmálum. Vance sé hins vegar einarðari í einagrunarstefnu en Trump hafi verið, sem kunni að vera umhugsunarefni innan Atlantshafsbandalagsins.
Þó óvarlegt sé að spá um kosningaúrslit í haust segir Hermann að brekkan sé að verða of brött fyrir Biden og demókrata.