Valdimar H. Jóhannesson
Einhver alvarlegasta afleiðingin af stjórnarsamstarfinu með VG er að ofstækisfullir loftslagstrúðar hafa fengið að leika lausum hala í þjóðfélagsumræðunni og skattleggja þjóðina. Fleiri en VG hafa misst fótfestuna svo almenn skynsemi fær ekki tækifæri áður en t.d. tugum þúsunda tonna af erlendu trjákurli er sturtað í hafið í landhelgina á þeirri forsendu að verið sé að vinna gegn hættulegri loftslagshlýnun af mannavöldum!
Þjóðin er látin taka á sig stórkostleg útgjöld vegna þess að hún getur fyrirsjáanlega ekki staðið við markmið um minnkun á losun koldíoxíðs, CO2, út í andrúmsloftið. Markmið sem aldrei var ástæða til að setja þjóðinni. Þjóðin var skattlögð án hennar samþykkis með undirritun loftslagsyfirlýsingar í lok hallelújasamkomu sértrúarmanna í París 2015. Spurningin hvort yfirleitt væri æskilegt að minnka koldíoxíðmagn í andrúmslofti er þó í meira lagi áleitin meðal margra vísindamanna.
Það er hvorki vísindalega sannað né líklegt að koltvísýringur í andrúmslofti hafi umtalsverð áhrif á hitastig jarðar umfram aðrar lofttegundir. Hins vegar liggur fyrir að án koltvísýringsins væri ekkert líf á jörðinni enda er hann aðalbyggingarefni lífsins. Einnig liggur fyrir að í jarðsögunni hefur þetta efni lífsins aldrei verið jafn fágætt og á yfirstandandi jökultíma undanfarnar þrjár milljónir ára. Vísindamenn þykjast sjá að magnið hafi verið allt að 15-20 sinnum meira áður síðustu 500 milljón árin eða um 7-8000 mólekúl af milljón, 7-8000 ppm, miðað við rúmlega 400 mólekúl af milljón (400 ppm) nú um stundir. Magn koltvísýrings er því núna 0,04% í andrúmslofti. Fyrir um 20 þúsund árum fór magnið af CO2 alveg niður í 180 ppm en að lágmarki þarf magnið að vera 150 ppm svo að lífið á jörðinni fjari ekki út. Við lá að endalok lífsins á jörðinni yrðu sex þúsund árum fyrir núverandi hlýindaskeið. Ef magn CO2 fer undir það mark nær plöntulífið ekki að vinna grundvallarefnið úr andrúmslofti til viðhalds jarðlífsins.
Auknum hita jarðar fylgir aukið magn CO2 í andrúmslofti. Orsakasamhengið er öfugt við fullyrðingar loftslagstrúboðanna sem segja að jörðin hitni vegna aukins magns kolsýrunnar. Fremstu vísindamenn heims á þessu sviði lýsa því að hundrað árum eftir að hitastig jarðar hækkar eykst koltvísýringur í andrúmslofti vegna þess að hafið, sem geymir langmest af efninu sem liggur á lausu, losar það frá sér við aukinn hita. Hafið er lengur að hitna en loftið. Allt loftslagshlýnunaræðið er því alveg út í bláinn og fráleitt að leggja í stórkostlegan kostnað til þess að takmarka aukið magn CO2 frá mannheimi þegar aukið magn er þvert á móti æskilegt til að auka á allan jarðargróða auk þess sem maðurinn hefur nær engin áhrif á hitastig jarðar. Ástæðu hitabreytinga á jörðinni er að leita utan jarðarinnar.
Rétt er að bregðast við ýmsum hættum sem steðja að jörðinni sem og að Íslandi, svo sem eldvirkni. Eldsumbrotin í Grindavík og Vestmannaeyjum voru áföll en þó hreinir smámunir miðað við það sem gæti gerst og hefur gerst. Skaftáreldar 1783 drápu 20% þjóðarinnar og stærstan hluta alls búfjár í landinu. Sambærilegt gos núna myndi valda miklum búsifjum hérlendis en einnig víða um heim eins og var fyrir 241 ári og það sem gerir ástandið enn þá alvarlegra er að ekki má vænta aðstoðar að utan, flugsamgöngur í lamasessi, og nánast barist um alla björg, matvæli, eldsneyti, lyf. Það eru ekki bara eldfjöllin hérlendis sem gætu ógnað mannlífi hér og víðar. Fróðlegt er að rifja upp frásagnir ásatrúarmanna um ragnarök eins og Cecilia Nielsen, danskur sagnfræðingur, gerði í sjónvarpsþætti um tilkomu Óðins.
Þegar ásatrú eins og við þekkjum hana var í deiglunni urðu nokkur stórgos á jörðinni árin 537-40. Þau þeyta óhemjumagni af ösku og gosefnum upp í himinhvolfið sem hefur m.a. þau áhrif að skerma sólargeisla frá svo stórum svæðum að í Evrópu kemur nánast ekkert sumar í þrjú ár heldur ríkir helkuldi um álfuna – fimbulvetur. Þetta sannast t.d. í árhringjum í viði frá þessum tíma. Samfélög manna riðlast, hver er sjálfum sér næstur og barist um lífsbjörgina. Upplausnarástand ríkir og miklir þjóðflutningar eiga sér stað um alla Evrópu.
Hugmyndin um ragnarök er komin beint frá þessum hörmungum. Fenrisúlfurinn er fundinn upp til þess að gleypa sólina í stað gosefnanna sem þessu fólki var ofviða að skilja og Miðgarðsormur gengur á land og spýr eitri eins og fylgir eldgosum. Sjö öldum síðar er skráð á skinn í klaustri á Íslandi snilldarlýsing á hamförunum í 45. erindi Völuspár:
„Bræður munu berjast
og að bönum verðast,
munu systrungar
sifjum spilla.
Hart er með höldum,
hórdómur mikill,
skeggjöld, skálmöld,
skildir klofna,
vindöld, vargöld
áður veröld steypist.“
Nær væri að hlusta á reynslu forfeðranna um hvernig heimsendir gæti orðið en að valda okkur skaða með niðurdælingu á koldíoxíði sem væri kannski betur geymt í andrúmslofti til að afstýra að allt líf þurrkist út á jörðinni á næsta jökulskeiði sem kemur jafn örugglega eins og nótt fylgir degi.
Fjármunum sem nú er varið í fráleitar lausnir eins og vindmyllur, rafmagnsbíla og að moka ofan í framræsingarskurði væri betur varið til að safna forða helstu lífsnauðsynja til þess að lifa ragnarökin af þegar heimskautafrost skellur á með samgönguleysi en ekki sólstrandarveðri. Segjum öllum þessum skaðlegu loftslagsatvinnumönnum upp störfum, segjum okkur frá Parísarsamkomulaginu og gefum alvöruvísindamönnum gaum. Það er ekki nýtt að hjarðdýrin taki yfir umræðuna. Munum eftir Kópernikusi og Galileo Galilei sem báðir máttu þakka fyrir að halda hausnum á 15. og 16. öld þegar þeir gengu gegn skólaspekinni, sem hjarðdýr nútímans hræra í hvort sem þau eru í stjórnmálum, háskólum eða á fjölmiðlum.
Höfundur er á eftirlaunaaldri.