Sambandsdeild
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Það er allt undir hjá karlaliðum Stjörnunnar, Vals og Breiðabliks í seinni leikjum liðanna í 1. umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Annaðhvort halda þau áfram í 2. umferð eða þátttöku þeirra í Evrópukeppni er lokið.
Stjörnumenn standa best að vígi en Stjarnan mætir Linfield frá Norður-Írlandi í Belfast. Stjarnan vann fyrri leikinn á heimavelli sínum 2:0. Emil Atlason virtist í fyrstu hafa skorað bæði mörk Stjörnunnar en seinna markinu var síðar breytt í sjálfsmark.
Fyrri leikurinn var mjög jafn en Stjörnumenn nýttu færin sín betur. Linfield fékk sannarlega sín færi og Chris Shields skaut m.a. í slá úr vítaspyrnu. Einvígið er hvergi nærri búið og þurfa Stjörnumenn að spila vel á útivelli til að fara áfram.
Það myndi kæta Garðbæinga mikið að fara áfram, þar sem gengið í deildinni hefur ekki verið gott undanfarnar vikur, en liðið hefur aðeins fengið eitt stig úr síðustu þremur deildarleikjum.
Sigurliðið í einvíginu mætir annaðhvort Paide Linnameeskond frá Eistlandi eða Bala Town frá Wales í næstu umferð. Eistneska liðið vann fyrri leikinn á útivelli, 2:1. Stjarnan ætti að eiga fína möguleika gegn báðum liðum og því mikið undir í norðurírsku höfuðborginni í kvöld.
Spáð 40 stiga hita og látum
Valur mætir albanska liðinu Vllaznia á útivelli. Lúkas Logi Heimisson jafnaði í 2:2 á níundu mínútu uppbótartímans í fyrri leiknum á Hlíðarenda og tryggði Valsmönnum jafntefli. Guðmundur Andri Tryggvason hafði komið Val yfir í fyrri hálfleik, áður en Vllaznia svaraði með tveimur mörkum.
Gestirnir frá Albaníu voru vægast sagt ósáttir við jöfnunarmarkið. Stuðningsmenn slógust við gæslumenn eftir leik og stjórnarmenn Vllaznia hótuðu stjórnarmönnum Vals lífláti.
Morgunblaðið sló á þráðinn til Arnars Grétarssonar þjálfara Vals í Albaníu í gær, en Valsmenn voru mættir upp á liðshótelið eftir miðnætti eftir langt ferðalag á þriðjudag.
„Ferðalagið var þægilegt þótt það hafi verið langt,“ sagði Arnar við Morgunblaðið og hélt áfram:
„Við flugum frá Keflavík til Frankfurt klukkan 14 og eftir stutt stopp þar flugum við til Tirana og svo var bílferð upp á hótel. Við vorum komnir þangað um 1 eftir miðnætti. Við borðuðum aðeins og svo var farið upp í koju um 2 og menn vöknuðu í morgunmat um 11. Hótelið er til fyrirmyndar og í raun hefur allt verið til fyrirmyndar hingað til. Það er ekkert til að kvarta yfir,“ bætti hann við.
Nokkrir lykilmenn Vals hafa verið að glíma við meiðsli í sumar. Miðjumennirnir Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Jóhannsson hafa báðir misst af nokkrum leikjum, eins og Orri Sigurður Ómarsson í vörninni. Arnar vildi ekki fara ítarlega yfir hvort einhverjir leikmenn verði fjarverandi í Albaníu.
„Við verðum með ellefu manna lið en það eru alltaf einhver afföll. Við verðum með flott lið og markmiðið er að fara áfram í næstu umferð,“ sagði hann.
Arnar telur líkurnar á að fara áfram góðar, eftir fínan fyrri leik. Að mati Arnars voru Valsmenn mikið betri á Hlíðarenda og hefðu átt að fara með forskot til Albaníu.
„Við vorum miklu betri í fyrri leiknum og vorum með yfirburði. Það sem skiptir máli er að nýta þá og nýta færin sem þú skapar þér. Það er ekki nóg að vera með boltann allan tímann og nýta ekki færin. Við hefðum átt að vera með tveggja marka forskot miðað við hvernig fyrri leikurinn var.
Ef við eigum góðan leik eru mjög miklar líkur á að við getum farið áfram. Á góðum degi eigum við að slá þá út en þetta er opin viðureign. Víkingar voru mikið betri í báðum sínum leikjum en fóru ekki áfram,“ sagði hann.
Það er ekki aðeins búist við miklum hita og látum í stuðningsmönnum því spáð er tæplega 40 stiga hita í Shkodër.
„Það er hitabylgja hérna. Leikurinn byrjar 20:30 hér og þá er gert ráð fyrir 38 stiga hita og allt að 10.000 manns. Það eru ekki kjöraðstæður til að spila fótbolta í 40 stiga hita en það er líka slæmt fyrir þá. Þeir hafa æft í meiri hita en við en deildin þeirra er vetrardeild og þeir spila ekki í svona hita. Það verða vatnspásur og við förum varlega. Sem betur fer verður ekki sól þar sem við förum seint á stað,“ útskýrði Arnar.
Hann vildi ekki gera mikið úr látunum sem spruttu eftir fyrri leikinn á Hlíðarenda, en býst við látum í kvöld.
„Þetta eru hlutir sem leikmenn og þjálfarar hafa enga stjórn á. Stundum er hasar í þessu sem hefur ekkert með leikinn að gera. Við megum ekki spá í það. Við erum bara að fara að spila fótboltaleik og það er það eina sem við hugsum um. Það er búið að segja okkur að það verði allt í standi hérna og ég á ekki von á öðru en að það gangi eftir. Auðvitað verður hiti og menn vilja komast áfram en ég hef engar áhyggjur af að stuðningsmenn verði til vandræða eða komi inn á völlinn,“ sagði Arnar.
Sigurliðið í Albaníu mætir St. Mirren frá Skotlandi í næstu umferð.
Fóru illa með góða stöðu
Breiðablik er eina íslenska liðið sem á heimaleik í kvöld en Blikaliðið fær Tikves frá Norður-Makedóníu í heimsókn á Kópavogsvöll. Breiðablik fór illa að ráði sínu í fyrri leiknum ytra.
Viktor Karl Einarsson kom Blikum yfir á 13. mínútu og Kristófer Ingi Kristinsson bætti við öðru marki á 30. mínútu.
Tikves-menn svöruðu hins vegar með þremur mörkum á átta mínútna kafla og sneru leiknum sér í vil. Urðu lokatölur því 3:2, Tikves í vil.
Þrátt fyrir það högg fyrir Breiðablik er einvígið hvergi nærri búið. Breiðabliksliðið er erfitt heim að sækja á þessu stigi Sambandsdeildarinnar og hefur það alla burði til að snúa einvíginu sér í vil á nýjan leik.
„Það er svo auðvelt að fara í einhverjar greiningar og greina þessi mörk niður í öreindir en fyrst og fremst byrjuðum við of snemma að verja forskotið,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, við Morgunblaðið í gær.
„Það var auðvitað einhver þreyta, það var mjög heitt, en fyrst og fremst þurftum við að halda áfram að spila fótbolta. Við fórum of snemma í langa bolta og við það opnaðist leikurinn,“ bætti hann við.
Leikmenn Breiðabliks eru mun vanari því að spila í aðstæðunum sem boðið verður upp á í kvöld. Spáð er rigningu og þá líður Blikum vel á sínu gervigrasi.
„Hér höfum við auðvitað okkar völl, sléttan gervigrasvöll sem við þekkjum mjög vel og þægilegra hitastig en var úti. Ekki síst vitum við líka meira um andstæðinginn, þó við höfum skoðað hann vel fyrir útileikinn þá er öðruvísi að spila á móti þeim. Þetta er hörkulið með góða einstaklinga og við þekkjum þá aðeins betur núna. Okkur líður alltaf vel á Kópavogsvelli svo það er ánægjulegt að eiga heimaleikinn eftir,“ sagði Halldór.
Sigurliðið í kvöld mætir FC Drita frá Kósóvó í næstu umferð.