Íslandsmeistarar Ragnhildur Kristinsdóttir og Logi Sigurðsson eru ríkjandi Íslandsmeistarar en þau urðu bæði meistarar í fyrsta skipti fyrir ári.
Íslandsmeistarar Ragnhildur Kristinsdóttir og Logi Sigurðsson eru ríkjandi Íslandsmeistarar en þau urðu bæði meistarar í fyrsta skipti fyrir ári. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmótið í golfi hefst í 83. sinn á Hólmsvelli í Leiru í dag. Metfjöldi kvenna tekur þátt á mótinu í ár en 57 konur verða meðal keppenda. Þá verða 96 karlar og því alls 153 keppendur. Mótið fer fram næstu fjóra daga en því lýkur á sunnudaginn

Golf

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Íslandsmótið í golfi hefst í 83. sinn á Hólmsvelli í Leiru í dag. Metfjöldi kvenna tekur þátt á mótinu í ár en 57 konur verða meðal keppenda. Þá verða 96 karlar og því alls 153 keppendur. Mótið fer fram næstu fjóra daga en því lýkur á sunnudaginn.

Mótið er haldið á Hólmsvelli í Leiru og er þetta í 21. sinn sem keppt er um Íslandsmeistaratitla hjá Golfklúbbi Suðurnesja, en klúbburinn fagnar 60 ára afmæli á þessu ári.

Íslandsmeistararnir frá því í fyrra, Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja og Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur, eru bæði með á mótinu í ár.

Andri Már Óskarsson úr Golfklúbbi Selfoss er fyrsti keppandinn sem slær af teig í dag, klukkan 7.30.

Þrettán ár á milli

Íslandsmótið í golfi fór síðast fram á Hólmsvelli fyrir 13 árum eða árið 2011. Þá unnu Axel Bóasson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, bæði úr Golfklúbbi Reykjavíkur, mótið.

21 leikmaður er á mótinu sem lék einnig á Hólmsvelli fyrir 13 árum. Einar Long úr GR er einn þeirra en hann var 53 ára þegar mótið fór fram fyrir þrettán árum og er nú 66 ára og næstelsti keppandi mótsins.

Fram til ársins 1986 fór Íslandsmótið fram með ýmsum hætti á Hólmsvellinum. Árið 1970 fóru lokadagarnir fram á Hólmsvelli en fyrri hlutinn á Hvaleyrarvelli. Árið 1978 vann Hannes Eyvindsson í fyrsta sinn, þá 21 árs. Hann er elsti keppandi mótsins í ár, 67 ára gamall.

Löng saga mótsins

Mótið á sér langa sögu en fyrst var keppt í karlaflokki árið 1942. Alls hefur 41 keppandi fengið nafnið sitt á verðlaunagripinn í karlaflokki. 16 kylfingar hafa þá unnið oftar en einu sinni. Flesta titla á Birgir Leifur Hafþórsson en hann hefur orðið Íslandsmeistari sjö sinnum.

Þá er Golfklúbbur Reykjavíkur með flesta titla eða 23. Golfklúbbur Akureyrar er með 20 titla og Golfklúbbur Keilis með 13 titla. Mótsmetið á Bjarki Pétursson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Hann lék á samtals 13 höggum undir pari á Hlíðavelli í Mosfellsbæ árið 2020.

58. kvennamótið

Konurnar komu þó seinna inn á Íslandsmótið en það var fyrst haldið í kvennaflokki árið 1967. Alls hafa 25 konur unnið Íslandsbikarinn í golfi og hafa 14 kylfingar sigrað oftar en einu sinni. Karen Sævarsdóttir á flesta titla eða átta talsins. Þá er GR með 23 titla, GK með 13 og GS með 11.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á mótsmetið í kvennaflokki. Hún lék á ellefu höggum undir pari á Jaðarsvelli á Akureyri árið 2016. Þá vann hún með einu höggi en Valdís Þóra Jónsdóttir var önnur á tíu höggum undir pari.

Hverjir eru líklegir?

Ríkjandi Íslandsmeistarinn Logi Sigurðsson er líklegastur enda á heimavelli. Þá eru margir aðrir kylfingar sem eru líklegir til árangurs og verða þeir sem hitta á daginn sinn sennilega fyrir ofan aðra jafningja.

Í karlaflokki eru þó fjórir sem hafa orðið Íslandsmeistarar áður. Hannes Eyvindarson er einn

þeirra en hann á að baki þrjá Íslandsmeistaratitla, en sá síðasti kom fyrir 44 árum. Þá vann Aron Snær Júlíusson úr GKG árið 2021 og Kristján Þór Einarsson úr GM árin 2008 og 2022.

Kvennamegin eru stærri nöfn með á mótinu en þrefaldi Íslandsmeistarinn og atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir er með. Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG og ríkjandi Íslandsmeistarinn Ragnhildur Kristinsdóttir, sem er atvinnukylfingur á næststerkustu atvinnumótaröð Evrópu, eru þá báðar einnig með með. Landsliðskonan Andrea Bergsdóttir og Perla Sól Sigurbrandsdóttir, sem varð Íslandsmeistari árið 2022 aðeins 15 ára gömul, eru þá einnig líklegar til árangurs.

Þá er hin þaulreynda Þórdís Geirsdóttir með á mótinu en hún hefur einnig orðið Íslandsmeistari. Það var árið 1987.

Hátt hlutfall kvenna

Eins og áður kom fram eru 57 keppendur á mótinu konur. Hlutfall kvenna er því 37% en hlutfallið var til að mynda 20% að meðaltali fyrir 20 árum. Árið 2022 fór fjöldi kvenna í fyrsta sinn yfir 40 en þá tóku 44 konur þátt í mótinu, nú eru þær 13 fleiri.

Mikil stemning fyrir mótinu

Mikil spenna er fyrir mótinu í ár og það verður hart barist um efstu sætin. Umgjörðin í kringum mótið er glæsileg og má búast við mikilli stemningu á golfvellinum. Morgunblaðið og mbl.is munu gera mótinu góð skil og segja lesendum frá því helsta á næstu dögum.

Höf.: Jökull Þorkelsson