Átta. Það eru átta dagar þar til ofanritaður flýgur til Parísar ásamt ljósmyndara Morgunblaðsins til að sækja Ólympíuleikana og fylgja eftir okkar besta íþróttafólki. Fimm íslenskir keppendur hafa tryggt sér sæti á leikunum, færri en vonast var til

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Átta. Það eru átta dagar þar til ofanritaður flýgur til Parísar ásamt ljósmyndara Morgunblaðsins til að sækja Ólympíuleikana og fylgja eftir okkar besta íþróttafólki. Fimm íslenskir keppendur hafa tryggt sér sæti á leikunum, færri en vonast var til. Vonandi verða þeir mun fleiri í Los Angeles eftir fjögur ár og vonandi fara stjórnvöld að sjá betur um afreksíþróttafólk okkar.

Það er mikill efniviður í mörgum íþróttagreinum hér á landi og þjálfun til fyrirmyndar. Það vantar hins vegar meira og betra afreksstarf fyrir þá sem hafa alla burði til að komast í allra fremstu röð.

Það er erfitt fyrir íslenska keppendur að vera í fullri vinnu meðfram því að vera afreksíþróttamenn og keppa við íþróttamenn sem hafa það eitt að atvinnu að vera í afreksíþróttum. Keppinautar Íslands hafa því oftar en ekki forskot.

Þá eru ferðalögin í keppnisferðir erlendis dýrar og það er eins gott að yfirmenn séu skilningsríkir. Það kostar mikið að vera afreksíþróttamaður á Íslandi í dag og þarf íþróttafólkið okkar að færa miklar fórnir til að komast og halda sér í fremstu röð.

Vésteinn Hafsteinsson hefur komið með mikinn kraft inn í starfið hjá ÍSÍ í baráttunni um réttindi afreksíþróttafólks á Íslandi og vonandi mun það skila sér í bættum aðstæðum og í leiðinni bættum árangri okkar besta íþróttafólks.

Vésteinn benti á í viðtali að okkar besta listafólk væri á listamannalaunum frá ríkinu en okkar besta íþróttafólk væri skilið eftir. Auðvitað er það gott og blessað að okkar færu listamenn fái laun frá ríkinu, en það má ekki skilja íþróttafólkið okkar, sem hefur fært okkur svo mörg mögnuð augnablik, algjörlega eftir.