Flóra Saga Sigurðardóttir sýnir á sér nýja hlið sem listamaður og málar nú ljóðræn olíumálverk af blómum sem eru til sýnis yfir helgina í galleríi Móðurskipsins.
Flóra Saga Sigurðardóttir sýnir á sér nýja hlið sem listamaður og málar nú ljóðræn olíumálverk af blómum sem eru til sýnis yfir helgina í galleríi Móðurskipsins. — Ljósmyndir/Eygló Gísla
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Saga Sigurðardóttir er þekkt fyrir að vera einn helsti tískuljósmyndari landsins en hefur í seinni tíð snúið sér einnig að málverkinu. Nýlega var opnuð sýning hennar Flóra í galleríi Móðurskipsins þar sem hún sýnir á sér nýja hlið sem myndlistarmaður

Viðtal

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Saga Sigurðardóttir er þekkt fyrir að vera einn helsti tískuljósmyndari landsins en hefur í seinni tíð snúið sér einnig að málverkinu. Nýlega var opnuð sýning hennar Flóra í galleríi Móðurskipsins þar sem hún sýnir á sér nýja hlið sem myndlistarmaður. Fram til þessa hefur hún að mestu verið að mála abstrakt málverk en nú eru það blómin sem eiga hug hennar allan. Saga segir að móðurhlutverkið hafi átt stóran þátt í því að blómin urðu að þessu sinni fyrir valinu sem viðfangsefni í málverkum hennar.

Ljóðrænar myndir af blómum

„Stundum finnst mér eins og ég sé fædd á vitlausri öld. Að mála blóm er ekki nýtt þannig séð en þau hafa verið viðfangsefni listamanna í gegnum aldirnar. Þá er þetta síður en svo nýtt fyrir mér en ég hef alltaf verið að teikna og mála blóm frá því ég man eftir mér. Blóm eru líka ótrúlega falleg bæði hvað varðar form og liti,“ segir Saga sem segist líta til frönsku impressjónistanna hvað innblástur varðar.

„Ég mála eftir ljósmyndum sem ég hef tekið og stundum mála ég eftir minni. Ég legg ekki áherslu á að þetta séu nákvæmar teikningar heldur frekar ljóðrænar myndir af blómum. Þetta er eitthvað sem kemur til mín og ég hef litla sem enga stjórn á því. Þetta er stundum eins og hugleiðsla.“

Móðurhlutverkið breytti öllu

Saga upplifði miklar breytingar eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn fyrir einu og hálfu ári með Vilhelmi Antoni Jónssyni, tónlistar- og myndlistarmanni.

„Maður breytist svo mikið bæði sem listamaður og manneskja. Það er mjög spennandi að upplifa þessar breytingar en á sama tíma ákveðin áskorun. Maður hefur til dæmis öðruvísi hugmyndir um tímann og ég áttaði mig á því hvað tíminn er dýrmætur. Ég hef alltaf verið mikill vinnualki og þurfti með tilkomu barnsins að hugsa allt upp á nýtt hvernig maður nýtir tímann. Þá finn ég að mér var einnig meira sama um hvað öðrum finnst. Listin er eitthvað sem ég geri algjörlega fyrir mig. Ég þurfti líka að læra að sýna mér meiri mildi og þá fannst mér gott að geta málað eitthvað sem ég þekkti vel og hafði góð tök á. Þess vegna leitaði ég í blómamyndirnar og þá kom allt flæðandi til mín.“

Listin flæðir yfir allt

Saga lærði ljósmyndun í London og bjó þar í fleiri ár. Þar byrjaði hún fyrir alvöru að þreifa fyrir sér sem myndlistarmaður. Þó svo að myndlistin hafi fengið meira vægi í lífi Sögu upp á síðkastið þá er hún síður en svo hætt sem ljósmyndari. Saga segir að báðar greinarnar gefi sér mikið og bæti hvor aðra upp.

„Listin flæðir yfir allt sem ég geri. Ég hef alltaf verið mjög skapandi á öllum sviðum og hef ekki verið að setja mér mörk sem listamaður. Ég sinni listinni í gegnum margvíslega miðla hvort sem um er að ræða ljósmyndun, að leikstýra kvikmyndum eða þá að mála og semja ljóð. Ég fæ mikið út úr einverunni sem fylgir því að mála en ég finn einnig hversu nærandi það er að vera innan um fólk þegar ég er að taka ljósmyndir eða leikstýra. Það veitir mér mikinn innblástur í allri sköpun. Ég hef almennt mjög mikla þörf fyrir að skapa og leyfi mér að sinna mörgum ólíkum miðlum.“

Hjálpar að búa með listamanni

Aðspurð hvernig hún nái að skipuleggja sig með marga bolta á lofti segir Saga það hjálpa að búa með öðrum listamanni sem sýnir starfinu og sköpunarþörfinni skilning. „Við erum bæði listamenn og reynum markvisst að styðja hvort annað og hjálpa hvort öðru í að búa til tíma til þess að sinna sköpuninni. Það er einnig ákveðið frelsi sem felst í því að vera sjálfstætt starfandi og meiri sveigjanleiki en samt er tíminn alltaf af skornum skammti. Stundum hef ég klukkutíma til að mála og stundum bara tuttugu mínútur en ég hef, þrátt fyrir annir, lofað sjálfri mér að gefa mér alltaf tíma og reyna að týna ekki listakonunni í sjálfri mér.“

Styrkur að passa ekki í formið

Saga segir að umhverfi listamanna sé síður en svo auðvelt hér á landi og það þurfi að hafa alla anga úti. „Allir sem hafa verið sjálfstætt starfandi á Íslandi finna fyrir harki en það sem hefur hjálpað mér er að vera ekki með öll eggin í einni körfu. Það getur verið flókið en það hefur líka verið minn styrkleiki að passa ekki í bara eitt ákveðið form. Þá hafa þessar ólíku listgreinar sem ég sinni styrkt hvor aðra. Ég hef til dæmis gott auga fyrir uppbyggingu myndflatarins sem ég fæ frá reynslu minni og þekkingu sem ljósmyndari. Þá væri ég eflaust ekki að selja eins mikið af málverkum ef ég væri ekki nú þegar þekktur ljósmyndari en móttökurnar hafa verið góðar og ég er einstaklega þakklát fyrir það,“ segir Saga.

„Ég tek líka eftir því að umhverfið er annað í dag en fyrir tíu til fimmtán árum. Einu sinni þurfti fólk að velja eitthvað eitt og skilgreina sig út frá því. Í dag má vera alls konar og ég hef alltaf gert allt það sem hjartað segir mér að gera. Ég trúi því líka að ef maður er einlægur í sköpuninni þá mun það alltaf höfða til fólks. Fólk tekur eftir því þegar maður er trúr sjálfum sér og fylgir eigin sannfæringu.“

Ekki fundið fyrir mótbyr

Saga segist ekki hafa fundið fyrir mótlæti fyrir að vera kona í listaheiminum þrátt fyrir að hafa starfað í honum lengi og komið víða við. „Ég get náttúrulega ekki talað fyrir allan listaheiminn en sjálf hef ég bara jákvæða reynslu af því að vera kona í þessum heimi. Maður myndi halda að maður fyndi fyrir einhverju í karllægari geirum eins og ljósmyndageirinn er eða þá í leikstjórageiranum, en ég hef aldrei upplifað það. Mér hefur alltaf verið vel tekið enda er ég bara að gera mitt.“

Dreymir um eigin ljóðabók

Það er margt fram undan hjá Sögu en auk þess að sinna fjölbreyttum störfum til dæmis innan auglýsingageirans sem ljósmyndari og leikstjóri þá stefnir hún líka á að leggja drög að eigin stuttmynd. „Fram undan er að halda áfram að mála og skapa en mig dreymir einnig um að skrifa handrit að eigin stuttmynd sem ég myndi líka leikstýra og framleiða. Svo langar mig til þess að gefa út ljóðabók. Þetta er ekki beinlínis á döfinni en þetta eru draumarnir mínir,“ segir Saga en sýning hennar Flóra er opin um næstu helgi milli klukkan 12 og 15 í galleríi Móðurskipsins á Baldursgötu 36.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir