Stefán Rúnar Dagsson fæddist í Reykjavík og ólst upp í Snælandshverfinu. Hann hefur átt heima í Kópavogi alla sína tíð, ef frá er talið eitt og hálft ár þegar hann bjó í Mosfellsbænum. „Ég get tekið undir orð Gunnars Birgissonar um að það er gott að búa í Kópavogi,“ segir hann hress.
Það er þó stutt í Vestfirðinginn í honum, enda á hann ættir að rekja til Vestfjarða í báðar ættir. „Foreldrar mínir eru báðir frá Flateyri við Önundarfjörð og þar var ég alltaf á sumrin hjá afa mínum og ömmu. Það var alveg frábært að vera fyrir vestan á sumrin. Það var lítill hópur af börnum og við lékum okkur öll saman, mikið í fótbolta en líka eitthvað í frjálsum íþróttum því það voru alltaf haldin íþróttanámskeið á sumrin. Ég var nú aldrei góður í fótbolta, en var ágætur varamaður.“
Það voru fleiri ævintýri á Flateyri og Stefán segir að það hafi verið mjög gaman að veiða niðri á bryggju og á Oddatá, þar sem veiðin var góð því þangað fór úrgangurinn úr frystihúsinu. „Eitt sumarið var verið að gera smábátahöfnina á Flateyri og þá vorum við alltaf að fá far með trukkunum að ná í sandinn og mölina og það var svakalega spennandi að vera að þvælast í kringum það.“ Stefán segist alltaf hafa sterkar taugar til Flateyrar. „Mér þykir mjög vænt um þetta litla fallega bæjarfélag og reyni að heimsækja það annað hvert ár hið minnsta.“
Stefán var einnig í sveit á Svaðastöðum í Skagafirði þegar hann var orðinn aðeins eldri og þar kynntist hann bústörfum og íslensku sveitalífi. Á veturna var það skólalífið og eftir Snælandsskóla fór hann í Fjölbrautaskóla Garðabæjar og þaðan í Tækniskólann í iðnrekstrarfræði.
Allt gerist í IKEA
Stefán hefur tengst IKEA alla tíð. Móðir hans vann hjá fyrirtækinu og þegar hann var 13 ára sá hann um innkaupakerrurnar um jól og páska og stórar söluhelgar og var í því alveg til 15 ára aldurs. Þá tók hann smá hlé og fór yfir til Hagkaupa og vann í fríum hjá þeim fram að 18 ára aldri, en fór aftur til IKEA og vann meðfram menntaskóla. Þegar hann var á síðustu önninni í Tækniskólanum var honum boðið starf í innkaupum fyrir IKEA sem hann þáði. Það má segja að hann hafi unnið við allflest innan fyrirtækisins, en eftir innkaupadeildina varð hann sölustjóri og var það í mörg ár. „Árið 2011 fór ég til Litáen til að hjálpa til við uppsetningu á IKEA-versluninni þar og var um tíma þar að vinna sem gekk alveg glimrandi vel.“ Tveimur árum áður hafði hann verið gerður að aðstoðarframkvæmdastjóra IKEA og 2019 varð hann framkvæmdastjóri fyrirtækisins og gegnir þeirri stöðu í dag.
„Þetta er frábær vinnustaður og mikil samheldni og góður hópur af fólki. Svo eru verkefnin mjög fjölbreytt og þegar mikið er að gera þá gengur maður í öll störf. Það er gaman að vinna í svona umhverfi þar sem allir leggjast á eitt til að gera upplifun viðskiptavinanna sem ánægjulegasta. Svo má ekki gleyma því að við erum með vinsælasta veitingastaðinn á Íslandi.“
Stefán segir að það hafi verið ákveðið fyrir 15 árum að leggja meiri metnað í matinn heldur en þekkist víða erlendis hjá IKEA. „Svo opnuðum við kaffihús uppi og svo bakarí niðri sem hefur verið mjög vinsælt.“
Það er ekki nóg með að Stefán hafi starfað hjá IKEA nánast allan sinn starfsaldur heldur náði hann sér í kvenkost innan fyrirtækisins. „Hún var að vinna í bókhaldinu og launum og það þróaðist þannig að við urðum par,“ segir hann en bætir við að hún sé núna að vinna hjá öðru fyrirtæki. Börnin hans tvö eru hins vegar farin að vinna á sumrin hjá IKEA, svo það má segja að fyrirtækið leiki stórt hlutverk í fjölskyldulífinu.
Þegar Stefán er spurður um áhugamálin verður ekki fátt um svör. „Ég byrjaði að spila golf átta ára. Einn frændi minn átti golfsett á Flateyri og við byrjuðum nokkrir strákar að slá á kúlur, en ég geng í minn fyrsta golfklúbb 14 ára.“ Stefán hefur hlotið mörg verðlaun fyrir golf og stundaði það mikið fyrr á árum, vann í félagsstörfum við Golfklúbbinn Odd og var í nokkur ár liðsstjóri karlasveitar og hefur starfað í stjórn klúbbsins. „Svo hef ég haft brennandi áhuga á garðrækt frá því að ég var barn ég hef líka alltaf haft mikinn áhuga á dýrum, ekki síst fiskum, og hef verið með fiskabúr frá því að ég var 8-9 ára gamall.“ Hann segist þó hafa selt síðasta fiskabúrið sitt á dögunum, en hann hefur verið með koi-fiska í tjörn í garðinum undanfarin 16 ár. „Í dag er aðaláhugamálið að fara í ferðalög með fjölskyldunni og veiðar.“
Fjölskylda
Eiginkona Stefáns er Rut Gunnarsdóttir, f. 10.10. 1971, launafulltrúi/gjaldkeri hjá Garra, og þau búa við Vatnsendann í Kópavogi. Foreldrar Rutar eru Gunnar Alfreðsson, f. 1941, sendibílstjóri búsettur í Reykjavík og nú giftur Katrínu Björnsdóttur, og Sigríður Þórðardóttir, f. 1944, húsmóðir búsett í Hafnarfirði. Gunnar og Sigríður skildu.
Börn Stefáns og Rutar eru tvíburarnir Sunneva Bríet, nemi í Kvennaskólanum í Reykjavík, og Óðinn Þór, nemi í matvælaiðn í Menntaskólanum í Kópavogi, f. 17.7. 2007.
Systir Stefáns er Ragnheiður Sigríður, f. 20.1. 1968, starfar hjá Vinnumálastofnun og er búsett í Kópavogi.
Foreldrar Stefáns eru Dagur Stefán Ásgeirsson, f. 22.1. 1947, en hann starfaði hjá skipafélögunum Hafskip, Eimskip og Atlantsskipum við skrifstofu-, markaðs- og sölustörf, og Sunneva Traustadóttir, f. 2.2. 1947, var þjónustufulltrúi hjá Arion banka.