Hagnaður Icelandair á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam um 620 þúsund bandaríkjadölum (um 86 m.kr.). Rekstrarhagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIT) nam um 3,3 milljónum dala (um 460 m.kr.). Þrátt fyrir hagnað er þetta mun verri afkoma en á sama tíma í fyrra, þegar EBITDA-hagnaður nam 20,9 milljónum dala og hagnaður um 13,7 milljónum dala.
Þegar litið er á fyrstu sex mánuði ársins nemur EBITDA-hagnaður félagsins um 5,2 milljónum dala en var á sama tíma í fyrra um 23,5 milljónir dala. Heildartap á tímabilinu nemur um 59 milljónum dala, sem má að miklu leyti skrifa á aukinn fjármagnskostnað og afskriftir. Farþegatekjur félagsins hafa aukist um tæpar 30 milljónir dala á milli ára fyrstu sex mánuði ársins en launakostnaður hefur aukist um tæpar 17 milljónir dala. Eldsneytiskostnaður hefur dregist lítillega saman.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í uppgjörstilkynningu að eftirspurn eftir ferðum til Íslands sé ekki jafn sterk og á síðasta ári, og að breytt samsetning farþega hafi haft áhrif á fargjöld og tekjur. Þá segir hann að fjölmörg hagræðingarverkefni séu enn í vinnslu hjá félaginu sem muni skila árangri til lengri tíma.