Andlegt ofbeldi Bókin er vel til þess fallin að efna til samtals um erfið málefni að mati bókarýnis.
Andlegt ofbeldi Bókin er vel til þess fallin að efna til samtals um erfið málefni að mati bókarýnis. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Eyja ★★★½· Eftir Ragnhildi Þrastardóttur Forlagið, 2024. Kilja, 121 bls.

Bækur

Snædís

Björnsdóttir

Hvað segirðu um kaffi í vikunni?“ Á þessum orðum hefst skáldsagan Eyja eftir Ragnhildi Þrastardóttur, rithöfund og blaðamann, sem vann handritasamkeppni Forlagsins Nýjar raddir 2023. Eyja er frumraun Ragnhildar líkt og titill verðlaunanna bendir til en þau eru veitt höfundum sem ekki hafa gefið út fleiri en eitt prósaverk hjá atvinnuforlagi. Bókin heitir einfaldlega í höfuðið á sögumanni, blaðakonunni Eyju, og hefst á því að fyrrverandi stjúpmamma hennar hefur samband við hana að því er virðist upp úr þurru. Stjúpmamman, Alexía, vill nú skyndilega ræða málin eftir margra ára fjarveru og í kjölfarið fer ýmislegt úr fortíð þeirra að skjóta upp kollinum. Fyrr en varir stendur Eyja síðan á tímamótum í sínu persónulega lífi og þarf að taka stórar ákvarðanir. Bókin fjallar um það að vaxa úr grasi og stíga inn í fullorðinsárin en hún segir líka sögu af þöggun, sektarkennd og andlegu ofbeldi. Lesturinn er líka svolítið eins og að hitta vinkonu í kaffi sem maður hefur ekki séð lengi og hlusta á æsilegar frásagnir af því sem hefur á daga hennar drifið. Og það á besta mögulega hátt.

Þegar þögnin verður að loga

„Það var þá sem þögnin hætti að særa mig. Eldiviðurinn sem særindin höfðu staflað upp í öll þessi ár var skraufþurr. Og nú var þögnin orðin að loga innra með mér. Loga sem ég fann að ég yrði að losa mig við,“ segir á einum stað (60). Þögnin er einmitt eitt af leiðarstefum bókarinnar og í henni er m.a. tekist á við eitraðar afleiðingar heimilisofbeldis og vanrækslu. Ofbeldi getur átt sér margar ólíkar birtingarmyndir og í frásögninni er þetta dregið fram á vandaðan hátt og af nákvæmni. Að þessu leyti er lesturinn líka krefjandi og erfiður á köflum þó að höfundi takist vel að stýra frásögninni þannig að skiptist á skin og skúrir. Bókin er sömuleiðis vel til þess fallin að vekja umræðu um þessi erfiðu málefni sem getur einmitt verið vandmeðfarið að hefja samtal um. Ég myndi mæla sérstaklega með henni fyrir ungt fólk, svo sem í kringum menntaskólaaldurinn, en allir aldurshópar ættu þó að geta samsamað sig sögunni og notið lestursins.

Það er stundum sagt að enginn sé eyland og í gegnum söguna þarf Eyja að horfast í augu við það hve einmanalegt það er að ætla sér að vera einn á báti án þess að stóla á neinn. Hún neyðist því til að gera upp við sig hvort hún geti sleppt taki af fortíðinni og lært að treysta öðrum eða hvort hún ætli að halda áfram að burðast ein með fortíðina í farteskinu. Spurningin er svo hvort henni takist að halda sér á floti í ólgusjó tilfinninganna eða hvort hún leyfi sér að sökkva.

Í viðtali við Morgunblaðið hefur Ragnhildur tjáð sig um það að ýmislegt í bókinni sé byggt á hennar eigin persónulegu reynslu. Þetta kemur m.a. fram í því að sögumaðurinn Eyja er blaðamaður líkt og höfundur og ýmis fréttatengd atriði koma við sögu. Lesturinn veitir sömuleiðis skemmtilega innsýn í starf blaðamannsins og með þá vitneskju er óhjákvæmilegt annað en að velta fyrir sér hve mikið úr reynsluheimi höfundar hafi ratað inn í söguna. Að því sögðu er líka ljóst af textanum að höfundur er reyndur penni og frásögnin er öll vandlega upp byggð og vel skrifuð. Tungumálið er þar að auki skemmtilegt og sagan er skrifuð á góðri íslensku sem fangar engu að síður tungutak ungs fólks. Þá dregur höfundur upp margar forvitnilegar myndir og sagan er yfirfull af lýsingum sem eiga það til að verða heldur ljóðrænar og stundum jafnvel nokkuð háfleygar, svo sem þegar talað er um „brosmenguð“ augu og „rauðleita fortíðarþrá“.

Safarík og efnismikil

Sögumaðurinn Eyja er líka háfleyg og dramatísk og það er eitt af því sem gerir hana heillandi. Það er auðvelt að hafa samúð með henni og samt er hún grimm og stundum fráhrindandi. Á köflum minnti hún mig á þekktar andhetjur skáldsagna bandaríska metsöluhöfundarins Ottessu Mosfegh, en Eyja er líka engum lík og hún er flókin og sannfærandi sögupersóna. Aukapersónur eru nokkuð margar og fá þær allar sitt pláss án þess þó að yfirgnæfa frásögnina. Reyndar kom mér á óvart hve lítið stjúpmamman Alexía kemur við sögu en ég hafði töluverðar væntingar til sambands þeirra sögumanns vegna þess hvernig sagan hefst.

Í frásögninni er flakkað fram og aftur í tíma á milli nútíðar og fortíðar og er það gert ansi hnökralaust. Þrátt fyrir að bókin sé stutt er hún efnismikil og safarík og lausir hnútar eru bundnir í lokin á forvitnilegan hátt. Að mínu mati er endirinn þó örlítið snubbóttur. Snúningarnir og vendingarnar í frásögninni eru margar og stundum hefði mátt dvelja lengur við einstök atriði eða söguþræði og gefa þeim þannig meiri fyllingu. T.a.m. er flókið samband Eyju við mat eitt af áhugaverðustu stefjum bókarinnar að mínu mati og hefði jafnvel mátt taka meira pláss þannig að áhrif líkingamálsins fengju að njóta sín betur. En þetta er stutt bók og auðvitað er takmarkað hve miklu er hægt að ná á fáum síðum. Ragnhildur hefur ákveðna og sterka rödd og á heildina litið er Eyja feikigóð bók sem er vel til þess fallin að efna til samtals um erfið málefni og er þar að auki góð afþreying. Ég meina það þegar ég segi að þetta sé tilvalin bók til að kippa með sér í sumarbústaðinn eða á sólarströndina.