Herdís Tómasdóttir
herdis@mbl.is
Um 70 manns hafa greinst með ómíkrónafbrigði kórónuveirunnar á síðustu vikum en til þessa hefur enginn hinna sýktu veikst alvarlega.
„Það sem skiptir mestu máli, þar sem kórónuveiran er búin að vera í nokkur ár og er hvergi að fara, er að það sé ekki um alvarleg veikindi að ræða í samfélaginu, eins og hefur komið fram hjá Landspítalanum,“ segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í samtali við Morgunblaðið.
Ákveðið var að taka upp smitvarnaraðgerðir á Landspítalanum á þriðjudag eftir að smit greindust á átta deildum og 32 sjúklingar voru komnir í einangrun. Greind smit á spítalanum höfðu ekki verið fleiri frá því í ársbyrjun 2023. Til að koma í veg fyrir aukna útbreiðslu hefur grímuskylda verið tekin upp á ný og heimsóknartími styttur.
Guðrún segir eðlilegt að spítalinn grípi til slíkra aðgerða til að vernda sjúklinga og starfsmenn en að ástandið sé þó alls ekki þannig að grípa þurfi til aðgerða í samfélaginu.
„Bólusetningarnar virðast halda nokkuð vel í samfélaginu þannig að við erum ekki að sjá þessi alvarlegu veikindi sem voru áður þrátt fyrir að fleiri smit greinist nú. Eins og er höfum við enga ástæðu til að grípa til aðgerða og er ekkert í kortunum sem bendir til þess.“
Enn ung veira
Nú eru rúm fjögur ár liðin frá því að fyrsta kórónuveirusmitið greindist í heiminum. Veiran er ung og því er enn verið að reyna að skilja hegðun hennar. Að sögn Guðrúnar hagar kórónuveiran sér öðruvísi en inflúensa sem undir eðlilegum kringumstæðum kíkir við einu sinni á ári en kórónuveiran er dreifðari.
„Hún breytist meira og er útbreiðsla hennar og mynstrið ólíkt inflúensunni. Við erum bæði að sjá hana á sumrin og veturna, þó var toppurinn hærri í vetur en núna. Þetta er bara eins og hún hagar sér, kannski er þetta mynstrið hennar,“ segir Guðrún.
Þar að auki segir hún útbreiðslu kórónuveirusmita vera sambærilega annars staðar í heiminum, eins og í Bandaríkjunum og Evrópu. Afbrigðið er það sama og hér. Þá hefur ekki borið á alvarlegum veikindum, hvorki hér né úti í heimi.
Vakta áhættuhópa
Mikilvægast að mati Guðrúnar er að huga að áhættuhópum, þá eldri borgurum, ofnæmisbældum einstaklingum og öðrum með undirliggjandi sjúkdóma, sem geta orðið verulega veikir smitist þeir af veirunni.
„Þótt það hafi ekki verið neitt um alvarleg veikindi getur þetta verið slæmt fyrir fólk sem er inni á spítala, ef þetta leggst ofan á önnur veikindi. Þetta getur lengt dvölina á sjúkrahúsum og ýtt undir veikindin,“ segir Guðrún.
Hún segir ekki síður mikilvægt fyrir almenning að huga að áhættuhópum með því að passa hegðun sína í veikindum. Einnig hvetur hún áhættuhópa til að fylgjast með stöðu mála á næstu vikum.
„Það geta allir tekið þátt í því að vernda þessa hópa og á meðan áhættuhópar eru á milli bólusetninga hvet ég þá til þess að fara varlega ef það eru fleiri að smitast. Fólk skal reyna halda sér til hlés í veikindum og sinna almennum sóttvörnum. Það hefur eitthvað að segja, eins og í haust, að eldra fólk og einstaklingar í áhættuhópum þiggi síðan bólusetningu.“
Ekki verður gripið til neinna nýrra aðgerða hvað varðar bólusetningar og verður fyrirhugaðri stefnu haldið áfram að senda áhættuhópa í bólusetningar í haust. Nú þegar er nóg til af bóluefnum við kórónuveirunni og er uppfærð útgáfa á leiðinni.
„Bólusetning er ekki gegn smiti en hún verndar gegn alvarlegum veikindum og dauðsföllum en dvínar sérstaklega hjá eldra fólki á nokkrum mánuðum. Sá hópur virðist þurfa þessa örvun reglulega.“
Spurð að því hvort það séu gögn sem sýna fram á að bólusetningar virki til þess að draga úr alvarlegum veikindum segir hún að svo sé.
„Nú er búið að gefa milljón manns bóluefni og stærri þjóðfélög eru að framkvæma öflugar rannsóknir og bera saman hópa því þau eru með stærri hópa sem eru ekki bólusettir. Það virðist vera alveg óvefengjanlegt að þetta verndar gegn alvarlegum veikindum og er þá oftast miðað við innlögn á sjúkrahús eða andlát,“ segir Guðrún að lokum.