Karl 3. Bretakonungur hélt til Westminster-hallar í gær ásamt Kamillu Bretadrottningu til þess að vera viðstaddur setningu breska þingsins. Konungur ávarpaði þar báðar deildir þingsins venju samkvæmt, en ræða konungsins er jafnframt stefnuræða ríkisstjórnarinnar.
„Við munum leysa hagvöxtinn úr læðingi og taka bremsurnar af Bretlandi,“ sagði Keir Starmer forsætisráðherra þegar hann kynnti ræðuna, en Karl greindi frá rúmlega 35 lagafrumvörpum sem Verkamannaflokkurinn hyggst setja fram á komandi þingvetri.
Ríkisstjórnin mun t.d. setja aukinn kraft í að reisa nýtt húsnæði og stefnir m.a. á að breyta byggingarlögum til þess að auðvelda nýbyggingar. Þá heitir ríkisstjórnin því að herða landamæravörslu og banna reykingar í áföngum, auk þess sem hún vill bæta samskipti Breta við meginland Evrópu.