Kári Freyr Kristinsson
karifreyr@mbl.is
Líkur eru á eldingum vestanlands seinni partinn í dag samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir daginn.
Í samtali við Morgunblaðið segir Marcel de Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, það alla jafna erfitt að spá fyrir um eldingar á Íslandi. Hann segir eldingar oft fylgja hellidembu sem er spáð á morgun.
„Það er möguleiki á að það komi eldingar líka, það er ótrúlega erfitt að spá fyrir um eldingar á Íslandi,“ segir hann. Marcel segir að skúrir muni myndast vestanlands seinnipartinn í dag og að á einhverjum stöðum geti orðið hellidemba.
Skriður ólíklegar
Aðspurður segist hann ekki búast við aurskriðum í kjölfar úrkomunnar. Rigningin muni standa yfir í stuttan tíma og á afmörkuðu svæði. Aurskriður séu algengari þegar meiri úrkoma er á stærra svæði eins og gerðist um seinustu helgi segir hann.
Síðastliðna helgi var slegið úrkomumet í Grundarfirði en gular veðurviðvaranir voru víða í gildi. Að minnsta kosti fimm skriður féllu yfir helgina en tilkynnt var um skriður í Dölum, á Barðaströnd, Snæfellsnesi og í Hítardal á Mýrum. Ein skriðan lokaði vegi í Svínadal í Dölum og voru vatnavextir miklir á Vesturlandi.
Að öðru leyti spáir Veðurstofan hægri eða breytilegri átt en sums staðar 5 til 10 metrum á sekúndu á annesjum. Spáð er að hiti verði 6 til 20 stig í dag, hlýjast á Norðvesturlandi, en svalast við austurströndina.
Marcel segir að lokum að þrátt fyrir að veðrið sé leiðinlegt sé það nokkuð tíðindalítið þessa dagana.