Evlalía Kristín Guðmundsdóttir (Edda) fæddist í Reykjavík 21. desember 1935. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 8. júlí 2024.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Gíslason sjómaður, f. 12. ágúst 1900, d. 17. desember 1952, og Guðbjörg Kristinsdóttir húsmóðir, f. 24. nóvember 1904, d. 31. maí 1969. Systir Eddu var Margrét Ólafía Guðmundsdóttir, f. 14. febrúar 1930, d. 30. desember 2019, sonur hennar er Guðmundur Benediktsson, f. 5. september 1960.
Edda ólst upp á Hverfisgötu 100b og lauk gagnfræðaskólaprófi frá Austurbæjarskóla árið 1951. Hún hóf störf hjá Matstofu Austurbæjar árið sem faðir hennar féll frá, einungis 17 ára gömul, en réð sig síðar til Hampiðjunnar og starfaði þar við skrifstofustörf til ársins 1959.
Eiginmaður Eddu var Birgir G. Albertsson, f. á Hesteyri í N-Ísafjarðarsýslu 27. maí 1935, d. 26. desember 2009. Foreldrar hans voru Borghild Berntsdóttir Albertsson (f. Årseth) húsmóðir, f. í Noregi 8. júlí 1900, d. 18. mars 1989, og Guðmundur H. Albertsson kaupmaður, f. á Hesteyri 20. maí 1896, d. 2. nóvember 1952. Systkini Birgis voru Dagný G. Albertsson, f. 31. maí 1925, d. 24. ágúst 2018, og Reidar G. Albertsson, f. 10. júlí 1928, d. 2. apríl 1982, giftur Oddrúnu Jónasdóttur Uri, f. 1939.
Birgir og Edda voru gefin saman 19. júlí 1959 í kapellunni í Vatnaskógi. Börn Eddu og Birgis: 1) Borghildur kennari, f. 1960, gift Agli Steinari Gíslasyni húsasmíðameistara, f. 1956. Börn þeirra: a) Steinunn Eik, f. 1988, b) Kristín Edda, f. 1990, c) Dagný Björk, f. 1992, d) Ingileif, f. 1995, e) Aldís Helga, f. 1997, f) Ægir Sölvi, f. 2001. 2) Guðmundur Albert skógarbóndi, f. 1961, sambýliskona Unnur Jóhannsdóttir fyrrverandi launafulltrúi, f. 1953. Barn þeirra er Edda Sonja, f. 1994, börn Unnar eru Kári, f. 1977, og Anna Birna, f. 1987, fósturdóttir Guðmundar. 3) Gunnar Friðrik viðskiptafræðingur, f. 1967, kvæntur Erlu Sesselju Jensdóttur viðskiptafræðingi, f. 1966. Börn þeirra: a) Hákon Freyr, f. 1991, b) Ester Elísabet, f. 1997, c) Baldvin Bjarki, f. 2002. 4) Guðbjörg Helga hjúkrunarfræðingur, f. 1969, gift Hlyni Sævarssyni prentsmið, f. 1965. Börn hennar og Jóhanns Guðnasonar viðskiptafræðinema, f. 1965, d. 1994: a) Birgir Daði, f. 1987, b) Agnes, f. 1990, c) Rebekka, f. 1993. Börn Guðbjargar og Hlyns: a) Ísabella, f. 1999, b) Tómas Orri, f. 2002. Dóttir Hlyns og fósturdóttir Guðbjargar er Katrín Melkorka, f. 1988.
Edda og Birgir stofnuðu heimili í Álfheimum og bjuggu þar í rúm 20 ár en árið 1981 flutti fjölskyldan í Lækjarás 5 í Seláshverfi. Síðustu þrjú árin bjó Edda á Sléttuvegi 27 í Reykjavík. Edda var sannkölluð ættmóðir af gamla skólanum, fylgdist vel með öllum sínum afkomendum og öðrum fjölskyldumeðlimum og bar hag allra fyrir brjósti. Hún tók virkan þátt í lífi þeirra.
Útför Eddu fer fram frá Áskirkju í Reykjavík í dag, 18. júlí 2024, og hefst kl. 13.
Lítill drengur heldur í hönd móður sinnar og horfir upp á hana með trúnaðartrausti þess sem veit að mamma getur lagað allt. Hann elskar mömmu þúsund og þreytist ekki á að segja henni það. Í huga drengsins er talan þúsund óendanlega stór og hann vill að mamma viti hversu mikið hann elskar hana. Þessi litli drengur er ég, og fyrir nokkrum dögum hélt ég í hönd mömmu og sagði henni í síðasta skiptið að ég elskaði hana þúsund. Kveðjustundin var sár og erfið því hvernig kveður maður þann sem gaf dýrmætustu gjöfina, lífið sjálft.
Við systkinin ólumst upp í Álfheimunum og má segja að hverfið hafi borið nafn með rentu því á þeim árum var það sannkallað ævintýraland. Við lékum okkur úti frá morgni til kvölds og var margt brallað. Á túninu fyrir neðan blokkina voru byggðir kofar og turnar, safnað í brennur og farið í fótbolta. Oftar en ekki kom ég heim skítugur upp fyrir haus með hárið sviðið en aldrei kvartaði mamma. Bað okkur bara um að fara gætilega og ekki hvað síst þegar farið var yfir Suðurlandsbrautina sem var henni mikill þyrnir í augum. Ég á ljúfar minningar frá því að ég sem lítill drengur fór með mömmu í fiskbúðina og mjólkurbúðina til að versla í hádegismatinn fyrir pabba. Ég ýmist valhoppaði við hlið hennar eða fór á handahlaupum og kom það sér vel því hún var stundum svolítið sein fyrir.
Foreldrar mínir kynntust árið 1958 í gegnum starf KFUM. Hjónaband þeirra var einstaklega farsælt og einkenndist af ást og virðingu. Þau gáfu okkur systkinunum gott veganesti út í lífið með bjartri og áhyggjulausri barnæsku og uppeldi sem grundvallaðist á kristnum gildum. Mamma var alltaf til staðar mild og góð og alltaf tilbúin að hugga, faðma og fyrirgefa. Hugurinn leitar til baka og ég fyllist þakklæti yfir öllum dásamlegu bernskuminningunum og ekki hvað síst ferðanna til Hesteyrar æskuheimilis pabba.
Mamma talaði oft um bernskuna á Hverfisgötunni. Hún ljómaði þegar hún rifjaði upp æskuárin með Möggu systur sinni en þær voru einstaklega nánar allt þar til Magga lést fyrir nokkrum árum. Bernskan tók skyndilegan endi þegar faðir mömmu lést þegar hún var einungis sautján ára. Hún saknaði hans alla tíð og talaði oft um hversu fínn hann hefði verið þegar hann fór í sparifötin á sunnudögum, setti upp hatt og færði þeim systrum sætabrauð úr hverfisbakaríinu.
Líf mömmu tók stakkaskiptum þegar pabbi lést árið 2009. Sorgin var þung en mamma tókst á við breyttan veruleika af dugnaði og æðruleysi. Hún tók alla tíð virkan þátt í lífi okkar og ekki hvað síst hin síðari ár þegar aldurinn fór að segja til sín. Mamma lá banaleguna umkringd afkomendum sem vildu gefa til baka og þakka henni fyrir allt það sem hún hafði gefið þeim á langri og kærleiksríkri ævi.
Afmælisdagurinn minn var alltaf dagurinn okkar mömmu og verður það áfram. Ég mun heiðra minningu hennar á þessum degi og minnast þess að ég elskaði mömmu þúsund allt til síðasta dags.
Elsku mamma, hafðu þökk fyrir allt og allt, þín er sárt saknað. Guð blessi minningu þína.
Þinn sonur,
Gunnar.
Elsku mamma mín. Nú er komið að kveðjustund og mér er orða vant. Það er erfitt að meðtaka að þú sért ekki lengur hér. Þú hefur „alltaf“ verið til og ávallt verið til staðar. Eftir að þú kvaddir hef ég margoft staðið mig að því að ætla að hringja í þig.
Mamma, Evlalía Kristín, Edda eins og hún var oftast kölluð, skilur eftir sig tómarúm meðal sinna afkomenda ekki hvað síst hjá barnabörnunum sem áttu við hana einstakt samband. Hún var góð í gegn og vildi öllum vel. Mamma var fyrst og fremst fjölskyldukona sem fylgdist með líðan og gengi afkomendanna fram á seinustu stund. Eigin frami og metnaður var ekki í fyrsta sæti. Oft fannst mér hún mega vera ákveðnari og standa á sínu. Það má kannski segja að mamma hafi fylgt þeirri stefnu að „sá vægir sem vitið hefur meira“.
Mamma var sannur Reykvíkingur, fæddist og dó í Reykjavík. Hún varð þó hrifin af Akranesi eftir að ég flutti þangað fyrir tæpum fjörutíu árum. Það voru ófáar ferðirnar sem hún kom siglandi með Akraborginni, í orlof í Jörundarholtið. Mamma var ein af þeim sem sáu eftir Akraborginni, var aldrei sjóveik enda sjómannsdóttir eins og hún sagði oft.
Elsku mamma, ég kveð þig með fallegum sálmi sem okkur og pabba var svo kær. Takk fyrir allt.
Ó, vef mig vængjum þínum
til verndar, Jesús hér,
og ljúfa hvíld mér ljáðu,
þótt lánið breyti sér.
Vert þú mér allt í öllu,
mín æðsta speki’ og ráð,
og lát um lífs míns daga
mig lifa’ af hreinni náð.
Tak burtu brot og syndir
með blóði, Jesús minn,
og hreint mér gefðu hjarta
og helgan vilja þinn.
Mig geym í gæslu þinni.
Mín gæti náð þín blíð,
að frið og hvíld mér færi
hin fagra næturtíð.
(Magnús Runólfsson)
Þín stóra dóttir,
Borghildur (Bogga).
Stundum er haft á orði að í tilhugalífinu sé skynsamlegt að gefa væntanlegum tengdaforeldrum góðan gaum því þeir geti gefið vísbendingu um framtíðina. Ég minnist þess ekki að ég hafi farið eftir þessum ráðleggingum en hefði ég gert það hefði ég fljótlega áttað mig á því að í Eddu og Birgi var ég að eignast dásamlega tengdaforeldra. Ég man þegar ég kom í mína fyrstu heimsókn í Lækjarásinn og Edda gægðist út úr eldhúsinu og heilsaði með sínu blíða og fallega brosi sem ég átti eftir að sjá svo oft næstu áratugina. Hún sagði mér síðar að henni hefði litist vel á þessa litlu ljóshærðu stúlku sem flýtti sér inn á eftir Gunnari og hún tók mér strax opnum örmum.
Við Gunnar hófum okkar sambúð í Lækjarásnum og elsti sonur okkar, Hákon, bjó þar fyrstu æviárin. Hann, eins og öll barnabörnin, naut þess að vera samvistum við ömmu og afa á efri hæðinni og ekki spillti fyrir að þar var gestkvæmt og oft glatt á hjalla. Í minningunni er Edda að baka vöfflur og þeyta rjóma. Birgir og systir Eddu, Magga, sitja við eldhúsborðið og oftar en ekki er Birgir að stríða Möggu með góðlátlegu glensi sem endar með hjartanlegum hlátri þeirra allra. Þau eru nú öll horfin á vit feðranna og má segja að hláturinn sé nú að eilífu hljóðnaður með fráfalli Eddu.
Eitt af því sem einkenndi Eddu var einlægur áhugi hennar á öllum í kringum sig. Þessi áhugi einskorðaðist ekki bara við eigin afkomendur heldur náði hann til allra sem hún hitti. Hún var stálminnug og kom oft á óvart með að muna eftir hinu og þessu sem aðrir hefðu líklega löngu verið búnir að gleyma. Hún hafði einstakt lag á því að láta hverjum þeim sem hún var að tala við líða eins og viðkomandi ætti sérstakan sess í hjarta hennar. Ég held reyndar að svo hafi verið. Hjarta Eddu virtist hafa ótakmarkað rými sem kom sér vel þegar barnabörnin fóru að koma í heiminn hvert á fætur öðru og í seinni tíð langömmubörnin. Hún ljómaði þegar hún talaði um langömmubörnin og var svo lánsöm að fá þau oft í heimsókn til sín á Sléttuveginn þar sem hún bjó síðustu æviárin. Hennar hinsta ósk var að fá örlítið meiri tíma til að fylgjast með afkomendunum en hún var þrotin að kröftum og kannski voru Birgir og Magga orðin langeyg eftir vöfflunum hennar.
Við sem eftir sitjum eigum eftir að sakna hennar sárt. Hún bað fyrir okkur á hverju kvöldi og ef einhver var að leggja í langferð fékk sá hinn sami sérstakar bænir með í farteskinu. Samverustundirnar eru nú perlur í festi minninganna. Minningar sem hvergi ber skugga á því Edda var einstök að því leyti að hún lifði svo fallega. Hún talaði aldrei illa um nokkurn mann og vildi öllum vel. Hún elskaði skilyrðislaust og við sem fengum að njóta elsku hennar erum þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hana hjá okkur svo lengi sem raun ber vitni.
Hjartans tengdamamma og amma okkar. Hafðu þökk fyrir allt. Við erum betri manneskjur fyrir að hafa þekkt þig og minningin um þig mun verða ljós í lífi okkar um ókomna tíð.
Erla Sesselja Jensdóttir, Hákon, Ester og Baldvin Gunnarsbörn.