Þorsteinn Ásgrímsson
thorsteinn@mbl.is
Tæplega 1.200 keppendur eru skráðir til leiks í alþjóðlegu hjólakeppninni The Rift sem hefst á Hvolsvelli á laugardaginn. Hjólað er upp á Fjallabak og í kringum Heklu á þeirri 200 kílómetra leið sem keppendur munu fara um. Mikill meirihluti keppenda kemur erlendis frá og hefur um helmingur þeirra tekið þátt áður. Nýjungar verða í kvennaflokkinum í ár og miðað við veðurspá virðast veðurguðirnir ætla að vera í liði með hjólreiðafólkinu.
Skipuleggjendur keppninnar segjast leggja sérstaka áherslu í ár að gera svæðið í kringum endamarkið sem skemmtilegast, fyrir keppendur, fjölskyldur þeirra og aðra áhorfendur. Hvetja þeir áhugasamt hjólreiðafólk til að fjölmenna eftir hádegi á laugardaginn á Hvolsvöll til að taka þátt í hjólreiðaveislunni og skapa skemmtilega stemningu.
Pílagrímsferð til fyrirheitna landsins
Þetta er í fimmta skipti sem keppnin fer fram, en hún laðar til landsins um 3.000 erlenda gesti ár hvert þar sem mjög algengt er að keppendur komi hingað með fjölskyldum og staldri við hér á landi í einhvern tíma fyrir og eftir keppni.
Það er íslenski hjólaframleiðandinn Lauf cycling sem stendur á bak við keppnina, en hún var fyrst haldin árið 2019, eftir að fyrirtækið setti á markað sitt fyrsta malarhjól. Varð keppnin þannig að einskonar pílagrímsferð fyrir áhugasama hjólreiðamenn sem vildu fá að hjóla um í landslaginu þar sem hugmyndin að Lauf-hjólunum fæddist. Hafa hjólin enda vakið verðskuldaða athygli á undanförnum árum vegna sérstaks demparagaffals sem er nokkuð frábrugðinn hefðbundnum dempurum á hjólum.
Stór hluti kemur ár eftir ár
Ólafur Thorarensen, sölu- og markaðsstjóri hjá Lauf, segir að af þeim tæplega 1.200 sem eru skráðir til leiks komi 90% erlendis frá og talsverður meirihluti þeirra frá Bandaríkjunum, en þar hafa malarhjólreiðar átt hvað bestu gengi að fagna. Ólafur segir að restin af erlendu keppendunum komi víðs vegar að úr heiminum, en flestir þó frá Evrópu. Þeir sem lengst komi að komi alla leið frá Ástralíu til þess að taka þátt í keppninni. Allt að helmingur hafi einnig komið áður og margir oftar en einu sinni. Því sé ljóst að keppnin togar fast í marga malarhjólreiðamenn sem eru með hana sem fastan punkt á hjóladagatalinu sínu.
Uppselt hefur verið öll árin í The Rift, en annað árið þurfti þó að aflýsa keppninni vegna faraldursins. Síðan þá hefur henni vaxið fiskur um hrygg og eftirspurnin alltaf verið meiri en framboð miða. Fyrstu þrjú árin var miðum í keppnina fjölgað nokkuð og upp í núverandi fjölda. Hefur sá fjöldi haldist síðan, en Ólafur segir að það sé í raun skortur á gistiplássi í nágrenni Hvolsvallar sem komi í veg fyrir að keppnin sé stækkuð enn meira. Ræst sé snemma að morgni og því séu keppendur ekki spenntir fyrir því að gista t.d. á höfuðborgarsvæðinu og keyra yfir 100 km um miðja nótt.
„Við viljum ekkert endilega stækka keppnina mikið, en 1.500 keppendur væri reyndar æðislegt," segir hann og bendir á að verið sé að byggja nýtt hótel á Hvolsvelli sem mun eflaust hjálpa eitthvað til.
Flestir á milli 40 og 60 ára
The Rift er bæði keppni fyrir atvinnumenn sem horfa á góðan árangur sem stórt prik í ferilskrána og áhugafólk sem er að keppa við sjálft sig og aðra í svipuðum getuflokki. Ekki er óalgengt að fólk sem nálgast miðjan aldur finni sig í útivist, hvort sem um er að ræða utanvegahlaup eða hjólreiðar og segir Ólafur ekkert leyndarmál að stærsti hluti keppenda í The Rift sé á aldrinum 40 til 60 ára.
„Þetta er fólk í allskonar formi,“ segir hann og bendir á að sumir séu eins og atvinnumenn meðan aðrir séu þreklega vaxnir og hafi meira gaman af því að lifa og njóta en að ná besta tímanum. Aðallega snúist þetta þá um að keppa við sjálfan sig. Með þennan aldursflokk segir Ólafur að algengt sé að um nokkuð efnaða ferðamenn að ræða sem séu á dýrari gerðinni af hjólum og komi hingað til lands, þrátt fyrir hátt verðlag, og ferðist um með fjölskyldunni.
70 starfsmenn á keppninni
Það að setja upp stóra keppni sem þessa, þar sem hjólað er 200 km leið þar af stór hluti á hálendinu, er ekki einföld aðgerð. Ólafur segir að Lauf ráði sérstakan skipuleggjanda, Hrannar Hafsteinsson hjá Live production, til að sjá um uppsetningu, merkingar og ýmiss önnur mál tengt keppnishaldinu og þegar allt sé tekið saman nemi sú vinna líklega 25-30% starfi yfir árið. Að sama skapi sé hann sjálfur í um 15% hlutfalli yfir árið sem tengist bara utanumhaldi, samskiptum og öðru skipulagi við keppnina
Þegar nálgast keppnisdag eykst þetta hlutfall nokkuð og segir Ólafur í smá gríni að nóttin í nótt hafi líklegast verið sú síðasta í þrjá til fjóra sólarhringa þar sem hann fær almennilegan svefn. Í raun segir hann að öll athygli annarra starfsmanna Lauf fari líka í keppnina síðustu dagana fyrir ræsingu. Mikill fjöldi annarra starfsmanna koma að keppninni og á keppnisdag eru þeir tæplega 70. Fyrir utan að sjá um ræsingu og umgjörð við endamarkið þarf öryggisgæslu í brautinni, starfsmenn á drykkjar- og matarstöðvar, aðstoð við vöð og almenna stjórnun
Breytingar á kvennaflokkinum
Það er þó ekki aðeins keppt í 200 km vegalengd, því einnig er boðið upp á 100 km og segir Ólafur að um 25% keppenda fari þá vegalengd. Þá er einnig í boði þægilegt 45 km samhjól á keppnisdag, en slíkt sé meðal annars vinsælt meðal maka keppenda og annarra sem mæti til að fylgjast með. Ekki þarf að skrá sig í samhjólið og hefst það um klukkan 10 á laugardaginn.
Í ár var ákveðið að gera breytingu á kvennaflokki þannig að konurnar fara af stað hálftíma á undan körlunum, eða klukkan 7:00 meðan karlarnir ræsa 7:30. Segir Ólafur þetta gert til kvennkeppendur fái sína eigin keppni og séu meira að keppa við aðrar konur en að keppa við karlana. Hlutfall kvenna meðal þátttakenda er um 20%, en það gerir yfir 200 konur, þannig að um nokkuð stóran hóp er að ræða.
Meðal erlendra keppenda sem munu líklega skipa sér í fremsta flokk í keppninni í ár er m.a. Simen Nordahl Svendsen, en hann varð öllum að óvörum sigurvegari í fyrra. Í kvennaflokki verða svo þær Morgan Aguirre, sem hjólar með Enough cycling, og Leah Van der Linden. Þá er rétt að nefna að þrjár af helstu íslensku vonarstjörnunum í karlaflokki mæta til leiks, en það er þríeykið Kristinn og Davíð Jónssynir og Breki Gunnarsson. Þá er gamla brýnið Hafsteinn Geir Ægisson einnig skráður til leiks og aldrei er hægt að afskrifa hann.
„Komdu og njóttu með okkur“
Ólafur segir að í ár verði aukin áhersla sett á endamarkið og svæðið þar í kring. „Við ætlum að gera það að mun skemmtilegri upplifun þegar fólk kemur í markið.“ Segir hann að mun meira verði í boði en bara að koma í mark og svo upp á hótel í sturtu. Í fyrra skapaðist nokkuð góð stemning þegar fólk fékk sér pylsu og eitthvað að drekka eftir keppnina og slakaði á við endamarkið til að spjalla við aðra hjólara. Segir Ólafur að aukin áhersla sé sett á þetta atriði til að skapa sem bestu stemninguna. Þannig verði fullt af veitingum í boði, hoppukastalar fyrir börn, klakabað til að leggjast í beint eftir keppnina og margt fleira. Aðaláherslan sé að búa til góðar minningar fyrir alla sem komi.
„Við hvetjum alla þá sem hafa áhuga á hjólreiðum að koma á Hvolsvöll upp úr hádegi og taka á móti hjólurum, fá sér pylsu og eitthvað að drekka með því. Þú ert ekki nema eina og hálfa klukkustund austur og það verður gaman hjá okkur við endamarkið,“ segir Ólafur og bætir við að lokum: „Komdu og njóttu með okkur því þetta er alvöru keppni.“